Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 11:32:31 (3071)

1999-01-13 11:32:31# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[11:32]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég held að nú sé nauðsynlegt við upphaf 3. og síðustu umræðu þessa máls að fara yfir í fyrsta lagi þá stöðu sem nú er í málinu og í öðru lagi hvernig það hefur gengið fyrir sig.

Eins og fram kom við upphaf þingfundar þegar við ræddum um störf þingsins var málið tekið út úr sjútvn. í gærkvöldi þannig að það voru tvö efnisatriði sem orðin var niðurstaða um að ætti að breyta. Það var samt þannig strax rúmum klukkutíma síðar að nýtt efnisatriði virtist vera komið inn og, herra forseti, það birtist í nefndaráliti í morgun. En annað þeirra tveggja sem afgreidd voru út úr nefndinni sást hins vegar hvergi. Þannig má segja að það mál sem tekið var út úr nefndinni í gær hafi að þessu leytinu til tekið miklum stakkaskiptum.

Herra forseti. Auk þess sem annað af þeim álitamálum sem meiri hluti nefndarinnar ætlaði að líta á var það kynnt sem niðurstaða að aðferðum til að stemma stigu við stækkun flotans yrði beint inn í siglingalög. Þetta er sannarlega merkileg niðurstaða og merkilegur endir á nefndarstörfum sem áttu að snúast um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar.

Herra forseti. Það er augljóst að ríkisstjórnin er komin á hratt undanhald hvað varðar túlkun á dómi Hæstaréttar og þau viðbrögð sem hér voru strax sett fram. Það er líka augljóst að enginn sannfæringarkraftur er fyrir því lengur að hér sé verið að gera rétta hluti. Ríkisstjórnin er byrjuð að hrekjast undan í málinu vegna þess að með því að segja að það sé verið að leita leiða til þess að takmarka öðruvísi stækkun fiskiskipaflotans, þá eru menn í rauninni að segja: Það þurfti ekki að afnema alla 5. gr. Það var bara misskilningur, einn af þeim mörgu sem fram hafa komið í þessu máli.

Hingað til hafa stjórnarliðar varið það að afnema þyrfti 5. gr. með því að segja okkur að Hæstiréttur vildi það eða með upphafi setninga á þá leið að ,,sérfræðingar segi``. Þess vegna, herra forseti, hlýtur maður að undrast nú þegar ákveðið er að leita leiða til að komast fram hjá því sem áður var sagt að Hæstiréttur bæði um eða sérfræðingar teldu. Nú á að leita leiða til að komast fram hjá því að breyta úreldingar- eða endurnýjunarreglum. Það á að reyna að stemma stigu við stækkun flotans, ekki með því þó að láta greinina standa óbreytta í lögunum um stjórn fiskveiða eða þennan hlut hennar. Nei. Það á að leita leiða í siglingalögunum, herra forseti. Maður veltir því fyrir sér: Halda menn að Hæstiréttur nái bara til laganna um stjórn fiskveiða? Nær Hæstiréttur ekki líka til siglingalaganna? Eða hvernig er þetta hugsað? Geta menn eftir allt saman takmarkað stærð flotans? Var Hæstiréttur kannski aldrei eftir allt saman að biðja um afnám 5. gr.? Nú, þegar umfjöllun málsins á að fara að ljúka þá situr þingið og þjóðin eftir með þessa spurningu einfaldlega vegna þess að það sem lagt var upp með segja menn okkur núna að þurfi ekki að standa, það eigi bara að leita annarra leiða.

Herra forseti. Við í minni hlutanum höfum vissulega bent á þetta, að það ætti að leita leiða til þess að gera ekki það sem verið er að gera hér. En svörin hafa hingað til verið á þá lund að Hæstiréttur krefjist eða sérfræðingar segi. Þess vegna hljótum við að vera dálítið undrandi á því sem nú er að gerast.

Það er merkilegt þegar við erum að fjalla um þetta stóra mál að það frv. sem ríkisstjórnin lagði upphaflega fram er efnislega meira og minna orðið breytt og hugmyndir eru komnar fram um enn frekari breytingar --- þær eiga reyndar að gerast í annarri löggjöf --- en þær sem þegar hafa orðið. Þó voru menn býsna öruggir þegar frv. var kynnt um að nú væri verið að gera það sem Hæstiréttur væri að krefjast, nú væri verið að gera það sem sérfræðingarnir segðu. En, herra forseti, þetta sýnist mér að sé því miður fyrst og fremst staðfesting á því sem við höfum verið að segja: Þessi viðbrögð eru alls ófullnægjandi. Þessi viðbrögð mæta ekki dómi Hæstaréttar og þingið hefði þurft að taka sér annan tíma og betri í að fara yfir þessi mál.

Þær eru margar og langar ræðurnar sem hafa verið haldnar á Alþingi Íslendinga um stjórn fiskveiða á undanförnum árum. Það má segja að í þeim hafi verið fastur undirtónn sem fluttur var inn, má segja, á þeirri bylgju réttlætistilfinningar sem almenningur í landinu hefur gagnvart því hvernig eigi að úthluta veiðiheimildum eða umgangast sameiginlega auðlind þjóðarinnar.

Þegar grunnurinn að því fiskveiðistjórnarkerfi sem við nú búum við var tekinn upp árið 1984 var það gert undir þeim formerkjum að við værum að vernda fiskstofnana. Og af því að þjóðin hefur alla tíð látið sér annt um auðlindir sínar þá var þessi ráðstöfun ekki mikið gagnrýnd. Menn treystu sérfræðingum sínum, menn treystu stjórnmálamönnum sínum og ágreiningurinn sem varð um málið varð ekki meiri en svo að það var ákveðið á Alþingi að fara út í nýja stjórn á veiðum, stjórn sem síðan hefur verið kölluð kvótakerfi. Menn áttuðu sig ekki á því í upphafi, a.m.k. ekki allir og ég hygg að þeir hafi verið tiltölulega fáir og þeir fóru vel með það, hvaða afleiðingar þetta kerfi mundi hafa í efnahagslegum skilningi. Ég veit líka að býsna margir töldu að kerfið mundi hafa jákvæðar afleiðingar hvað það varðaði að byggja upp fiskstofnana. En menn eru fyrir löngu hættir að trúa því að það hafi verið hin raunverulega ástæða. Hin raunverulega ástæða reyndist vera og var staðfest árið 1990, að koma hér upp ákveðnu hagfræðimódeli, ákveðinni festu í efnahagsstjórn okkar og það er út af fyrir sig allt í lagi. Það er út af fyrir sig sjálfsagt að þegar við erum að fjalla um nýtingu okkar undirstöðuatvinnugreinar, þá skoðum við virkilega hvernig nýtingin má vera sem hagkvæmust og setjum upp kerfi sem ekki hvað síst tekur mið af því. En kannski vegna þess hvert upphafið var, þá hafa staðið linnulausar deilur um þetta kerfi meira og minna síðan.

Herra forseti. Þessar deilur hafa magnast á síðari árum frekar en hitt. Og hvað er það þá sem hefur magnað þessar deilur? Hvað er það sem hefur vakið reiði fólksins í landinu? Hvað er það sem hefur komið þannig við réttlætiskennd þess að það hefur mætt á fjöldafundi og verið tilbúið til að tjá sig og hafa skoðun hvar og hvenær sem er? Jú, herra forseti. Það er sú staðreynd að aðgangi af auðlindinni er úthlutað á sögulegum grunni. Aðgangi að auðlindinni er ekki úthlutað í hlutfalli við það hvað menn vilja veiða eða hverjir ætla að fara til veiða. Aðganginum að auðlindinni hefur verið úthlutað á sögulegum grunni án tillits til þess. Síðan hafa þeir sem hafa fengið aflaheimildunum úthlutað séð um það sín í milli að jafna þannig að hver gæti sótt það sem honum þótti réttast, best eða hagkvæmast. Þannig hefur orðið til það kerfi sem menn hafa svo mjög fordæmt, að veiðiheimildirnar gangi kaupum og sölum á milli þeirra sem fengu þeim úthlutað ókeypis.

Herra forseti. Þetta er grunnur þeirrar óánægju sem verið hefur. Ég hygg að meiri hluti þjóðarinnar hafi lesið dóm Hæstaréttar og skilið hann upphaflega á þann veg að verið væri að taka á þessu óréttlæti, að verið væri að taka á úthlutuninni. Það er sú merking sem meiri hluti þjóðarinnar leggur enn þann dag í dag í niðurstöðu Hæstaréttar. Hins vegar er ljóst að hæstv. ríkisstjórn kaus strax að leggja annan skilning í þetta mál, skilning sem það eitt stendur eftir af að allir þurfi að geta fengið veiðileyfi. Það stendur í sjálfu sér ekkert annað eftir vegna þess að það að allir verði að geta keypt sér skip stenst ekki í smábátakerfinu. Því verður ekki breytt þar á næstunni. Og svo á að komast fram hjá því að aðrir geti keypt sér skip með ákvæðum í siglingalögum. Herra forseti. Þannig stendur orðið lítið eftir og það hversu hratt undanhaldið hefur verið hlýtur að ýta undir þann ugg sem menn hafa borið í brjósti gagnvart því hvernig brugðist var við og hvernig á málum hefur verið haldið.

[11:45]

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur haldið uppi öflugum málflutningi í sjávarútvegsmálum á þessu kjörtímabili. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram tillögur um að sett yrði á laggirnar nefnd, að ákveðið yrði að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi og sett yrði upp nefnd til þess að taka ákvörðun um með hvaða hætti það yrði gert. Stjórnarandstaðan hefur flutt frumvörp um að veiðiskylda á úthlutuðum aflaheimildum yrði aukin. Hún hefur líka flutt frumvörp um það hvernig ætti að fara með meðafla til þess að minnka brottkast sem menn hafa sagt okkur undanfarna daga héðan úr þessum ræðustóli að væri geigvænlegt. Stjórnarandstaðan hefur líka flutt tillögur um að heimilt verði að fram færi uppboð á norsk-íslenska síldarstofninum vegna þess að þar var ekki veiðireynsla fyrir hendi. Það átti það enginn, eins og þar stendur. Stjórnarandstaðan hefur flutt tillögur um að afli yrði seldur yfir fiskmarkaði. Stjórnarandstaðan hefur flutt ákvæði um að það yrðu sett sólarlagsákvæði í lögin til að tryggja að þau yrðu endurskoðuð frá grunni. Þetta er bara brot af þeim málum sem stjórnarandstaðan hefur flutt. En auk þeirra mála sem flutt hafa verið hafa menn verið ötulir við að benda á leiðir til þess að bæta þá stöðu sem hér er, til þess að þróa nýtt kerfi sem gæti orðið meiri sátt um og sem í mörgum tilfellum gæti verið vel til þess fallið að styðja við jákvæða og eðlilega byggðaþróun í landinu.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki sýnt þessum málum stjórnarandstöðunnar mikinn áhuga. Við höfum stundum fengið að tala hvert við annað, stundum hefur ráðherra verið viðstaddur ef málin okkar hafa verið hengd aftan í einhver mála hans, en umræður hafa orðið mismiklar og áhuginn mismikill. Það er þess vegna sérkennilegt, herra forseti, nú þegar ríkisstjórnin er í raun búin að klúðra öllu, búin að stefna öllu í óefni, hún hefur ekki viljað hlusta á stjórnarandstöðuna og ekki viljað líta á tillögur hennar, tillögur sem ég er sannfærð um að hefðu, ef þær hefðu verið samþykktar, getað haft áhrif á gang mála á þann veg að e.t.v. stæðum við ekki frammi fyrir þessum dómi Hæstaréttar, að þá skuli fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna koma hér og rífast yfir því að stjórnarandstaðan skuli ekki koma með tillögur um það nú hvernig þeir geti leyst sitt eigið klúður. Það er mjög merkilegt að sitja undir þessum málflutningi en þetta er í rauninni það sem a.m.k. hæstv. sjútvrh. hefur aðallega lagt til umræðunnar, þ.e. að skammast yfir því að stjórnarandstaðan skuli eftir allt sem á undan er gengið ekki koma með reddingar handa honum í sínu eigin klúðri. Það er líka ljóst, herra forseti, að málflutningur sem þessi dæmir sig sjálfur og hefur alltaf gert það.

Það er fróðlegt nú þegar þetta mál er að verða unnið hér til enda, ekki til fullnustu en til enda að mati meiri hluta sjútvn., að velta fyrir sér hvernig hin fyrstu viðbrögð voru við dómi Hæstaréttar. Lögmenn, af því að það eru til fleiri lögmenn en sérfræðingar hæstv. ráðherra, eins og Davíð Þór Björgvinsson létu hafa það eftir sér og því var slegið upp í fyrirsögnum að þetta væru mikil tíðindi og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifaði grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni ,,Dómur aldarinnar.`` Svo stórt þótti mönnum þetta mál, svolítið stærra en hæstv. ríkisstjórn --- eða hvað? --- sem nú er einungis með það eftir sem viðbrögð við dómi Hæstaréttar að allir eigi að geta fengið veiðileyfi.

Viðbrögð almennings voru á svipaða lund og það að ráðuneytinu væri ekki stætt á að neita einstaklingi um kvóta var fyrsta fyrirsögn Morgunblaðsins eftir birtingu dómsins. Menn gátu lesið viðbrögð fjölmargra af því hversu ótt og títt umsóknir um veiðileyfi og umsóknir um veiðiheimildir streymdu inn í ráðuneytið en það bárust reglulega fréttir af því hvernig faxtæki og sími höfðu hreinlega ekki undan á þeim bæ. Lesendabréf voru skrifuð, hringt inn, greinaskrif í blöðum og margir þeirra sem gáfu umsögn sína um frumvarp ríkisstjórnarinnar, herra forseti, eftir að það var komið fram, töldu að ekki væri verið að bregðast við dómi Hæstaréttar og þeir voru ýmsir sem héldu því fram að verið væri að nota tækifærið til að gera eitthvað allt annað en það sem dómurinn kallaði á.

Ég gat þess, herra forseti, að lögmenn hefðu blandað sér í umræðuna um þetta mál opinberlega og í umfjöllun um dóminn var reifað að þessi dómur Hæstaréttar væri í raun sömu ættar og dómar frá t.d. þýska stjórnlagadómstólnum og Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem því er lýst yfir að tiltekið fyrirkomulag löggjafar standist ekki stjórnarskrá eða aðrar grunnreglur. Löggjafanum er hins vegar gefinn frestur til að bregðast við. Hann hefur frelsi um leiðir til að bregðast við en markmiðin um jafnræði og atvinnufrelsi verða að nást auk ákvarðana um hagkvæmni og sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum.

Vegna þess að hv. formaður nefndarinnar sagði úr ræðustóli Alþingis að það væru einungis fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hefðu talað á ákveðinn veg, þá vil ég, herra forseti, gjarnan vitna í það sem virtir lögmenn hafa sagt um þetta efni. Ég ætla þar fyrst að vitna í Ragnar Aðalsteinsson sem sagði í Morgunblaðinu 5. desember sl. að með dómi Hæstaréttar hafi verið stigið merkt skref í stjórnskipunarsögu Íslands og stórt skref í átt til þess sem kallað hefði verið stjórnarskrárríkið sem mikið hefði verið til umræðu á undanförnum árum um heim allan meðal lögfræðinga, stjórnmálafræðinga, heimspekinga og fleiri. Og Ragnar segir:

,,Ég tel að dómurinn hafi aukið gildi stjórnarskrárinnar fyrir allan almenning í landinu. Þrískipting valdsins verður gleggri með þessum hætti og aukið jafnvægi milli valdaþáttanna og ég tel að þarna birtist áhrif þróunar sem hefur verið í alþjóðlegri og evrópskri umræðu á undanförnum árum og áratugum um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Ég tel að Hæstiréttur sé á réttri leið.``

Og Ragnar heldur áfram og segir að þessi þróun komi sér ekki á óvart. Það hefði verið tímaspursmál hvenær svona dómur gengi í Hæstarétti. ,,Þetta gerir auðvitað auknar kröfur til stjórnmálamanna, einkum þeirra sem sitja á Alþingi, um að virða þær takmarkanir sem löggjafarvaldinu eru settar með stjórnarskránni, eins og hún er túlkuð með framsæknum hætti.``

Menn geta svo velt því fyrir sér í ljósi þessara orða hvernig stjórnmálamenn á Alþingi hafa brugðist við. Ég er hrædd um að þau viðbrögð eigi ekki eftir að fá merkilegar einkunnir í framtíðinni, herra forseti. Ég óttast það reyndar.

En það voru fleiri en Ragnar Aðalsteinsson sem tjáðu sig í þessa veru. Jóhann Halldórsson héraðsdómslögmaður skrifar grein í Morgunblaðið hinn 15. desember þar sem hann segir, eftir að hann hefur reifað innihald dómsins, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt framangreindu tel ég óvarlegt að halda því fram að smávægilegar breytingar á 5. gr. laga um stjórn fiskveiða fullnægi þeim kröfum sem Hæstiréttur gerir eða að réttinum hafi orðið á mistök við samningu dómsins. Umræddur dómur er þvert á móti stefnumarkandi um það hvaða sjónarmiðum ber að fylgja og hvaða skorður 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar setja löggjafanum við endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Þessir menn voru, a.m.k. ekki svo að við vissum, með formlegum hætti fulltrúar stjórnarandstöðunnar og ég met það svo, herra forseti, að það væri að mörgu leyti ágætt ef meiri hlutinn hér á Alþingi áttaði sig á því að stjórnarandstaðan er ekki að tala fyrir sjálfa sig. Hún er að tala fyrir hönd stórs hluta þjóðarinnar sem er þeirrar skoðunar að viðbrögð ríkisstjórarinnar mæti engan veginn þeim dómi sem felldur var í Hæstarétti vegna þess, herra forseti, að ríkisstjórnin kaus að líta fram hjá þeim skilaboðum sem felast í orðalagi dómsins. Hún kaus að líta fram hjá því áliti að dómurinn gæti verið stefnumarkandi og hún kaus að horfa heldur þannig á að dómarar Hæstaréttar hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera, þeir hafi bara ruglast á hugtökum allir fimm í senn.

Ég ætla, herra forseti, að vitna í fleiri lögmenn sem hafa tjáð sig um þetta mál opinberlega. Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Dagblaðið 5. desember sl. að ekki liggi alveg í augum uppi hvaða ályktanir eigi að draga af dómnum en þó sé ljóst að hann kalli á ,,að löggjafinn endurskoði lögin að verulegu leyti, ekki aðeins reglur um úthlutun veiðileyfanna sem slíkra, heldur einnig forsendur fyrir úthlutun veiðiheimildanna, þ.e. kvótans. Reglur um veitingu veiðileyfa eru taldar fara gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisákvæði hennar. Að svo miklu leyti sem forsendur fyrir úthlutun kvótans eru þær sömu eða sambærilegar og veiðileyfa verður að skoða þær forsendur einnig. Löggjafinn verður því að endurskoða að verulegu leyti grundvöll þessa kerfis og tryggja það að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisákvæðinu sé betur fullnægt, bæði að því er varðar úthlutun veiðileyfa og veiðiheimilda.`` Hann heldur áfram og segir:

,,Það er rétt að í málinu var eingöngu deilt um veitingu veiðileyfisins sem slíks. Það virðist þó vera rökrétt ályktun af forsendum dómsins að gera ráð fyrir því að þau sjónarmið sem Hæstiréttur leggur til grundvallar eigi ekki bara við um útgáfu á veiðileyfi, heldur eigi sambærileg sjónarmið við um úthlutun á aflaheimildunum sjálfum. Þau gætu komið til sjálfstæðrar skoðunar ef sá sem hefur fengið veiðileyfi óskar í framhaldi af því eftir heimildum til að veiða tegundir sem bundnar eru við kvóta. Úthlutun aflaheimilda er reist á því að skip hafi áður fengið veiðileyfi og ef það er ekki hægt að mismuna mönnum við útgáfu veiðileyfisins á þeim forsendum sem gert var er nærtæk sú ályktun að sambærileg sjónarmið eigi við um úthlutun veiðiheimilda.``

Þetta var tilvitnun í Davíð Þór Björgvinsson, háskólaprófessor í lögum.

Herra forseti. Til upplýsingar fyrir þá sem ekki hafa verið fúsir að kynna sér önnur viðhorf en þau að rétt væri að bregðast við dómi Hæstaréttar eins og hæstv. ríkisstjórn kaus að gera, þá vil ég vitna áfram í skrif sem hafa orðið. Eins og ég gat um áðan höfðu menn uppi stór orð þegar dómurinn hafði fallið. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður kallaði dóminn ,,dóm aldarinnar`` í grein í Morgunblaðinu, en þar segir hann, herra forseti:

,,Um dóminn sjálfan þarf ekki að hafa mörg orð. Hann er mjög skýr. Það samrýmist ekki ákvæðum stjórnarskrár að mismuna mönnum sem sækja um veiðileyfi eftir því hvort þeir hafa áður átt skip á tilteknu árabili eða ekki.

Á sama hátt má draga þá ályktun af dómnum að það samræmist heldur ekki stjórnarskránni að mismuna mönnum sem sækja um aflahlutdeild (kvóta) eftir því hvort þeir hafa áður notið slíkra réttinda eða ekki. Skilyrðin fyrir úthlutun þessara réttinda verða að vera þannig að landsmenn standi þar jafnt að vígi.``

[12:00]

Herra forseti. Mér fannst nauðsynlegt að vitna í þessa lögmenn vegna þess að ég held að full ástæða sé til þess að hér komi fram þau mismunandi álit sem fram hafa verið sett í tilefni af dómi Hæstaréttar og vegna viðbragða ríkisstjórnarinnar.

Það má segja, herra forseti, að eftir að dómur Hæstaréttar féll hafi stjórnmálamenn skipst í flokka, nánast eftir því hversu mikilvægt þeim þótti að verja óbreytt ástand. Við jafnaðarmenn sögðum strax að endurskoða ætti alla löggjöfina í ljósi þessa dóms. Það hefur ekki breyst. Við erum enn á þeirri skoðun að nauðsyn beri til að endurskoða alla þessa löggjöf. Það er mat afskaplega margra, og það sem ég hef verið að lesa og vitna undirstrikar það auðvitað, að þessi dómur sé stefnumarkandi að því leyti að þó að aðeins hafi verið dæmt um 5. gr., enda einungis beðið um það, þá hafi dómurinn í raun verið að senda Alþingi skilaboð, sem okkur finnst að verði vart misskilin, um það að taka fleira upp en einungis 5. gr. Þess vegna og líka vegna þess að það er ekki sæmandi fyrir Alþingi að hrekjast undan dómum, þá teljum við að Alþingi hefði strax átt að vinda sér í að endurskoða löggjöfina. Ekki að flýta sér og vera með flumbrugang við að reyna að bjarga sér frá málinu með þeim hætti sem hér er verið að gera.

Ég tek eftir því að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa til þess að útskýra þann hraða sem er á þeim við verkið gjarnan vísað til þess að það væri stjórnarandstaðan sem vildi flýta sér svona mikið. Það er mikill misskilningur sem ástæða er til að leiðrétta einu sinni enn. Það var aldrei beðið um þennan hraða á afgreiðslu málsins. Okkur fannst hins vegar og töldum sjálfsagt að menn færu strax í það að endurskoða löggjöfina í heild sinni.

Það frv. sem ríkisstjórnin lagði fram og var rætt fyrir jólahlé var ekki mikið að vöxtum hvað varðaði lagagreinar, en í því voru nokkur bráðabirgðaákvæði, m.a. til að komast hjá því að mæta dómnum með samfelldum sannfærandi hætti í samræmi við það sem sagt var. Menn björguðu sér undan með bráðabirgðaákvæðum eins og t.d. því að úreldingarreglur í smábátaflotanum þyrfti að afnema strax. Og þegar við horfum núna á þetta frv. er ljóst að það er ekki svipur hjá sjón. Eins og ég sagði áðan, herra forseti, eru þau ákvæði 1. gr. sem lutu að endurnýjunarreglum horfin út úr textanum en einhverju sambærilegu eða einhverju sem getur hamlað gegn stækkun flotans á að koma inn í aðra löggjöf. 5. gr. frv. og það efni sem þar var er allt farið, hluti af 6. gr., bráðabirgðaákvæðin hafa tekið miklum breytingum, sum horfið og önnur komið í staðinn. Þessi vinnubrögð eru ekki traustvekjandi og þau sannfæra engan um það að menn hafi vitað hvað þeir voru að gera þegar þetta frv. var lagt fram. Þess vegna, herra forseti, er það að líkindum rétt sem menn segja að fljótlega muni ganga annar dómur, dómur sem lýtur að 7. gr. laganna eða úthlutunarreglunni sem menn hafa notað við að deila út veiðiréttinum.

Þeir sem hafa verið að velta vöngum yfir dómi Hæstaréttar og verið að skoða viðbrögð ríkisstjórnarinnar og jafnvel þeir sem hafa tekið þátt í að móta viðbrögð ríkisstjórnarinnar horfa auðvitað á það þannig, enda ekki hægt annað, að ýmislegt í orðalagi dómsins sé þó a.m.k. þannig vaxið að menn treysta sér ekki til þess að segja fyrir um hver sú niðurstaða gæti orðið þó að býsna margir eins og þeir sem ég hef vitnað til telji að hún sé óyggjandi.

Þessu máli, sem kynnt var hér fyrir jólin, var eðlilega vísað inn í þann farveg sem lagafrv. fara hér. Því var vísað til nefndar sem byrjaði að vinna með málið á milli jóla og nýárs og síðan aftur strax eftir áramótin. En það var sá galli á þeirri vinnu frá upphafi, herra forseti, að henni höfðu verið sett tímamörk þannig að þó að hv. sjútvn. vildi vinna málið vel, og þá er ég bæði að tala um meiri hluta og minni hluta, þá var það svigrúm ekki gefið til þess sem þurfti. Það var einfaldlega ekki tóm til þess að ígrunda nægjanlega það sem verið var að gera innan þeirra þröngu tímamarka sem meiri hlutinn á Alþingi ákvað fyrir jól að þessi vinna fengi. Þeirri vinnu átti að ljúka fyrir 6. janúar og þingmenn voru kallaðir til þings til að fjalla um þetta mál á þeim degi. Þá var nefndin ekki nema rétt komin á veg með vinnu sína og ljóst mátti vera að hún þyrfti einhverja daga til viðbótar. Við vorum nokkur sem lögðum þá til að það væru ekki einungis einstakir dagar sem nefndin fengi heldur fengi hún vikur, og við töldum ekki af veita, og það er mitt mat og áreiðanlega fleiri í dag, herra forseti, að betur hefði nefndinni þá gefist tími til þess að skoða málið. Betur hefði það ráðrúm verið gefið að þing hefði komið saman á eðlilegum tíma miðað við þá áætlun sem búið var að leggja. Þá hefðum við hugsanlega komist hjá bæði því klúðri sem þegar hefur orðið í störfum nefndarinnar og hugsanlega tryggt það betur að Alþingi væri að setja frá sér löggjöf sem því gæti verið nokkur sómi að.

Það verður því miður að segjast eins og er, herra forseti, að í þeim þrönga tímaramma sem nefndinni var settur þróaðist það fljótlega þannig að meiri hluti nefndarmanna hvolfdi sér yfir tillögur um breytingar á veiðum smábáta. Það var tillaga ríkisstjórnarinnar og í frv. hennar þegar það kom inn að allur smábátaflotinn yrði settur inn í aflamarkskerfi, en meiri hluti nefndarinnar gekk til þess verks að bera það til baka og kom með viðamiklar brtt. við það mál sem hér voru til umræðu og umfjöllunar við 2. umr. málsins og afgreiðslu í gær.

Við sem tókum þátt í þessari vinnu og önnur sem höfum fylgst með hér, höfum auðvitað undrast það af hve miklu offorsi menn hafa gengið fram varðandi breytingar á kerfi smábáta. Það er ljóst að í gangi voru viðræður á milli ráðuneytisins og Landssambands smábáteigenda og það voru tillögur um ýmsar breytingar á starfsumhverfi þeirra, og gátu út af fyrir sig verið sjálfstætt þingskjal. En það er miður, herra forseti, að þeirri umfjöllun sem hér hefði þurft að fara fram um dóm Hæstaréttar og viðbrögð við honum var eiginlega drekkt í umfjöllun um smábáta og tæknilegum útfærslum varðandi það hvernig frá þeim málum yrði gengið. Við þekkjum það sem höfum tekið þátt í umræðu hér á Alþingi um þau mál og umfjöllun í nefnd, að þar eru ýmsir kimar. Þau mál eru svo flókin, og verða enn flóknari með því sem hér á að lögfesta, að jafnvel þeir sem við eiga að búa hafa ekki enn skilið hvað hér er á ferðinni. Það er hörmulegt, herra forseti, þegar forusta Landssambands smábátaeigenda, þeir sem eru að reyna að gæta hagsmuna þeirra aðila sem hér er verið að fjalla um með öllum þessum breytingum á smábátakerfinu, fær varla að koma sínum athugasemdum að, hvað þá að á hana sé nægilega hlustað eða tillit tekið til ábendinga.

Það vakti mér bæði furðu og olli mér áhyggjum að á milli umræðna var það minni hluti nefndarinnar sem þurfti að óska eftir því að þeir aðilar sem best gátu upplýst okkur um hvernig þessi ákvæði mundu virka og þurfti minni hluti nefndarinnar æ ofan í æ að kalla þá til fundar við nefndina. Það virtist, herra forseti, sem meiri hluti nefndarinnar mæti það svo að tímaþröngin væri slík að þess ætti vart að gefast kostur og betra væri að sleppa því. Þetta er auðvitað fráleitt þegar verið er að fjalla um mál af þessu tagi sem eru afskaplega viðkvæm, bæði atvinnulega og fjárhagslega fyrir stóra hópa og það er fráleitt líka, herra forseti, í ljósi þess að því miður hefur það gerst æ ofan í æ að sjávarútvegsmálin hafa verið afgreidd þannig hér á þingi að Alþingi hefur verið að fá þau aftur í hausinn, ef má orða það þannig, vegna þess að orðið hafa eftir það sem menn kalla göt eða veilur sem eru þess efnis að Alþingi hefur þurft að bregðast við og bæta eitt gatið enn. Og það má segja, herra forseti, að þessi löggjöf lítur nú út eins og tötrar, stagbætt flík, og því er ekki að undra að menn telji tímabært að þessum mikilvæga atvinnuvegi okkar verði komið upp nýjum búningi.

Rétt aðeins innskot í þetta, herra forseti, þetta er því miður ekki eina málið í vetur sem hefur verið afgreitt í gegnum þingið á þennan hátt. Það er atriði sem við alþingismenn og þeir sem vilja veg þingsins nokkurn ættum að hafa verulegar áhyggjur af. Rétt fyrir jólin var gagnagrunnsmálið svokallaða keyrt í gegn af miklu offorsi og hraða. Þá töldu nefndarmenn einnig að ekki hefði verið nægilega hlustað á þá sem gátu komið með gagnlegar ábendingar um málið en ríkisstjórnin var svo viss í sinni sök að ekki þurfti að hlusta á aðila og allra síst þurfti að hlusta á ábendingar stjórnarandstöðunnar.

Hvað sem því líður, herra forseti, þá met ég það svo þegar ég horfi til þess að hér á að fara að ljúka þessu máli að ýmis þau atriði sem voru í tillögum ráðherrans, í brtt. meiri hlutans, hafi tekið breytingum til bóta vegna þeirrar þrákelkni stjórnarandstöðunnar að kalla inn aðila sem gátu gefið góð ráð, að koma með ábendingar sem gátu fært hluti til betri vegar og að leggja þó í þá vinnu að setja sig vel inn í málið til að geta unnið að því af heilindum í nefndinni. Það eru ýmis ákvæði, herra forseti, sem voru í svo hörmulegum búningi þegar þau komu á borð nefndarinnar að slíkt var auðvitað ekki boðlegt og minni hlutinn hefur að mínu mati unnið þrekvirki í því að hafa þó haft áhrif á þann texta sem nú liggur fyrir þó að við séum ekki í öllu sátt við hann sakir þess hvernig til hans er stofnað og vegna þess að ekki hefur verið gefið nægjanlegt tóm til að vinna málið, til að hlýða á og fara eftir og til að ígrunda þær ábendingar sem fram hafa komið, bæði hjá þeim sem komið hafa á fund nefndarinnar og í þeim fjölmörgu álitum sem nefndin hefur fengið.

[12:15]

Herra forseti. Ég vil t.d. geta þess að Landssamband smábátaeigenda hefur sent nefndinni þrjú skrifleg álit auk þess að koma þrisvar á fund nefndarinnar og þeir eru ekki sáttir enn. Þeir eru satt að segja mjög uggandi um hag sinna umbjóðenda.

Fleiri hafa sent inn fleiri en eitt álit, m.a. Samtök kvótalítilla útgerða sem hafa bæði sent inn álit og bréf til þess að reyna að koma með ábendingar um það hvað þeir telji að betur megi fara.

Herra forseti. Ýmsir hafa því verið viljugir til þess að aðstoða nefndina í störfum hennar og gjarnan hefði ég og við í minni hlutanum viljað þiggja þá aðstoð og getað haft tíma til þess að skoða málið frá sjónarhóli þeirra fjölmörgu sem telja sig hafa á því þær skoðanir eða þá þekkingu sem að gagni mætti koma. Til þess gafst því miður ekki tóm. En ég óttast, herra forseti, að sú niðurstaða sem hér stendur til að afgreiða leiði til þess að við munum áður en varir, innan einhverra mánaða, þurfa að leita aftur til þessara aðila og biðja þá um aðstoð til þess að skera Alþingi úr þeirri snöru sem það þá kann að hafa hengt sig í, ekki bara vegna nýs dóms Hæstaréttar heldur kannski ekki síður vegna þess að þá hafi komið í ljós þær veilur í þessari löggjöf að skjótt þurfi að bregðast við til þess að staga í eitt gatið enn.

Herra forseti. Við 2. umr. birti minni hluti sjútvn. sitt nefndarálit og þar með niðurstöðu sína í þessu máli. Minni hlutinn setti fram þá skoðun að viðbrögð ríkisstjórnarinnar, sem eru pólitísk viðbrögð, herra forseti, gengju þvert á dóm Hæstaréttar að svo miklu leyti sem þau yfir höfuð hefðu nokkuð með dóminn að gera. Minni hlutinn óttast að verið sé að veikja ákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, það ákvæði sem fjallar um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Það var kannski einna athyglisverðast við dóm Hæstaréttar að rétturinn tók og lyfti sameignarákvæði 1. gr. sérstaklega. Hann sagði þjóðinni: Það er nákvæmlega til þessa sem á að líta þegar verið er að skoða að öðru leyti löggjöfina um stjórn fiskveiða. Það er kannski nákvæmlega þarna, herra forseti, sem steytir vegna þess að sem viðbragð við þessari niðurstöðu Hæstaréttar gengur ríkisstjórn Íslands og meiri hlutinn á Alþingi til þess verks að lögfesta ákvæði sem við óttumst að muni veikja ákvæði 1. gr. vegna þess, herra forseti, að meginniðurstaða þess sem verið er að gera hér er sú að það er verið að einkavæða allan veiðirétt á Íslandsmiðum og gera hann að framseljanlegum sérréttindum þeirra sem fyrir eru í greininni. Í stað þess að jafnræðisreglan sé látin gilda, að horft sé til 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða hvað varðar sameign þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum, þá er gengið til þess verks að hækka enn múrinn í kringum veiðiheimildirnar, þær veiðiheimildir sem eru í höndum þeirra sem þær hafa fengið á grundvelli sögulegrar reynslu.

Herra forseti. Þetta er eins langt frá dómi Hæstaréttar og hægt var að komast að mínu mati og það er ekki bara mitt mat, herra forseti. Ég hygg að stór meiri hluti þjóðarinnar hafi nákvæmlega þessa sömu tilfinningu gagnvart þeirri niðurstöðu sem ríkisstjórnin býður okkur upp á. Þetta er dapurleg niðurstaða. Minni hlutinn hefur fordæmt þessi viðbrögð meiri hlutans og telur að með þeim sé ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis að gefa Hæstarétti langt nef. Það er dapurlegt, herra forseti. Það er dapurleg niðurstaða að þegar Alþingi hefur verið að fást við stórmál, við mál sem menn hafa kallað dóm aldarinnar og merkt mikil tíðindi, þá skuli niðurstaðan vera sú sem hér liggur fyrir.