Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 13:18:44 (3044)

1999-01-12 13:18:44# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[13:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að bregðast við þessu máli vegna þess að nauðsynlegt er að ræða það og nauðsynlegt fyrir þingið að öðlast sæmilegan skilning á vegna þess að þessi viðskipti fara í vaxandi mæli fram milli þingnefnda á hv. Alþingi og stofnana Háskóla Íslands þar sem menn eru að panta álitsgerðir. Hér kemur þingmaðurinn og talar um ákveðnar akademískar kröfur. Ég held það sé alveg nauðsynlegt fyrir Alþingi, kannski fyrir háskólann, ég veit það ekki, að kanna hvort menn séu þarna að fá álitsgerðir frá Háskóla Íslands. Eru menn að fá álitsgerðir frá Háskóla Íslands, undir fræðilegum kröfum þeirrar stofnunar? Er Háskóli Íslands að samsama sig með þeim álitsgerðum sem þaðan koma? (HjÁ: Lána nafn sitt.) Lána nafn sitt, það er nefnilega það sem er kannski hið alvarlega í málinu en ekki það að þetta mál er tekið upp í því samhengi sem ég reiði það fram. Ég er ekki að gera nokkra einustu athugasemd við það að menn sem eru starfandi við Háskóla Íslands veiti álit og taki fyrir það sanngjarna þóknun. Ég er ekki að gera neina athugasemd við það. Ég er að gera athugasemd við að farið er að ræða þessi efni eins og verið sé að reiða fram fræðilegar niðurstöður úr viskubrunni Háskóla Íslands. Það er það ekki. Að mínu mati er rangtúlkun að líta á að svo sé. Ég held að hv. þm. eigi að skoða þessi mál miklu betur og að full þörf sé á því fyrir þingið að átta sig á þessum þáttum. Þetta hefur færst mjög í vöxt. Álitsgerðirnar um Evrópusambandið og inngöngu í það voru eitt af því sem utanrrn. notfærði sér á sínum tíma. Álitsgerðir í þykkum doðröntum liggja fyrir en þær höfðu ekkert með viðhorf Háskóla Íslands að gera heldur var þetta seld vinna þeirra manna sem lögðu nafn sitt við.