Afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:10:37 (3064)

1999-01-13 11:10:37# 123. lþ. 55.91 fundur 209#B afgreiðsla sjávarútvegsnefndar á frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:10]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var í desembermánuði að hæstv. ríkisstjórn flutti frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða og lagði á það mikla áherslu að það yrði helst bara drifið í gegn, afgreitt. Samt vildi hún klára gagnagrunnsmálið fyrst og ég held Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þannig að þetta stórmál lenti í útideyfu sem betur fer vegna þess að það hefur komið í ljós að ýmislegt hefur þurft að gera málinu til góða síðan.

Í framhaldi af því voru svo haldnir fundir í hv. sjútvn. á milli jóla og nýárs, þann 29. desember, og svo aftur strax eftir áramót, mjög óvenjulegur tími. Þar kom fram að nauðsynlegt var að gera á frv. mjög víðtækar breytingar, lagfæringar vegna þess að málið er flókið, að ekki sé meira sagt, af því að við erum komin þarna út í að úthluta mönnum alveg niður í 100 kg af þorski. Við erum komin eins langt út í millimetraréttlætið og hægt er að hugsa sér í þessari stofnun. Það er flókið og eðlilegt að það sé flókið, liggur mér við að segja, og síðan var málið tekið til 2. umr. og það var afgreitt og býsnast alveg óskaplega mikið yfir því að stjórnarandstaðan hefði engar tillögur. Hæstv. sjútvrh. flutti 30 ræður um að stjórnarandstaðan hefði engar tillögur og það var í raun eina framlag ráðherrans til umræðunnar að stjórnarandstaðan hefði enga tillögu. Er ástæða til að þakka honum fyrir það að hann skuli allt í einu hafa áhuga á tillögum stjórnarandstöðunnar og er kominn tími til.

Málið var tekið fyrir í nefndinni á nýjan leik milli 2. og 3. umr. og sú fyrirtekt hófst í gær. Svo var málið tekið út úr nefndinni og svo fréttu glöggir þingmenn sem hlustuðu á fréttir kl. 11 og töldu sig hafa heyrt að allt annað mál hefði verið tekið út úr nefndinni kl. 11 samkvæmt fréttunum en hafði verið tekið út úr nefndinni kl. 9.

Svo heyrðu þeir sem voru árrisulir í morgun þann ágæta hv. formann sjútvn. segja frá því að málið hefði verið tekið út úr nefndinni með ýmsum breytingum í morgun sem ekki voru að öllu leyti með í gærkvöldi en svo sjáum við þingskjalið hér og þar er greinilega enn annað mál sem hefur verið tekið út úr nefndinni. Það er því bersýnilegt að full ástæða er til þess að taka sér enn lengra hlé vegna þess að það er alltaf hægt að bæta þetta mál og spurning hvort stjórnarliðið vill ekki taka sér eins og einn, tvo eða þrjá daga í viðbót vegna þess að það er greinilegt að málið er svo flókið að það verður að eyða meiri tíma í það.

En aðalgallinn við málið er sá að allar þær brtt. sem verið er að fjalla um t.d. í dag koma ekkert við dómi Hæstaréttar sem er þó upphaf málsins. Þær fjalla um allt aðra hluti, um úthlutun á millimetraréttlæti ríkisstjórnarinnar.