Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:17:22 (3043)

1999-01-12 13:17:22# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:17]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort það kunni að vera að afstaða hv. þm. til þessarar stofnunar byggi á því að í gagnagrunnsmálinu svokallaða hafi komið álitsgerð sem hv. þm. er ekki að skapi. En ég ítreka það sem ég nefndi áðan að þessar stofnanir starfa í nafni Háskóla Íslands og til þeirra eru gerðar ákveðnar akademískar kröfur. Þar starfa jafnframt fróðustu menn á sínu sviði sem hafa þá meginreglu að starfa hlutlægt. Ég tel það í rauninni alvarlega ásökun á stofnanir háskólans að ráðast á þær eins og hv. þm. gerði án þess að geta nefnt dæmi um það að því valdi sem fylgir að starfa undir merkjum Háskóla Íslands hafi verið misbeitt. Ég veit ekki dæmi þess og bið þá þingmanninn að nefna slík dæmi. Ég ítreka að hér eru fróðustu menn á sínu sviði sem starfa undir merkjum Háskóla Íslands, starfa undir merkjum akademíunnar með þeirri merkingu sem felst í akademíu.