Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:15:43 (3050)

1999-01-12 14:15:43# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mig grunaði að niðurstaða þingmannsins yrði sú að þetta væri mjög flókið af því að fyrirtæki í sjávarútvegi eru ýmislegt fleira en kvóti og staða þeirra fer ekki endilega eftir kvótastöðu, þ.e. rekstrarleg staða og söluandvirði fyrirtækisins eða hlutabréfanna.

En af því að þingmaðurinn vék aftur að fyrri ræðu sinni þar sem hann var að ræða um gjaldtöku í sjávarútvegi finnst mér ástæða til að komi fram vegna orða hans að jafnaðarmenn hafa talað um það að menn ættu að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni. Nú er það svo að eftir að stjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt fyrirliggjandi frv. og brtt. við það verður allur veiðiréttur á Íslandsmiðum orðinn söluvara og útvegsmenn eru að selja hver öðrum þennan rétt. Við höfum eðlilega spurt eins og þjóðin: Af hverju fá þeir að selja hver öðrum aðgang að auðlindinni þegar eigandi auðlindarinnar fær ekkert í sinn hlut? Þetta er sú grundvallarspurning sem menn verða að svara.

Þó svo að hið sjálfsagða gerist, sem þingmaðurinn vék að, að sjávarútvegurinn færi að borga sjálfur fyrir ýmsa þá þjónustu sem hann nýtur og færi þar með út af fjárlögum með ýmsa hluti stendur hitt þó eftir að Alþingi er búið að ákveða að veiðirétturinn sé söluvara og við það hljóta menn að setja spurningarmerki. Það hafa jafnaðarmenn gert og telja óeðlilegt að viðskipti með veiðiréttinn fari fram eins og þau gera í dag.