Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 12:19:06 (3034)

1999-01-12 12:19:06# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[12:19]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að ég skuli stilla spurningum þannig upp að heila ræðu þurfi til að svara þeim. Það var ekki ætlunin. Ég spurði um afstöðuna gagnvart frv. sem ég lagði fram um breytingu á stjórn fiskveiða sem lýtur að grásleppu sem meðafla. Núna í dag --- það er ekki farið að veita eitt einasta leyfi til grásleppuveiða --- er farið að landa grásleppu sem meðafla. Ekki þarf annað en kíkja í blað allra landsmanna, sem kallað er, Morgunblaðið, til að sjá að farið er að landa grásleppu sem meðafla. Þetta frv. lýtur að því að grásleppu verði sleppt í sjóinn aftur. Það er samdóma skoðun sjómanna að grásleppa geti lifað, jafnvel þótt hún sé dregin af miklu dýpi, ég tala nú ekki um af grunnsævi, með því að sleppa henni í sjóinn aftur. Það er varla að hrogn séu í dag orðin nógu þroskuð til að taka þau til vinnslu. Það er þó gert. Þess vegna spurði ég um þetta. Ég veit að ekki bráðliggur á, en það þarf að gera það.

Síðan spurði ég um annað atriði sem mér finnst mikilvægt að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson svari. Telur hann að fjölmargir sjómenn sem stunda fiskveiðar við Ísland séu siðferðislega frjálsir menn, meðan þeir þurfa að henda afla í sjóinn aftur sem þeir geta ekki fengið arð af?