Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:05:50 (3062)

1999-01-13 11:05:50# 123. lþ. 55.91 fundur 209#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að vekja athygli hv. þm. og hæstv. forseta á því hvernig aðstæður eru í kringum afgreiðslu þessa máls. Ég held að nauðsynlegt sé að hv. þm. átti sig á því hvað á að fara að bjóða þeim upp á að ræða og síðan afgreiða síðar í dag, væntanlega við þriðju og síðustu afgreiðslu. Við erum vitni að vinnubrögðum sem eru einfaldlega ekki í lagi, herra forseti. Þessi mál eru tæknilega tiltölulega flókin fyrir utan að í þeim eru auðvitað fjölmörg viðkvæm pólitísk og hagsmunatengd ákvörðunaratriði. Það skiptir miklu máli og færir til mikla hagsmuni t.d. hvernig viðmiðunarmörk eru valin þegar stærðir báta, þök, prósentur, tonnatölur og annað slíkt er sett inn í lagatextann því það færir til verðmæt réttindi og hagsmuni sem nemur hundruðum þúsunda og milljónum hjá einyrkjum í þessari stétt smábáta.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég á að giska á að skekkjurnar, vitleysurnar og mistökin sem munu koma í ljós á næstu mánuðum verði tvær, þrjár eða fjórar. Ég spái því að þær verði af þeirri stærðargráðu. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum í starfi sjútvn. til þess að benda á atriði sem athuga þyrfti og lagfæra þyrfti og það hefur borið nokkurn árangur þrátt fyrir að ég hafi sjaldan kynnst leiðinlegra andrúmslofti en í nefndinni hvað það varðar að menn reyni að leggja gott til mála af því tagi. Það er óvenjulegt.

Samt er það þannig að eftir að málið er tekið út úr nefnd í gærkvöldi hefur meiri hlutinn greinilega ákveðið að gera frekari breytingar á frv. Það eru auðvitað afar slæm vinnubrögð, herra forseti, að ekki skuli liggja fyrir endanlegar ákvarðanir um efnistök þegar nefndir ljúka störfum, ég tala ekki um við seinni umfjöllun milli 2. og 3. umr. Það dæmir sig eiginlega sjálft, herra forseti, í ljósi þeirra þingskjala sem liggja nú fyrir og að þau voru svo seint fram komin að fresta varð upphafi fundar til þess að hægt væri að dreifa þeim.

Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, herra forseti, og ég vara þingmenn við því að blessa þau með atkvæði sínu síðar í dag.