Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:08:30 (3046)

1999-01-12 14:08:30# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, MagnM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:08]

Magnús Árni Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. lýsti áðan kostum og göllum kvótakerfisins. Hann taldi að helsti galli kerfisins væri að verðið á kvótanum væri of hátt. Samkvæmt þeim kokkabókum sem ég hef lesið hingað til greiða menn yfirleitt það verð sem þeir sjá sér hag í að greiða. Ef verðið er of hátt þá kaupa þeir ekki eða kaupa eitthvað annað. Ef verðið er hátt þá þýðir það að aflaheimildir eru mikils virði fyrir þá sem kaupa þær. Hvers vegna ekki að láta þá fjármuni sem menn eru til í að borga fyrir slíkar heimildir renna til eigenda auðlindarinnar frekar en þeirra einstaklinga sem voru á réttum stað á réttum tíma í byrjun síðasta áratugar?

Mig langar einnig að spyrja hv. 2. þm. Vesturl.: Hvað vill hann gera við þessu háa verði? Á að setja á verðstýringu og koma á verðlagsráði? Hvar er trú sjálfstæðismanna á hinn frjálsa markað?