Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:08:35 (3063)

1999-01-13 11:08:35# 123. lþ. 55.91 fundur 209#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um vinnubrögðin á Alþingi. En því miður, þrátt fyrir gagnrýni okkar á vinnubrögð í þessu máli, halda þau áfram að vera vond. Við þingmennirnir erum ekki einu sinni undrandi þegar við mætum til þings kl. 10.30 á þessum morgni eins og boðað er og fáum að vita að þingfundi sé frestað til kl. 11.00 af því að stjórnarmeirihlutinn í sjútvn. hefur ekki enn lokið þófi sínu. Við erum ekki einu sinni undrandi.

Ég vil, herra forseti, vekja athygli á því að í dag er 13. janúar og Alþingi var kallað saman 6. janúar í bráðræði og í raun og veru í ósætti af því að það átti að ljúka málinu svo hratt og nefndarmenn voru látnir sitja við vinnu milli jóla og nýárs og strax eftir áramót. Núna fyrir 3. umr. er verið að breyta því sem fyrir lá þrátt fyrir að við 2. umr. hafi eiginlega legið fyrir alveg nýtt frv. Þetta nýja frv. var rætt við 2. umr. og nú koma enn nýjar ákvarðanir, ákvarðanir sem voru ekki hluti af niðurstöðu formlegs nefndarstarfs í gærkvöld eins og upplýst er.

Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að þessi vinnubrögð eru fullkomin vanvirða við málið en þau eru líka fullkomin vanvirða við Alþingi.