Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:27:09 (3067)

1999-01-13 11:27:09# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:27]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frv. sem lagt var fram í upphafi fyrir áramót var kynnt sem nauðsynlegt viðbragð við dómi Hæstaréttar. Það frv. sem á nú að fara að afgreiða er allt annað frv. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að kalla eftir því hjá formanni sjútvn. fyrir hönd meiri hlutans:

1. Hvaða efnisatriði í þeirri afgreiðslu sem á nú að fara fram telur hann að séu óhjákvæmileg viðbrögð við dómi Hæstaréttar og hvaða efnisatriði eru alls óskyldir hlutir?

2. Getur hv. formaður sjútvn. fullyrt fyrir sig og félaga sína að með þeirri afgreiðslu sem á að fara fram telji hann víst að úthlutunarreglur stjórnkerfis fiskveiða standist ákvæði jafnréttis og atvinnufrelsis í stjórnarskrá og 1. mgr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um sameign þjóðarinnar á auðlindinni? Getur hann fullyrt hér og nú að hann telji að með þeirri afgreiðslu sem nú á að fara fram sé búið að tryggja að þetta kerfi standist og að búið sé að fullnægja þeirri kröfu sem Hæstiréttur gerði?