Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 13:02:04 (3072)

1999-01-13 13:02:04# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[13:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er spurning hvort forseti vildi ekki gera virðingarmönnum aðvart um að umræðan sé að hefjast þannig að þeir hæstv. sjútvrh., hv. formaður sjútvn. og aðrir slíkir frömuðir megi koma til umræðunnar.

(Forseti (GÁ): Forseti gerir ráðstafanir.)

Herra forseti. Komið er að 3. og síðustu umræðu um þetta margnefnda frv. hæstv. ríkisstjórnar um breyting á lögum um stjórn fiskveiða sem hefur verið tengt við dóm Hæstaréttar í máli Valdimars Jóhannessonar þegar hann sótti um veiðileyfi og reyndar einnig aflahlutdeild til sjútvrn. og fékk ekki, var synjað um hvort tveggja og skaut síðan til dómstóla þeim hluta málsins sem laut að veiðileyfasynjuninni og var sú synjun ráðuneytisins dæmd ógild. Rétt er að rifja þetta aðeins upp, herra forseti, til að menn hafi það í huga hver aðdragandi málsins er vegna þess að umræðurnar hafa upp á síðkastið fyrst og fremst snúist um málefni smábáta og menn kynnu að lenda í þeim misskilningi að halda að þetta væri hið árlega klúðursfrumvarp um málefni smábátanna. En það vita þeir sem setið hafa á Alþingi um nokkurt árabil að sjaldan hefur liðið svo þingvetur að ekki hafi á einhverjum tíma þingsins, oft á vorin, verið til meðferðar neyðarfrumvarp vegna hinna miklu vandamála sem tengjast því að stjórna sókn þessa minnsta hluta íslenska fiskiskipaflotans og satt best að segja hefur ekki lítil orka farið í það mál, herra forseti.

Ég ætla aðeins að byrja á því að nefna nokkur atriði sem tengjast brtt. meiri hluta sjútvn. sem eru nú fluttar hér við 3. umr. Ég verð að lýsa nokkrum áhyggjum, herra forseti, yfir því að ekki skuli vera fleiri umræður um málið því að mér sýnist að með sama áframhaldi mundi þetta kannski að lokum verða brúklegt, a.m.k. tæknilega, ef umræðurnar væru t.d. fimm þannig að sjútvn. gæti haldið uppteknum hætti og tekið málið til nefndar milli 3. og 4. umr. og 4. og 5. umr. og gert á því umtalsverðar breytingar í hvert sinn. Það er afar ólíklegt, þó að ekki sé nú notað neitt annað en bara stærðfræðin og líkindareikningurinn til að styðjast við en að ekki yrðu umtalsverðar breytingar á málinu t.d. milli 3. og 4. umr. ef hún væri fyrir hendi samkvæmt þingsköpum. Það liggur eiginlega alveg í hlutarins eðli. En svo er ekki. Eða er einhver í salnum sem treystir sér til að koma upp og taka á því fullnaðarábyrgð að málið sé algjörlega orðið fullkomið og gallalaust og skothelt eftir vinnu sjútvn. eða meiri hlutans?

Það er, herra forseti, óhjákvæmilegt að fara aðeins yfir það hvernig þetta hefur gengið til. Ég verð að segja alveg eins og er að auðvitað er það margt sem fer í taugarnar á mönnum og manni leiðist í þessu starfi. Það fer ekki hjá því þó að það eigi sér sínar björtu hliðar og líka oft mjög gaman. En með árunum fer eitt í vaxandi mæli í taugarnar á mér, það skal játað hér. (Gripið fram í.) Og sennilega er það viðvörun um að tími sé kominn til að hætta. En það fer þó í taugarnar á mér og það gerir það vegna þess að það er ástæðulaust, það ætti ekki að þurfa að gerast endurtekið að Alþingi kasti þannig til höndunum við afgreiðslu mála að alltaf sé verið að reka ofan í það vitleysur. Staðreyndin er sú að þessi vinna, sérstaklega hvað varðar málefni smábátanna á undanförnum árum, hefur verið þessu marki brennd mjög mikið. Endurtekið hefur þurft að taka upp mál vegna þess að þau hafa ekki verið nógu vel unnin.

Ekki er langt síðan t.d. að það datt út ártal. Það varð að taka inn frumvarp til að leiðrétta að það datt út ártal í vinnu við einhverjar breytingar eða endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni. Fyrir einu ári skildu menn eftir gat við frágang mála varðandi smábáta. Það voru tillögur, sem urðu til með mjög svipuðum hætti og þessar, að meiri hlutinn lokaði sig af á næturfundum, kom svo með tillögur með stuðningi ráðuneytisins og þær voru keyrðar í gegn. Hvað kom í ljós? Menn höfðu skilið eftir gat í kerfinu þannig að bátar gátu selt réttindi sín í einu kerfi og fært sig yfir í annað. Þetta gerðu milli tíu og tuttugu bátar sem voru nógu snöggir að átta sig á því hvað hafði gerst. Mistök í lagasetningunni kostuðu vandræði og opnuðu smugur fyrir tiltekinn hóp sem færði þeim umtalsverða hagsmuni á kostnað annarra í raun og veru. Ég gæti nefnt mörg fleiri dæmi, herra forseti. Ég held þó að ég hlífi mönnum við því, en því miður kann ég þau býsna mörg.

Ég segi alveg eins og er að þetta fer í taugarnar á mér. Það fer í taugarnar á mér að þurfa að verða áhorfandi að því og að einhverju leyti píndur til að vera þátttakandi í því að standa að svona vinnubrögðum. Mér finnst ömurlegt að menn skuli ekki geta reynt að hafa aðeins meiri metnað fyrir hönd löggjafarvaldsins en raun ber vitni.

Ég sagði það áðan, herra forseti, í umræðum um störf þingsins, áður en þessi umræða hófst, að ég væri algjörlega sannfærður um að í þeim málum sem er verið að afgreiða leynist einhverjar vitleysur, leynist einhver mistök og eitthvað sem mönnum hefur yfirsést sem á eftir að koma mönnum í koll. Ég skal hundur heita ef næsta þing verður ekki með þetta mál í höndunum vegna þess að þá reynist óhjákvæmilegt að gera á því einhverjar breytingar. Ég gæti nefnt dæmi um hluti sem eru svo vitlausir að þeim mun verða breytt strax á næsta þingi. Ég hef enga trú á því að menn verði svo forhertir að þeir láti þvælur standa af því tagi sem tengjast t.d. sérstökum takmörkunum handfærabátanna hvað varðar sóknarrétt eingöngu á tímabilinu 1. apríl til 30. sept.

Herra forseti. Þetta er mjög miður. Ég hef áður við hliðstæðar aðstæður nefnt til sögunnar eftirsjá mína eftir deildaskiptingu Alþingis þegar svona mál eru til umfjöllunar. Ég er alveg sannfærður um að þetta er dæmi um mál og aðstæður í máli sem hefði haft mjög gott af deildaskiptu Alþingi, sem hefði haft mjög gott af því að efri deild tæki t.d. við af þeirri umfjöllun sem hefur hér átt sér stað. Ætli menn minnist þess ekki frá þeirri tíð að Alþingi starfaði í deildum að það voru ófáar vitleysurnar sem menn uppgötvuðu og lagfærðu í meðförum seinni þingdeildar? Hér er ekki slíku til að dreifa og þeim mun alvarlegra er að menn vinni málin eins sem raun ber vitni.

Það er auðvitað sönnun þess þegar gera þarf fjölmargar breytingar, sumar hreins tæknilegs eðlis, milli 2. og 3. umr. máls að ekki er nógu vel unnið. Það er sönnun þess. Það er ekkert annað. Þegar menn fresta jafnvel vísvitandi vandamálum af því að það liggur svo mikið á að drífa málið til 2. umr. að það er hálfkarað þegar það er rifið út úr nefnd með valdi og sett í gegnum 2. umr. og það er sagt, það er notað sem afsökun: ,,Já, en við lítum á þetta við 3. umr. Við ætlum að reyna að bjarga þessu einhvern veginn við 3. umr. en við höfum ekki tíma til þess að laga það núna.``

Þetta eru vinnubrögðin, herra forseti, sem Alþingi er að fella sjálft sig með. Ekki er hægt að heimta að borin sé virðing fyrir löggjafarsamkomunni og tekið mark á því sem þaðan kemur ef þingið sjálft skýtur sig svo í lappirnar með því að allir horfa upp á vinnubrögð eins og raun ber vitni. Þau dæmi sem hér hafa verið rakin voru m.a. tekin fyrir hér fyrir upphaf umræðunnar. Þegar það svo bætist við að í raun og veru er hin efnislega vinna unnin að hluta til utan þingnefndarinnar, þ.e. málið er tekið út úr nefnd eftir umfjöllun á milli 2. og 3. umr. og síðan eru gerðar á því breytingar og þær brtt. sem lenda svo á borðum þingmanna við upphaf umræðunnar eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar því sem nefndarmenn í sjútvn. höfðu nokkurn tíma séð eða heyrt um talað, þá er þetta engin hemja. Það er engin hemja að vinna svona að hlutunum. Þetta er auðvitað brot á þingsköpunum, það er enginn vafi á því. Enginn vafi er á því að þingsköpin gera ráð fyrir því að efnislegar forsendur fyrir afgreiðslu máls liggi allar fyrir þegar nefnd lýkur endanlega vinnu sinni. Það er til skammar að menn skuli reyna að verja þetta hér og jafnvel með skætingi, eins og formaður sjútvn., sem er að vísu fjarstaddur um þessar mundir, hefur gert, í staðinn fyrir það að biðjast velvirðingar á því að hlutirnir skuli vera með þessum hætti. Menn geta auðvitað hlaupið í einhverja nauðungarvörn, að málinu verði að ljúka, brýna hagsmuni beri til að klára það og eitthvað þannig, og reyna frekar að afsaka sig, ef svo má að orði komast, með einhverju slíku. En að reyna að halda því fram að hér sé unnið að hlutunum með þeim hætti sem eigi að gera við löggjafarsetningu er ekki hægt. Það er ekki hægt að taka hið minnsta mark á slíkum málflutningi.

Herra forseti. Ég tel að vísu, þó að ég hafi haft um þessar brtt. og vinnubrögðin nokkuð hörð orð, að sumt í þeim sé til lagfæringar. Ég vil sérstaklega nefna að ég fagna því að meiri hluti sjútvn. hefur náð áttum og hætt við að etja mönnum út í það kapphlaup á nýbyrjuðu almanaksári sem stóð til að gera og var látið ganga til atkvæða eftir 2. umr. Ég mótmælti því ákvæði og ég varaði menn við því og ég sé núna að menn hafa tekið mark á því og öðrum rökum sem aðrir hafa flutt fram í málinu og valið þann kost að henda árinu 1999 út en tvöfalda í staðinn reynslu báta á árinu 1998, borið saman við önnur ár. Fyrir því eru þau rök að bátar, sem eru nýlega komnir inn í þetta kerfi, fá þá meira út úr aflareynslu sinni í aukategundum þetta eina ár sem þeir hafa haft til þess.

Þetta er í sjálfu sér ein af mörgum leiðum sem koma til greina. Ég benti á aðra möguleika sem ég gæti vel trúað að hefðu verið heppilegri, þ.e. þeir að aflareynslulitlir eða aflareynslulausir bátar í þessum hópi, hvað aukategundirnar snertir, hefðu mátt fá eitthvert tiltekið hlutfall af meðaltalsaflanum, t.d. 30% eða 33,34%, sem næmi þá eins og eins árs hlutdeild úr slíkum potti. Það hefði verið önnur leið og sjálfsagt komið betur út fyrir einhverja en lakar út fyrir aðra. Að vísu má segja að jafnan sé æskilegt að reyna að lesa út úr reynslunni skiptinguna því að hún segir ákveðna sögu um það hversu duglegir fiskimenn menn hafa verið og hvernig menn hafa sótt en það má auðvitað líka hugsa sér og finna ýmsar aðrar viðmiðanir og það hefur iðulega verið gert.

Herra forseti. Ég notaði m.a. öryggissjónarmiðin sem rök. Kapphlaup af þessu tagi ýtir óhjákvæmilega undir að menn sæki jafnvel meira af kappi en forsjá. Þegar miklir hagsmunir eru í húfi og menn vita að þeir eru að ávinna sér varanleg réttindi og hafa til þess takmarkaðan tíma, eitt ár eða hvað það nú er, er það auðvitað ávísun á slíkt kapphlaup. Þess vegna var dálítið kostulegt að fá svo upp í pontuna formann sjútvn. Hvað gerði formaður sjútvn.? Hann réðst á minni hlutann og þá sérstaklega þann sem hér stendur því að ég hygg að ég hafi verið sá þingmanna sem tók aðallega upp og gagnrýndi þær sérstöku takmarkanir á sóknarrétti handfærahópsins, sem á að innleiða í löggjöfina varanlega með nýrri 6. gr. Hvað gerði hv. formaður sjútvn.? Jú, hann réðst á þá sem hefðu verið uppi með slíkan málflutning, að þeir væru að hvetja til þess að þessir bátar væru að stunda sjó í vondum veðrum í svartasta skammdeginu, væru að ýta undir slíkt. Það væri ekki mikil ábyrgð fólgin í slíku.

[13:15]

Þetta er sami formaður sjútvn. og rúmum sólarhring áður mælti fyrir tillögum meiri hlutans um að hafa þorskaflahámarksbáta í brjáluðu kapphlaupi við að skapa sér aflareynslu í ýsu, ufsa og steinbít á þessu almanaksári. Hann hefur að vísu séð sig um hönd. En það stóð ekki í honum í gær að leggja til að etja mönnum út í þetta kapphlaup. Meiri hlutinn samþykkti það hér, en ætlar svo að skipta um skoðun auðvitað eins og formaður sjútvn. Og hvar er eintakið, herra forseti, hv. formaður sjútvn.? Ég óska eftir því að hann sé hér viðstaddur umræðuna.

Ég tek því þunglega, herra forseti, að vera sakaður um að etja sjómönnum á smábátum út í lífsháska. Ég tek því þunglega. Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður samkeppniskvóta eða þess að mönnum væri att út í brjálaða sjósókn í svartasta skammdeginu. Málflutningur formanns sjútvn. að þessu leyti og ásakanir í minn garð og annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar er auðvitað neðan við allar hellur og ég skal fletta ofan af því hversu fátæklegur málatilbúnaðurinn er.

Það sem ég er að gagnrýna, herra forseti, er að með þessu ákvæði á að velja út úr einn lítinn hóp af smábátum, þá sem kunna að velja að stunda veiðar á grundvelli sóknartakmarkana í tiltekinn dagafjölda á ári frá og með árinu 2000 og veiða með handfærum. Þeir, einir af fiskiskipum í íslenska flotanum, eiga ekki að mega stunda sína atvinnu, sækja sjó, utan tímans frá 1. apríl til 30. september. En aðrir smábátar mega róa allt árið. Er þá formaður sjútvn. og meiri hlutinn að segja að það sé hættulegra að t.d. vel búinn 5,9 tonna bátur sem kynni að velja handfæraleyfi, fái að róa utan þessa tíma, en að tveggja tonna trilla á þorskaflahámarki megi sækja í desember og janúar? Hvar liggur þá ábyrgðin á þeirri sjósókn ef það er svona háskalegt að leyfa þeim sem kynnu að velja handfæraveiðina eina að róa á þessum árstíma?

Nei, auðvitað er hér verið að rugla saman óskyldum hlutum, enda er ég viss um að það voru ekki öryggismál sem vöktu fyrir mönnum þegar þeir settu inn þessar dagsetningar. Það voru alls ekki öryggismál. Þetta er aðgerð til þess að takmarka enn og þrengja kost þessa hóps. Og þá er verið að segja: Við ætlum að beina sókninni inn á afmarkaðan tíma ársins og við þrengjum að þessum hópi á þennan hátt. (Sjútvrh.: Þeir fá fleiri daga en ella.) Og fá fleiri daga en ella, segir ráðherrann. En þessi hugsun gengur heldur ekki upp. Hún er líka vitlaus. Þarna lenda menn umsvifalaust í mótsögn við sjálfa sig. Vegna hvers, herra forseti? Vegna þess að dagarnir eiga að vera framseljanlegir. Dagarnir eiga að vera framseljanlegir innan hópsins. Hvað er verið að bjóða upp á með því? Jú, það er verið að bjóða upp á það að einhver hluti bátanna kaupi daga af öðrum og fjölgi sínum sóknardögum. Það eru engin efri mörk sett á það. Bátur gæti fræðilega keypt svo marga sóknardaga til sín að þeir væru orðnir fleiri en eru á dagatalinu á tímabilinu 1. apríl til 30. september. Og hvað ætla menn að gera þá? Eiga þeir þá að verða ónýtir?

Ég skal nefna annað dæmi um það hversu arfavitlaust þetta ákvæði er og bersýnilega ósanngjarnt. Og verði það meiri hlutanum lengi til háðungar að samþykkja það, og þar með talið t.d. hv. þm. Kristni Péturssyni ef hann ætlar að gera það, sem ég dreg nú mjög í efa. Við skulum hugsa okkur að vel búinn 5,9 tonna bátur sem hefur litla aflareynslu velji að fara inn í þetta kerfi. Hann ákveður að bæta síðan stöðu sína í þessu kerfi með því að kaupa sér fleiri sóknardaga. Þessi bátur er jafnframt með grásleppuleyfi og hann er gerður út frá Norðausturlandi eða Austfjörðum. Á hvaða tíma ársins er grásleppuvertíðin þar? Jú, hún er á vorin. Hann byrjar kannski í lok mars eða rétt áður en tímabilið hefst og fyrstu tveir til tveir og hálfur mánuðirnir af handfæratímanum fara í grásleppuveiðina. Þá á hann að sitja uppi með skerðingu á sínum sóknarmöguleikum umfram aðra sem af þessu leiðir. Það er kominn júní þegar hann hefur lokið sinni grásleppuveiði. Þá er auðvitað búið að skerða þannig möguleika hans til sjósóknar að það er í engu samræmi við þær aðstæður sem öðrum eru skapaðar. Það er hlægilegt að bera þetta á borð fyrir menn.

Pólitíski tilgangurinn sem hér er á ferðinni, markmiðið, er greinilega það að hrekja menn frá því að velja þetta form. Þetta er bara fræðilegt form vegna þess að meiri hlutinn er svolítið viðkvæmur, hörundssár fyrir þeirri gagnrýni að verið sé að reka síðustu leifarnar af smábátum inn í kvótakerfi. En það er það sem er verið að gera. Það má bara ekki segja það og þess vegna er farið út í svona fjallabaksleiðir til þess að hrekja menn frá því að velja þetta kerfi. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að menn skuli reyna að byggja málflutning sinn á slíkum hlutum.

Herra forseti. Ég hef reyndar ekki svo mjög miklar áhyggjur af þessu vegna þess að þetta er svo vitlaust að því verður örugglega breytt strax á næsta þingi. Það er eiginlega alveg öruggt mál. Þetta er svo vitlaust og ósanngjarnt að þegar menn fara að velta þessu fyrir sér og skoða það í samhengi við þá stöðu sem öðrum er búin í þessu þá sjá menn auðvitað að þetta getur ekki gengið svona. En menn ætla að gera það samt. Menn láta sig væntanlega hafa það að hafa þetta svona engu að síður.

Það verður gaman þegar grásleppufrumvarpið kemur svo til umræðu. Það var svo vitlaust og meiri hlutinn var kominn út í þvílíkar ógöngur, svoleiðis gjörsamlega úti í mýri í því máli, að þeir völdu þann kost að gefast upp í sjútvn. og fresta málinu. Það hvarf af dagskrá þingsins, þetta brýna mál sem ég man eftir að talsmenn stjórnarliðsins töldu að væri alveg sérstakt vandamál sem komið væri upp vegna dóms Hæstaréttar, þ.e. þær hremmingar sem Hæstiréttur hefði dæmt ofan í hausinn á grásleppukörlum, og þess vegna yrði að fara fram með frv. hér og setja grásleppuna niður í sóknardaga sem væru framseljanlegir per stykki. Ég sakna þess mest að þeir skyldu ekki verða framseljanlegir per net líka þannig að hægt væri að framselja réttinn til að leggja eitt net á hverjum sólarhring. Það hefði verið enn betra og enn fullkomnara. (SvanJ: Viðráðanlegar einingar.) Viðráðanlegar einingar. Ef hvert grásleppunet væri framseljanlegt per dag. Þá hefði t.d. hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem er eins og kunnugt er mikill stuðningsmaður þess að þessi réttindi séu almennt sem framseljanlegust og viðráðanlegust, ekki satt, getað fengið sér rétt til að leggja einn netstubb hérna við Ægissíðuna. Hann gæti keypt sér horn og síðan boðið í réttinn til að fá að leggja eitt grásleppunet í einn dag t.d. í aprílmánuði árið 2000 við Ægissíðuna. (SvG: Fyrir aldraða sjómenn.) Já, svo hefði hann getað hóað í félaga sína á DAS og fengið þá með sér til þess að draga netið. (Gripið fram í.) Þetta hefði orðið allt saman mjög skemmtilegt. Nei, herra forseti, þetta eru alveg kostuleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt.

Þá vík ég aðeins að öðrum atriðum brtt. Meiri hlutinn hefur valið þann kost, einnig á undanhaldi undan gagnrýni sem sett hefur verið fram á fyrri breytingarhugmyndir, að hætta við að setja girðingu ofan við framsalsmöguleika smábáta undir sex tonnum á aflamarki. Það var sem kunnugt er þannig að samkvæmt frv. áttu frá og með gildistöku laganna allar aflaheimildir í þeim hópi að lokast af í sérstöku boxi, bundnar við þann hóp eingöngu.

Í gær tilkynnti meiri hluti sjútvn. að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að leggja til frestun á gildistöku þessa ákvæðis, með öðrum orðum aðlögunartíma til 1. september nk. Ég giska á að sú afstaða meiri hlutans hafi staðið í fjórar klukkustundir, að meiri hluti sjútvn. undir forustu formannsins hafi verið þeirrar skoðunar í fjórar klukkustundir að það væri rétt að veita aðlögunartíma að þessu ákvæði fram til 1. september 1999. Ég veit ekki nákvæmlega, herra forseti, hvað klukkan var þegar meiri hlutinn skipti um skoðun. Hún gæti hafa verið eitthvað rétt að verða tíu í gærkvöldi, því að í 11-fréttunum mátti greina á máli formanns sjútvn., sem hafði þá náð því að ganga frá þessari niðurstöðu með félögum sínum og komast í fjölmiðlana, að nefndin hefði einu sinni enn skipt um skoðun.

Vilja menn fara aðeins yfir hringlið í þessu máli? Finnst mönnum það ekki stórbrotið hvernig þetta hefur verið? Fyrir utan þá upprunalegu útgáfu frumvarpsins að allir smábátar við landið skyldu fara inn í aflamark með tilteknum hætti, þá kom önnur útgáfa. Hún var þannig að þessir bátar skyldu fá 15% álag á úthlutaðar veiðiheimildir sínar miðað við tiltekna stöðu, en frá og með gildistöku laganna skyldu þeir lokast af í sjálfstæðu boxi og gætu eingöngu framselt réttinn eftir það innan síns hóps.

Þessi afstaða meiri hlutans, örugglega studd af hæstv. sjútvrh., því að meiri hlutinn gerir væntanlega ekki svona hluti nema í samráði við ráðherrann, stóð trúlega í einhverja sólarhringa. Ég hugsa að þetta hafi verið eitthvert lengsta samfellda tímabil einnar skoðunar sem meiri hluti sjútvn. hafi haft í þessu máli. (SvG: Hvað ætli það hafi verið langt?) Ja, það gætu hafa verið þrír, fjórir sólarhringar sem meiri hlutinn var þeirrar skoðunar að best væri að hafa þetta svona. (SvG: Athyglisvert.) (SvanJ: Hæstiréttur kallaði á það.) Já, að það yrði að túlka dóm Hæstaréttar þannig að smábátar undir sex tonnum á aflamarki skyldu eingöngu mega selja réttinn sín í milli en fá 15% álag.

Svo kemur þessi skoðun í gær að það sé að vísu rétt að hafa þetta svona box og lokað og allt það, en það sé best að veita mönnum aðlögunartíma að þessu til 1. september nk. Svo breytist það á ellefta tímanum í gærkvöldi og fer yfir í það að hætta alveg við þessa takmörkun. Allt í einu er hún bara tekin í burtu og öll rök sem af miklum þrótti höfðu verið flutt fyrir því að þetta væri óhjákvæmilegt samræmisins vegna, þ.e. að gilda yrðu samræmdar reglur fyrir alla báta undir sex tonnum hvort sem þeir sæktu á aflamarki, þorskaflahámarki eða dagatakmörkunum, gufuðu bara allt í einu upp. Og meiri hlutinn leggur nú til að engu verði breytt í þessu. (SvG: Er hann ekki búinn að skipta um skoðun aftur?)

Síðan kemst meiri hlutinn að þeirri miklu vísdómsniðurstöðu að það sé óþarfi að hafa leiðréttinguna til hópsins 15%, nú sé nægjanlegt að hún sé 5%. Að vísu er það tengt þeirri ákvörðun að taka báta milli sex og tíu tonn inn í hópinn, sem augljós rök voru fyrir allan tímann og ég var margbúinn að benda á að það gengi ekki að mismuna mönnum eins og til stóð. En réttlætið er sem sagt relatíft hjá ríkisstjórninni í þessu. Það var 15% í gær og 5% í dag. Og leiðrétting sem var nauðsynlegt að gera vegna þess að smábátar hefðu fengið skerðingu umfram aðra frá og með árinu 1990, hún hrundi, gengisféll á einni nóttu úr 15% ofan í 5%. Það var mikið gengisfall á réttlætinu í nótt hjá ríkisstjórninni eða meiri hlutanum. (SvG: Hvar er meiri hlutinn núna? Ætli hann sé að skipta um skoðun?) Ja, maður fer að velta því fyrir sér hvort hann sé niðri á klósetti að skipta um skoðun, herra forseti. Það væri eftir öðru. Hann er a.m.k. ekki hér í þingsalnum og hefur kannski ekki mikinn áhuga á því að verja framgöngu sína í þessu máli og skiljanlega.

Herra forseti. Eftir stendur að þarna er lítils háttar lagfæring á ferðinni þó seint sé og í litlu sé, eins og ég hef áður sagt, hvað varðar þá smábáta sem völdu aflamarkið 1990 og eru án nokkurs vafa sá hluti íslenska fiskveiðiflotans sem á þessu tímabili hefur farið hvað verst út úr hlutunum.

Ég mótmæli því hins vegar að einhver rök hafi komið fram fyrir því að lækka þetta hlutfall úr 15% og niður í 5%. Þó að jafnsettir bátar milli sex og tíu tonn hafi verið teknir með, sú leiðrétting hafi verið gerð, þá eru það ekki rök út af fyrir sig til þess að lækka hlutfallið úr 15 niður í 5. Það hefði a.m.k. mátt skoða aðrar útfærslur eins og þær að setja frekar eitthvert þak á magnið til þeirra báta sem besta stöðu höfðu, eða skoða þetta einhvern veginn öðruvísi. Þarna hefur auðvitað orðið um tiltölulega litla breytingu að ræða, sérstaklega af því að hún er hlutfallsleg og þetta mun þar af leiðandi ekki bæta stöðu þeirra sem eru lakar settir, eru á lakari endanum hvað aflaheimildir snertir að miklum mun. Að vísu fá þessir bátar jafnframt úthlutun úr jöfnunarpotti samkvæmt ákvæði til bráðabirgða, sennilega ákvæði til bráðabirgða III núna, og það lagar stöðu þeirra. En eftir stendur að þarna er nokkuð langt í land með að menn hafi gripið til þeirra lagfæringa sem til stóð og þörf væri á.

Það er auðvelt að sýna fram á dæmi um báta sem voru við upphaf þessa tímabils með kannski 20 tonna heimildir og skertust alveg niður undir tíu tonn. Núna er heildaraflinn í þorski að nálgast sömu mörk. Hann er einmitt að gera það um þessar mundir. Hann er að nálgast sömu mörk, þ.e. 300 þús. tonn, og hann var þegar bátarnir voru knúnir til þess að velja í kringum 1990. Þar af leiðandi ættu þeir, ef ekkert annað hefði gerst en bara einföld skerðing á úthlutuðu heildarmagni í þorski, að vera að nálgast sömu mörk aftur --- er það ekki? --- þegar þorskaflinn er aftur að komast upp í 300 þús. tonn.

En það gerist ekki af því að þessir bátar hafa sætt skerðingum af ýmsum ástæðum vegna aðgerða sem hefur verið gripið til gagnvart öðrum. Þar má nefna t.d. að þegar tekið var fyrir línutvöföldunina og henni síðan úthlutað varanlega til þeirra skipa sem þá sókn höfðu stundað, þá var það auðvitað á kostnað annarra. Fleiri dæmi af þeim toga er hægt að tína til. Það var ekki nema þegar þessir bátar voru sjálfir í þeim hópi að þeir náðu til sín hlut úr þeim aðgerðum.

[13:30]

Herra forseti. Það er margt sem ég hefði gjarnan viljað gera athugasemdir við. Ég hef velt því fyrir mér hvort maður ætti að fara út í að leggja til breytingartillögur við þetta mál, til að mynda ákvæðið með 1. apríl til 30. sept. Ég hef eiginlega horfið frá því. Það gildir í raun það sama um þetta og gildir um stjórnarfrumvarpið í heild að varla er hægt að ætlast til þess að við stjórnarandstæðingar förum að reyna að fara eitthvað inn í þetta mál með efnislegum tillöguflutningi eins og það er úr garði gert, uppbyggt og að því hefur verið unnið. Því held ég að okkur sé tæpast boðið upp á annað en að lýsa afstöðu okkar til málsins efnislega í ræðum og taka síðan afstöðu til þess í atkvæðagreiðslum. Það er í raun tæplega gerlegt að fara inn í þetta mál með einhverjum breytingartillöguflutningi eins og það er úr garði gert.

Þetta kraðak, breyting á lögunum varanlega annars vegar, aðlögunarákvæða og ákvæða til bráðabirgða hins vegar, er þvílíkt móverk að ekki er nokkur leið að reyna að laga það til, það er þannig. Og þessi löggjöf, herra forseti, og hæstv. sjútvrh. ætti nú aðeins að velta því fyrir sér, er orðin þvílíkur bastarður hvað uppbyggingu snertir að það hálfa væri nóg. Hafa menn flett upp lögunum um stjórn fiskveiða í tölvunni sinni, þar sem þau eru uppfærð, og skoðað öll bráðabirgðaákvæðin, bæði núgildandi, tilvonandi og þegar úrelt bráðabirgðaákvæði sem hanga þarna inni? Þau skipta tugum frá umliðnum árum. Þvílíkt bótasaumsverk hefur þessi lagasetning orðið í höndunum á okkur þingmönnum og framkvæmdarvaldinu.

Varðandi t.d. smábátana er það þannig að segja má mjög svipað um smábátana og almannatryggingalöggjöfina. Þetta er orðinn slíkur bótasaumur og uppbyggingin er orðin þannig á þessum ákvæðum að það dugar ekkert annað en heildarendurskoðun og algjörlega ný uppbygging löggjafarinnar frá grunni.

Ég held t.d. að taka verði þessi lög og kaflaskipta þeim upp á nýtt. Ef lögin hefðu frá byrjun verið þannig uppbyggð t.d. að ákvæðin um smábátana hefðu verið alveg sjálfstæður kafli þá hefðu menn ekki þurft að fara út í þessi endalausu bráðabirgðaákvæði. Þá hefðu menn getað breytt einstökum efnisatriðum í þeim köflum. 6. gr. og 6. gr. a í lögunum, varð náttúrlega fræg að endemum því að hún var svo löng að hún tók stundum yfir á þriðju blaðsíðu ef ég man rétt, a.m.k. upp undir tvær, og var ekki beint til þess fallin, eins og hún var saman sett, að auka skilning manna á þessum hlutum. Enda leyfi ég mér að segja að ég óttast að sárafáir menn í landinu hafi sæmilega heildaryfirsýn yfir þetta og kunni þetta til hlítar. Ég held að þeir séu ekki mjög margir. Ég held að þar á meðal hafi sjútvrn. verið að missa tvo þeirra í burtu frá sér einmitt þessa dagana. Jú, hjá Landssambandi smábátaeigenda eru menn sem kunna þetta sæmilega og kannski einhverjir örfáir sérstakir áhugamenn um þessi fræði í viðbót, en þar fyrir utan eru þeir ekki mjög margir.

Ég dauðvorkenni þingmönnum sem ekki hafa afplánað í sjútvn. eða af einhverjum sögulegum ástæðum hafa alveg sérstaklega þurft að setja sig inn í þetta, að eiga svo að bera ábyrgð á þessum ósköpum með atkvæðum sínum. Það er ekkert áhlaupsverk að botna í þessu nema menn hafi svo að segja meira og minna hrærst í þessu allan tímann, eins og þessi þvæla er með margföldu stjórnkerfi og flokkum og hópum og hugtökum sem eru á fullri ferð og eru að breytast. Hafa t.d. hv. þm. allir áttað sig á nýja hugtakinu sem er að koma hérna inn? Það er að koma eitt nýtt hugtak hingað inn, krókaaflamark. Vita menn hvað það er? Krókaaflamark, það er nýjasta hugtakið í þessu. Og það er ekki út í loftið að menn eru að reyna að skýra það vegna þess að þar er á ferðinni enn einn efnislegi þátturinn, eitt elementið sem þarf að hafa eitthvert nafn til aðgreiningar frá öðru. En eru allir með það á hreinu hvað þetta er? Aflamark, aflahlutdeild, þorskaflahámark, krókaaflamark? (Gripið fram í.) Sóknardagar, línuflokkur, línu- og handfæraflokkur o.s.frv.? Þvílík ósköp, herra forseti, sem okkur hefur tekist að láta þetta vefja upp á sig og gerast flókið.

Í staðinn fyrir að í raun ætti að hafa stjórnkerfið fyrir þessi minnstu skip í flotanum mjög einfalt. Og rökin fyrir því að hafa það mjög einfalt eru auðvitað þau að engar líkur eru á því að sókn þessa flota sé fiskstofnunum svo hættuleg að allt þetta ofboðslega regluverk þurfi til að stjórna henni. Það er í hrópandi mótsögn við hinar líffræðilegu og efnislegu aðstæður í málinu, að ákvæðin um smábáta, tveggja, þriggja, fjögurra tonna trillur, sem róa á handfærum, skuli vera miklu ítarlegri og flóknari í lögunum heldur en ákvæðin sem gilda um þúsund tonna frystitogara sem getur auðveldlega tekið tíu þúsund tonn af þorski á ári ef honum býður svo við að horfa. Það er þannig. En trillan á handfærunum, sem er að fá þetta 20, 30, 50 tonn kannski, það er þvílíkt regluverk um hana að ég veit að þeir yrðu bara stoltir af slíkri smíði í Brussel, og er þá langt til jafnað. Þykja þeir þó liðtækir við að semja flókna hluti, eins og breska lávarðadeildin hérna um árið dáðist sem mest að þegar hún ræddi heilan dag um niðurskolunarprófið. Þá rakst einn lávarðanna á reglugerð frá Evrópusambandinu um sérstakt próf sem klósett yrðu að standast til þess að vera tekin gild í Evrópusambandinu, þ.e. hvernig skolaðist niður úr þeim þegar sturtað væri niður. (SvG: Hvernig er það?) Ja, það er nú einfaldlega þannig að það er tekið svona blað, A4, því er hnoðað saman og það sett í klósettið og svo er sturtað niður. Og í tvö skipti af þremur verður kúlan að fara niður, annars fellur klósettið á prófinu. (SvG: Hvar heyrðirðu þetta?) Og þetta fannst lávörðunum nú skemmtilegt og merkilegt og þeir ræddu þetta í heilan dag í bresku lávarðadeildinni. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst við vera að lenda inn á svipað spor með reglusetninguna hvað varðar smábátaveiðar hér uppi á Íslandi. Þarf þá ekki Brussel til eða bresku lávarðadeildina.

Ég lýsti þeim sjónarmiðum mínum hér, og ég ætla að gera það einu sinni enn til þess að það liggi fyrir, að það hefði átt að nota þetta tækifæri eða eitthvert annað jafngott til að taka málefni þessara smábáta og þess vegna bátaflotans almennt sem sækir á grunnslóðina og stokka þau upp í heild sinni. Þetta er tóm vitleysa eins og þetta er. Við erum komin út í algjörar ógöngur með þetta. Þetta endurtekna þvingaða val og mismunandi flokkar hafa leitt af sér mismunun, illindi og leiðindi meðal manna innan plássa og innan hagsmunasamtaka þeirra og er í raun og veru sorgarsaga. Menn hafa farið svo mismunandi út úr þessu að góðir vinir geta á köflum varla orðið heilsast á götu í sjávarplássunum, kannski af því að annar valdi aflamark en hinn krók árið 1990. Og svo standa þeir uppi með gjörólíka stöðu og mismunandi hagsmuni svo nemur jafnvel tugum milljóna að það er engu lagi líkt. Þetta er auðvitað ein hreinasta hörmung. Eitthvert einfalt, hreinlegt óframseljanlegt kerfi með þeim takmörkunum á sókn eða heildarmagni sem menn teldu nauðsynlegt að setja fyrir þennan hóp í heild sinni, minnstu bátana og þá sem stunda veiðarnar á grunnslóðinni, er auðvitað eina fyrirkomulagið sem eitthvert vit er í til framtíðar litið.

Ég hlusta ekki á röksemdir eins og komu fram í gær frá hæstv. sjútvrh., að óhjákvæmilegt væri að hafa áfram framseljanlegan kvóta á trillum vegna þess að það hendi sjómenn eins og aðra menn að falla frá og þá yrðu ekkjurnar að geta selt kvótann til að borga skuldirnar. Eiga það að vera helstu rökin fyrir því að framlengja þessa ófreskju um aldur og ævi inn í framtíðina og bæta heldur í með því að gera m.a.s. grásleppuveiðarnar framseljanlegar með þessum hætti? Það er dapurlegt ef menn eru komnir út í slíkar ógöngur.

Það eru allt önnur rök sem eiga við þegar komið er upp í veiðiheimildir á stærri skipum og sú sókn er annars eðlis. Það eru önnur líffræðileg og fiskifræðileg rök og það eru auðvitað líka önnur rekstrarleg rök. Það eru önnur rekstrarleg rök þegar komið er upp í stórrekstur fyrirtækja þar sem tugir manna hafa atvinnu sína o.s.frv. Auðvitað er það til í dæminu í smábátaútgerðinni að einhverjar fjölskyldur t.d. hafi afkomu sína af einum báti þegar um kraftmikla línuútgerð er kannski að ræða. En almenna reglan eða venjan er sú að þetta sé einyrkjastarfsemi, fjölskylduútgerð og þá eiga þær leikreglur alls ekki við sem geta verið rök fyrir þegar stærri skipin eiga í hlut.

Herra forseti. Ætli ég láti þetta ekki nægja um smábátana. Það er aðeins eitt að lokum sem ég ætlaði að koma hérna inn á til umhugsunar fyrir menn. Ég á ekki von á að það breyti neinu og neinn muni kippa sér upp við það t.d. úr meiri hlutanum, sem er að mestu leyti fjarstaddur eins og áður hefur komið fram í umræðunni, þó að ég taki það upp hér. En ég ætla að gera það samt því ég hygg að enginn hafi nefnt það enn þá. Það er að nú er að mörgu leyti verið að stilla þeim bátum sem sótt hafa undanfarið eða á árunum 1996 og til og með dags dató á sóknartakmörkunum, þ.e. handfæri og línu og handfærahópinn, upp með sambærilegum hætti og krókabátunum var stillt upp árið 1994. Báðir hóparnir eiga það sameiginlegt að þeir hafa undanfarin ár sótt í tiltölulega frjálsu kerfi háð dagtakmörkunum.

Við skulum aðeins rifja það upp, herra forseti, hvernig kjör krókabátunum buðust á sínum tíma 1994 í ljósi lagaumgjarðarinnar eins og hún hafði verið. Hvernig var það? Þegar þeir völdu árið 1990 krókana en ekki aflamark, var sagt við þá: Þið eigið að slást um hlutdeildina í --- hvað voru það, tæp þrjú þús. tonn? Ég man þetta nú ekki alveg lengur, 2.400 eða hvað það nú var. Það eru ýmsir viðstaddir sem gætu hjálpað manni, en segjum að það hafi verið á milli 2.000 og 3.000 tonn. --- Þið eigið að slást um hlutdeildina í 2.000--3.000 tonnum og að viðmiðunartímabilinu liðnu þá verður því skipt. Þetta var sagt við þá. En hvað gerðist 1994? Hvað gerðist? Hvaða ákvörðun tók Alþingi? Alþingi tók þá ákvörðun að þetta skyldu ekki verða þessi 2.000--3.000 tonn heldur 21 þús. tonn. Sá pottur, sem þessir bátar fengu til skipta á grundvelli aflareynslu sinnar á viðmiðunarárunum fjórum, var margfaldaður og þeir gátu valið það með sér yfir í þorskaflamarkið. Gott og vel. Fyrir því voru rök því að menn höfðu treyst á þessa útgerð og haft af henni afkomu. Og að sjálfsögðu gat Alþingi tekið þessa ákvörðun.

En hvað ætlar Alþingi að gera núna við tiltölulega svipað settan hóp? Þá sem hafa róið undanfarin ár á grundvelli dagatakmarkana með alveg sama hætti og krókabátarnir reru á grundvelli dagatakmarkana á árunum 1990 til 1994. Á að bæta svona við pottinn þeirra núna þannig að þeir fái hlutfallslega, miðað við aflareynslu sína undanfarin ár, sams konar meðhöndlun og krókabátarnir fengu 1994? Nei, það er nú aldeilis ekki. Það á að setja pínulitlar mútur til þeirra, pínulitlar, 605 tonn eða hvað það nú er. (Gripið fram í: 601 lest.) 601 lest, já, það er rétt að ofgera þessu ekki. Það munar nú aldeilis um þessi fjögur tonn. Og það er líklega um 20% aukning. En ekki margföldun eins og krókahópurinn fékk 1994.

Ef við færum yfir það hvaða hlutfall krókahópurinn fékk af sinni veiði undangengin ár, hann hafði að vísu farið aðeins fram úr 21 þúsund lestunum, en ekki þau ósköp sem handfærahópurinn og handfæra- og línuhópurinn hefur undanfarið farið fram úr sínum takmörkunum, samanber hvernig 80 dagar áttu að verða að ekki neinu. Níu, var það ekki? Þannig að miðað við þann líkindareikning hafa þeir farið margfalt fram úr.

Herra forseti. Hér er með öðrum orðum, svo maður reyni nú að einfalda þetta og tala mannamál, verið að leggja til þvílíka mismunun hvað varðar meðhöndlun á svipað settum hópum smábátasjómanna, handfærahópsins og handfæra- og línuhópsins núna, borið saman við það sem krókahópurinn fékk að leitun er að öðru eins. Hvar er núna jafnræðisreglan? Hvar er núna jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og svona bara almenn réttlætis- og sanngirnisrök og meðalhófsreglan? Eiga ekki stjórnvöld að styðjast við meðalhófsregluna? Og á ekki að vera eitthvert samræmi í ákvörðunum, einhver sanngirni sýnd, þannig að mönnum sé ekki alveg bersýnilega mismunað við tiltölulega sambærilegar aðstæður?

[13:45]

Ég óska eftir því að menn tjái sig aðeins um þetta. Hæstv. sjútvrh. hefur ekki lagt mikið merkilegt til umræðunnar. Hann gæti kannski komið hérna og rætt þetta eina atriði efnislega eins og maður. Hefur hæstv. ráðherra, sem ber ábyrgð á báðum málunum, bar pólitíska ábyrgð á málinu sem leiddi til lykta stöðu krókabátanna á árunum 1990--1994, farið yfir þetta mál, hvernig samanburðurinn verður í sögunni á meðhöndlun þessara tveggja hópa á tveimur tímabilum í stjórn fiskveiðilöggjafarinnar? Og ætti vandinn ekki að vera meiri að gera sambærilega við hópana núna þegar þorskstofninn hefur verið á uppleið og það er verið að úthluta auknum veiðum í stofninum. Nei, ég hef ekki séð að menn hafi haft miklar áhyggjur af þessu.

Herra forseti. Ég veit að staða fjölmargra sem hafa sótt á þessum kjörum undanfarin ár verður mjög erfið. Það er nánast óhjákvæmilegt að einhverjir sem hafa nýlega fjárfest í dýrum bátum, verið að reyna að sækja í þessu kerfi og hafa í sjálfu sér haft ástæðu til að ætla að miðað við reynsluna þar sem jafnan hefur verið bætt við dögum og gerðar einhverjar lagfæringar þannig að menn kæmust af, hafi getað haft ástæðu til að ætla að með svipuðum hætti yrði þeim gert kleift að starfa og ráða við sínar skuldbindingar á komandi árum. Þeim eru hér settir mjög þröngir kostir. Þeir eiga kannski um það að velja að fara inn í þennan sláturdilk, sem þeir kalla víst svo nú orðið, sem er aðlögunartíminn með 30 tonna þakinu. Við skulum átta okkur á því að hér er kannski um að ræða fyrirtæki eða rekstur þar sem skuldsetningin hleypur jafnvel á tugum milljóna kr. Það er ekkert óalgengt að menn séu með fjárfestingar á bakinu upp á einar 10--15 millj. í þessum rekstri, nýlega keypta báta með dýru úthaldi og þau leyfi sem þar hafa fylgt með. Þeir gætu kannski núna staðið frammi fyrir því að velja annaðhvort dagana, sem síðan má reikna með að fari úr 23 niður í 18, svo 14, svo 11 o.s.frv., ef þeim fækkar um 25% á ári eins og reglan gerir ráð fyrir, eða taka með sér yfir í þorskaflahámarkið 12, 14, 16, 18 tonn eða eitthvað þannig sem þeir betur settu úr hópnum komi til með að fá. Ég efast um að það verði mikið meira sem þeir sem hvað harðast hafa sótt fá í sinn hlut úr þessum litla potti. Það hrekkur skammt þegar fjárfestingin er af þeim toga sem ég er að nefna, enda hafa menn gjarnan orðað það þannig við mig að þetta sé spurningin um að velja það hvort þeir verði hengdir eða skotnir. Það er nú þannig. Ég verð að segja að vegna þess hvernig menn hafa á fyrri tíð brugðist við í sambærilegum tilvikum, þá finnst mér að ástæða væri til að skoða hvort þarna sé á sanngjarnan hátt verið að koma til móts við menn.

Ég á mér þann draum, herra forseti, að einhvern tíma verði ungur og áhugasamur sagnfræðinemi við Háskóla Íslands eða einhver annar sambærilega settur eða maður í löngu doktorsnámi svo kjarkaður að hann leggi í það að skrifa sögu fiskveiðistjórnar smábáta á Íslandsmiðum á árabilinu 1986 til og með 1999/2000. Kannski þarf að fara til 2001 þegar þessu skeiði verður lokið sem hér er verið að setja upp. Það verður hrikaleg saga. Ég spái því að sú saga verði síðar notuð, ef hún verður skrifuð --- og er þá farið að ræða þetta í miklum ef-setningum --- sem kennslubók í Háskóla Íslands um það hvernig ekki eigi að gera hlutina, hvernig rétturinn eigi ekki að þróast og hvernig eigi ekki að standa að málum.

Það versta í þessu, herra forseti, er náttúrlega mismununin. Hún er svo svakaleg. Menn gleyma því oft þegar þeir eru að fjalla um þessa hluti að þeir eru með viðkvæma hagsmuni einstaklinga í höndunum.

Herra forseti. Ég ætlaði í lokin lítillega að hverfa að aðalefni málsins sem því miður hefur svo oft viljað gleymast, þ.e. breytingunum á 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar. Orkan hefur eins og kunnugt er farið mjög mikið í að ræða þetta smábátamál. Það er kannski að einhverju leyti meðvitað að meiri hlutinn hefur valið sér þann kost að láta sem böndin berist að því því að þeim mun minni verður þá umræðan um stóra málið sjálft, þ.e. um það hvað dómur Hæstaréttar um grundvöll laganna um stjórn fiskveiða þýði. Tekur hann bara til 5. gr.? Tekur hann einnig til 7. gr.? Hefur hann almennt stefnumarkandi gildi? Er Hæstiréttur að gefa Alþingi sterka aðvörun, o.s.frv.?

Ríkisstjórnin hefur valið þann kost að hafna allri túlkun á dómnum annarri en þeirri að bókstafurinn blífi hvað varðar 5. gr. og fella hana úr gildi eða breyta henni í grundvallaratriðum en taka ekkert á eða velta fyrir sér öðrum hugsanlegum afleiðingum dómsins. Við þessu höfum við varað. Við höfum reynt að fá í gang vinnu, skoðun og umræður um hið víðara samhengi málsins, en það hefur komið fyrir ekki.

Ég er þeirrar skoðunar að verulegar líkur séu á því að komi það til kasta Hæstaréttar á komandi árum að fjalla meira um þessi mál og/eða skera úr um þau gæti það líka orðið niðurstaða Alþingis á breyttum tímum að menn hefðu valið alveg röng viðbrögð í þessu tilviki, að í raun og veru hafi engin sérstök ástæða verið til þess að hrófla við 5. gr. laganna en þeim mun meiri ástæða til að velta því fyrir sér hvort 7. gr. og aflamarks- og aflahlutdeildarkerfið á grundvelli reynslu aftan úr fortíðinni væri ekki þannig fyrirfarandi tálmun í óbreyttri mynd sinni að því yrði að breyta. Og að menn gætu alveg eins átt eftir að standa frammi fyrir því að Hæstiréttur og/eða Alþingi á síðari tímum kæmist að þeirri niðurstöðu að til þess að auðvelda nýjum aðilum aðgang að greininni væri miklu mikilvægara að gera breytingar á þeim hlutum löggjafarinnar heldur en jafnvel 5. gr. Það væri líka rökréttara vegna þess að efnislega er mjög skrýtið ef ekki má hafa nokkurn hemil á stærð fiskiskipaflotans út af fyrir sig og stýra og hólfa og flokka fiskiskipaflotann við landið. Ég held að þegar maður fer að velta því betur fyrir sér, þá geti það ekki staðist. Það hlýtur að vera algjör þvæla að ekki megi setja leikreglur um það. Nú er ég ekki að segja að þær hafi endilega átt að vera í sinni óbreyttu mynd, enda var ég ekki og hef ekki verið sérstakur stuðningsmaður þeirra úreldingarreglna sem slíkra. En fyrr má aldeilis rota en dauðrota að snúa málinu þannig algjörlega við, hafandi ríghaldið í þessar úreldingarreglur, allt of stífar úreldingarreglur á undanförnum árum og koma svo allt í einu upp með það að henda þeim algjörlega og að beinlínis megi ekki hafa þarna neinn hemil á. Ég held að þetta sé mjög svo umdeilanleg túlkun svo ekki sé meira sagt.

Varðandi aðgengi nýrra aðila að greininni sem er túlkun lögfræðingaspekingahópsins, vitringanna þriggja, þeir eru að vísu ekki frá Austurlöndum í þessu tilviki heldur ofan úr háskóla aðallega en það er sami fjöldi og var forðum að þvælast í Austurlöndum, þrír vitringar, þá snýst þetta með veiðileyfin og úreldingarreglurnar í reynd um þá tálmun sem í þeim er fólgin gagnvart nýjum aðilum að koma inn í greinina. Ekki satt? Þeir eru þeirrar skoðunar og rekja það reyndar á bls. 4 og 5 í grg. með frv. að það sé kannski ekki endilega svo að Alþingi geti ekki sett um þetta einhverjar reglur en það sé bara svo erfitt að finna hverjar þær eigi að vera og hvernig þær gætu orðið, að gefist er upp við það og ákveðið að henda þeim eins og þær leggja sig og treysta þá í raun og veru eingöngu á aflamarkskerfið og aflahlutdeildarkerfið til að stýra sókninni í fiskimiðin. Hverjar eru líklegar að verði síðan afleiðingarnar af þessu? Að vísu reikna ég með að áfram verði einhverjar reglur um veiðarfæri, búnað og annað því um líkt. Jú, afleiðingarnar verða mjög líklega þær að kvótinn hækkar í verði. Við höfum stundum orðað það þannig, a.m.k. í umræðum í sjútvn., að þetta snúist um það að þarna hafi áður verið tvær girðingar, önnur var úreldingarreglurnar og hin var aflatakmarkanirnar, og núna séu menn að fella aðra en hækka hina. Eru þá nýju aðilarnir nokkuð betur staddir? Halda menn að það sé auðveldara að komast yfir eina fjögurra metra háa girðingu heldur en yfir tvær tveggja metra? Nei. Ef menn eru sæmilegir í hástökki, þá er kannski möguleiki að stökkva yfir tvær tveggja metra girðingar. En ég þekki fáa menn sem komast hjálparlaust yfir fjögurra metra háa girðingu nema þá með stöng.

Ég held nefnilega að það kostulega sé að gerast að menn taka dóm Hæstaréttar, túlka hann og segja: Dómurinn þýðir að það verður að greiða götu nýrra aðila inn í greinina. Þetta er of mikil tálmun. Það eru of mikil forréttindi þeirra sem fyrir voru í kerfinu að viðhalda þessum úreldingarreglum. Það er það sem Hæstiréttur er að segja. En efnislegu áhrifin af breytingunum sem menn gera verða hins vegar þau að það verður enn erfiðara eftir þær fyrir nýja aðila að komast inn þannig að afleiðingarnar eða áhrifin af breytingunum verða algjörlega öfugar á við það sem menn í orði kveðnu ætla að gera með viðbrögðum sínum við dómnum.

Herra forseti. Ég held því miður að einn gallinn af mörgum á vinnunni í þessu máli sé sá að engin umræða hefur fengist í gang um það hvernig mætti hugsanlega bregðast öðruvísi við dómi Hæstaréttar einmitt hvað þetta snertir. Þetta er reyndar mál sem ég a.m.k. hef hugsað heilmikið um á undanförnum árum vegna þess að það er alveg ljóst að nýliðun, endurnýjun, kynslóðaskipti og uppeldi í sjávarútvegi er í hættu í þeim skilningi sem maður a.m.k. áður lagði í það orð, í því takmörkunarkerfi sem hér er á komið, í þessu kvótakerfi. Það er ekkert nýtt og það er ekki bara bundið við sjávarútveg. Menn standa frammi fyrir að mörgu leyti mjög hliðstæðum vanda í landbúnaði. Þessi vandi fylgir öllum skömmtunar- og takmörkunarkerfum af þessum toga af því að þau loka réttindin af í einhverjum tilteknum hópi þeirra sem fyrir eru. Ætli það séu ekki einhverjir hérna og þar á meðal virðulegur forseti sem hafi stundum verið að velta því fyrir sér hvernig þetta fari t.d. í landbúnaðinum ef m.a. kvótakerfið þar reisir þröskulda fyrir því að eðlileg kynslóðaskipti og endurnýjun geti orðið í greininni. En það gerir það kerfi ásamt að vísu öðru að sjálfsögðu, erfiðleikum í greininni o.s.frv.

Ég hef hugsað heilmikið um og m.a. reynt að kynna mér það, löngu fyrir dóm Hæstaréttar, hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum, herra forseti, hvernig væri mögulega hægt að byggja inn í þetta fiskveiðistjórnarkerfi eða eitthvert breytt kerfi, einhverjar aðferðir, einhverjar leiðir fyrir nýja aðila, búa út einhverjar uppeldisstöðvar fyrir nýja sjómenn og gefa nýjum aðilum einhvern veginn kost á því að spreyta sig og sanna sig og verða svo að dugandi sjómönnum og útgerðarmönnum ef þeir eru efniviður í það, svipað og menn gátu áður fyrir daga þessa kerfis og geta kannski fræðilega enn en þurfa til þess mikla peninga. Ég held að það væri tilraunarinnar virði að fara yfir það hvernig slíkt mætti gerast. Og værum við þá ekki um leið að svara Hæstarétti? Værum við þá ekki um leið að koma til móts við þá merkingu sem menn lesa út úr dómnum að núverandi úreldingarreglur setji of mikla tálmun gagnvart nýjum aðilum og það sé ekki réttlætanlegt?

Herra forseti. Ég held t.d. að þarna mætti skoða möguleika eins og þá að setja upp einhvers konar reynslukerfi á smábátum eða minni fiskiskipum. Ég held að erfitt yrði að koma því við og ekki kannski sama ástæða til að gera það gagnvart stórum skipum. En það er mjög auðvelt að hugsa sér að það gæti gerst varðandi minni skip. Það væri fjandakornið a.m.k. ekki hættulegt að gera tilraun með það. Það dræpi menn ekki og ekki heldur þorskinn í stórum stíl, held ég, þó að gerð væri einhver tilraun í þá átt. Menn eru með reynslusveitarfélög og alls konar æfingar í þeim efnum, gera tilraunir með að flytja verkefni til sveitarfélaga sem er svolítið nýmæli í framkvæmd af þessu tagi. Af hverju setjum við ekki upp reynsluverkefni þar sem menn geta sótt um það eða einhvern veginn komið inn í það að reyna á gæfu sína eða atgervi sitt til veiða á smábátum, fengið einhvern tilskilin skilgreind leyfi og haft innan vissra marka rétt til þess að sýna fram á það hvort þeir gætu orðið dugandi sjómenn? Fyrir þá sem reynast vel og eru ekki bara einhverjir vindbelgir sem ekkert er á bak við og sýna með reynslunni fram á það, t.d. þrjú sumur í röð, að þeir ná árangri, kemur til sögunnar ákveðinn farvegur sem færir þá einhvern veginn inn í kerfið þó í litlu sé, skapar þeim einhvern pínulítinn grunn til að byggja á og hefja sína starfsemi þar innan kerfisins. Er eitthvað að þessu? Er þetta ekki í samræmi við það sem gert er mjög víða? Hvernig er með iðnnema? Fara þeir ekki á samning og vinna þeir ekki á lágu kaupi í fjögur ár eða þrjú eða hvað það er áður en þeir öðlast tiltekin réttindi, lögvernduð starfsréttindi í sinni stétt? Jú, það er þannig. Það er nefnilega nákvæmlega þannig.

[14:00]

Hvernig er það með leigubílstjóra? Þurfa þeir ekki að hafa reynslu af því að aka fólki, hafa harkað á markaðnum í Reykjavík eða keyrt fólksflutningabíla í ákveðinn tíma? Þá geta þeir sótt um að koma inn á listann og bíða eftir því að fá bílaleiguleyfi sem losna. Það er nákvæmlega þannig sem það gerist vegna þess að þar er takmörkun, takmarkaður fjöldi. Þar er ekki pláss fyrir alla og því búa menn til tiltekinn skilgreindan reynslufarveg inn í hópinn fyrir nýja aðila. Það er ekki þannig að leigubílaréttindin í Reykjavík séu boðin upp og seld hæstbjóðanda. Það er ekki þannig að hver einstakur dagur í almanaksárinu til að keyra leigubíl í Reykjavík sé framseljanlegur. En það er það sem á að fara út í hér. Það á að verða aðferðin til að hleypa nýjum aðilum inn. Það væri algerlega sambærilegt og ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að það yrði að gera þessi réttindi í leigubílaakstri í Reykjavík framseljanleg, veiðileyfi á kúnnana hér, fulla Reykvíkinga þegar þeir eru að koma heim af börunum um helgar --- þeir eru stærsti kúnnahópurinn (Gripið fram í: Utanbæjarmenn.) og einstöku utanbæjarmenn auðvitað --- og það væru framseljanleg réttindi per dag að mega keyra þarna.

Herra forseti. Ég held t.d. að það verði áhugavert að fylgjast með því hvernig þeim tilraunum eða umræðum sem verið hafa í Noregi um að reyna svona kerfi reiðir af. Færeyingar hafa mikið skoðað sambærilega hluti og víða úti um heim er það þannig að uppeldið er í gegnum þessa sókn á smærri skipunum. Þar læra menn gjarnan vinnubrögðin, handtökin og komast inn í greinina.

Ég ætla að nefna annan möguleika, herra forseti, sem væri líka vel hugsanlegur og ég hef oft velt fyrir mér. Hann er hreinlega sá að taka frá út úr kerfinu einhverjar tilteknar veiðiheimildir sem nýir aðilar geti sótt um og prófað að nýta á grundvelli skilgreindra leikreglna. Við getum t.d. hugsað okkur að það væri gert með reglu sem ég hef lengi haft áhuga á að reyna að koma inn í þetta kerfi og ég hef kallað fyrningarreglu. Hvað væri fyrningarregla í þessu tilviki? Hún væri fyrning á þeim veiðiréttindum, þeim afnotarétti sem handhafarnir hafa en nota ekki sjálfir. Við skulum segja að þetta væri 10% fyrning og þá virkaði það þannig að aðili sem leigði frá sér 100 tonn í þorski fengi á næsta ári ekki nema 90 til baka. 10% færu í sérstakan pott og mynduðu stofn til reynsluúthlutunar handa nýjum aðilum. Það er ekkert að því að gera eitthvað svona. Í viðskiptum með veiðiheimildir t.d., hvort heldur er varanlegar eða þess vegna leigukvóta á markaði, mætti skerða réttindin sem skipta um hendur um eitthvert tiltekið hlutfall og taka þannig til baka til ríkisins einhvern tiltekinn stokk veiðiheimilda og nota í svona lagað. Það er ekkert að því. Af hverju væri að mínu mati eðlilegast að gera þetta með þessari fyrningarreglu? Það er af því að hún er sanngjörn. Hún væri sanngjörn vegna þess að þetta er afnotaréttur. Ég sæi ekkert eftir því þó að 10% af þeim veiðiheimildum sem hafa verið úthlutaðar gengju þannig til baka ef þeir sem fengu þær notuðu þær ekki sjálfir, enda var í aðalatriðum aldrei til annars ætlast þegar menn fengu þennan rétt en að þeir nýttu hann sjálfir.

Það mætti í þriðja lagi nefna möguleika sem oft hefur verið nefndur í öðru samhengi. Það mætti hugsa sér að leiðin fyrir nýja aðila inn í greinina gerðist við þær aðstæður að aukinn hlutur væri til skipta eins og núna í þorskinum. Það mætti hugsa sér að við hefðum þá reglu, jafnvel í hverri stöðugri kvótabundinni tegund, að þegar aflinn, úthlutaður heildarafli, færi upp fyrir t.d. meðaltalsjafnstöðuafla á einhverju árabili, við skulum segja færi upp fyrir 275 þúsund tonn í þorski, þá byrjaði farvegur inn í hluta af aukningunni fyrir nýja aðila, uppeldið inn í greinina kæmi þannig til sögunnar. Sjálfsagt rjúka menn upp og segja að með því væri verið að skerða hlut þeirra sem fyrir eru og svarið er auðvitað já, að sjálfsögðu. Þeir fengju þá ekki prósentvís um aldur og ævi, sömu prósentu úr stofninum, hversu stór sem hann yrði, enda er það kerfi della. Það er della. Segjum sem svo fræðilega að það gerðist að þorskkvótinn á Íslandsmiðum færi upp í 600 þúsund tonn. Segjum það. Til þess að vera aðeins nær veruleikanum þá skulum við segja 500 þúsund tonn því að það hafa komið toppar í veiðinni sem hafa nálgast þau mörk. Í einhver skipti hefur aflinn a.m.k. orðið á bilinu 400--500 þúsund tonn. Ætla menn þá að halda áfram prósentuúthlutun? Á hlutdeildin að ganga upp úr endalaust? Er það endilega sjálfgefið?

Hvað með það t.d. þegar úthlutaðar veiðiheimildir í þorski fara upp fyrir það magn sem var veitt á viðmiðunarárunum 1981--1983? Ætla menn að halda áfram að úthluta hlutfallslega þegar þeir sem eftir eru eða þeir sem hafa keypt réttindi af þeim eru farnir að fá jafnmikið eða meira í sinn hlut en þeir fengu fyrir daga kvótakerfisins? Það er eðlilegt að spurt sé því að þau mörk gætu verið í nánd, guði sé lof. Nei, þá væri ekkert að því, herra forseti, að hafa þetta þannig að við tækjum t.d. 30--40% veiðiheimildanna sem bætt væri við slíkt hlutfall af aukningunni og segðum: Nú er meira til skiptanna. Nú er lag. Nú árar vel og nú búum við til farveg fyrir nýja aðila inn í greinina með tilteknum, skilgreindum og hóflegum hætti. Þeir fá vissan grunn til að standa á en eftir það verða þeir svo auðvitað að spjara sig í kerfinu eins og hverjir aðrir. Þetta væri ein aðferð. Þetta er þriðja mögulega útfærslan, leiðin fyrir nýja aðila sem er að mínu mati miklu skárri heldur en þessi kaupleið, viðskiptaleið.

Fjórða mögulega leiðin er sú sem er lögð til í umsögn Sjómannasambandsins og er sömuleiðis vel þekkt hugsun, að þetta sé gert í gegnum sívirka endurúthlutun réttindanna. Það er tiltölulega einföld, sjálfvirk formúla. Hvernig mundi það gerast, herra forseti? Það mundi einfaldlega gerast þannig að t.d. núna á árinu 1999, eða þess vegna á næsta fiskveiðiári, yrði úthlutun aflamarksins eða aflahlutdeildarinnar í þorski meðaltal af reynslunni, þ.e. af veiðunum eins og þær voru hjá hverjum og einum aðila segjum árin 1995--1998, að meðaltali á árabilinu 1995--1998. Hvað gerist þá? Þá fá þeir sem veiddu en ekki endilega þeir sem voru skráðir fyrir kvótanum úthlutunina í þeim mæli sem það var. Er það ekki sanngjarnt? Er það óréttlátt í sjálfu sér? Við skulum hugsa okkur að bátar sem veiddu öll þessi fjögur ár að hluta til kvóta sem hafði verið úthlutaður í fyrndinni einhverjum öðrum --- þeir höfðu fyrir því. Það voru þeir sem fóru á sjóinn. Það voru þeir sem svitnuðu. Það voru þeir sem lögðu líf sitt í hættu --- og þær útgerðir sem að því stóðu, fái þá úthlutunina. Þannig verði þetta jafnt og sígandi leiðrétt og fært að hinni raunverulegu veiðireynslu hvers undangengis þriggja til fjögurra ára tímabils. Árið 2000 yrði þá úthlutað miðað við þá sem raunverulega veiddu árin 1996--1999 o.s.frv. Þessar hugmyndir er Sjómannasambandið að reifa í umsögn sinni og þær eru einmitt enn ein leið, önnur og miklu sanngjarnari, fyrir nýja aðila inn í kerfið en sú sem ríkisstjórnin leggur til, þ.e. leið peninganna, að menn verði að kaupa sig inn með því að kaupa út réttindi þeirra sem fyrir eru.

Þessi fjórði og síðasti möguleiki sem ég nefni til þess að menn tyggi það ekki einu sinni enn að enginn hafi nefnt neinar aðrar hugmyndir en þær sem koma frá ríkisstjórninni, er að vísu þeim annmarka háður, sem mér geðjast ekkert sérstaklega að, að hann virkar ekki nema leigumarkaður sé til staðar. Það er forsenda hans að réttindin séu að skipta um hendur á leigu og að þær leikreglur og kjör séu í kerfinu að leiguliðar eigi einhvern möguleika. Ég er ekki hrifinn af því. Ég er á móti þessu leigubraski og ég tel að það þurfi ekki og að aldrei hefði átt að leyfa það. Það sem átti að leyfa voru jöfn skipti og rúmar heimildir til geymslu ónýttra réttinda og framúrtöku og þá síðan einhverjar reglur um varanlegt framsal.

En svona væri hægt að gera þetta. Margar aðferðir af þessu tagi og örugglega margar í viðbót mætti skoða en ekki hefur fengist nokkur viðræða um það að prófa að mæta frekar kröfum Hæstaréttar --- ég býð formann sjútvn. hjartanlega velkominn til umræðunnar --- að mæta frekar því sem menn lesa út úr dómi Hæstaréttar með slíkum aðferðum. Nei, þvert á móti á að setja síðustu réttindin í þessu kerfi svo gott sem inn í sundurgreindar og framseljanlegar einingar og síðan á væntanlega að benda mönnum á það að þeir verði veskú að kaupa sig inn í kerfið.

Það er eitt atriði enn, herra forseti, sem ég ætla að koma svolítið inn á og tengist þessu máli þó að það geri það ekki beint í þeim skilningi að verið sé að leggja til breytingar á því ákvæði. Það eru þau áhrif sem mér finnst líklegt að dómur Hæstaréttar hafi á 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða og svigrúm sjútvrh. til að kvótasetja einstakar tegundir. Það hefur lítið verið rætt um það hér. En staðreyndin er náttúrlega sú að þar liggur valdið. Þar í liggur mjög mikið og afgerandi vald sem sjútvrh. hefur skv. 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Í 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða eru þau ákvæði sem sjútvrh. grípur til þegar hann ákveður að kvótasetja tegund. Ef hann kvótasetur tegundina ekki, hvað gerist þá?

Þá er enn einn hv. þm. úr stjórnarliðinu velkominn í salinn, Einar Oddur Kristjánsson, hv. 3. þm. Vestf. Fer nú bara að verða vel mætt af meiri hlutanum og væri fróðlegt að fá að vita í hvaða málum meiri hlutinn hefur skipt um skoðun í hádegishléinu. (EOK: Ég hef aldrei skipt um skoðun á ævi minni.) Það hljóta nú að hafa orðið einhver skoðanaskipti í hádeginu.

Herra forseti. Aftur að þessu atriði málsins, 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.``

Ég vek athygli á þessu orðalagi ,,sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.`` (Gripið fram í: Hvar stendur þetta?) Þetta stendur í 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Með öðrum orðum á ekki að kvótasetja tegundir nema nauðsynlegt sé talið að takmarka sóknina sérstaklega í þær. Og af hverju er það? Það er af því að þegar menn settu þessi lög, þá áttuðu menn sig á því að með þessari grein, nákvæmlega þessu ákvæði laganna, er sjútvrh. fært gífurlega afgerandi vald. Það var tekist á um það á sínum tíma, 1983, hvort þetta vald ætti að liggja hjá sjútvrh. eða vera hjá þinginu og við þingmenn Alþb. fluttum um það brtt. þá að þetta vald ætti í aðalatriðum að vera hjá þinginu, að þingið setti rammann með þingsályktun á hverju ári og síðan útfærði sjútvrh. hann.

[14:15]

Nú gerist það að Hæstiréttur fellir dóm og túlkun lögfræðinga meiri hlutans og meiri hlutans sjálfs á þeim dómi er sú að það verði að hætta að takmarka stærð og afkastagetu fiskiskipaflotans. Allir sem kaupa sér skip, sem fullnægja skráningarkröfum inn í íslenska flotann, eiga að fá veiðileyfi ef þeir sækja um þau, borga eitthvert tiltekið gjald, 10 þúsund kall. Þá eru verndartækin sem eftir eru fyrst og fremst fólgin í þeirri ákvörðun, ef hún er tekin, að kvótasetja tegundina, færa hana undir aflamarks- eða aflahlutdeildarkerfið og vald ráðherra verður enn þá meira afgerandi í ljósi þessara breytinga því að áður hefur þó hin takmörkunin jafnframt verið fyrir hendi að sóknin gat ekki aukist óheft í tegundir sem voru utan kvóta.

Nú eru það rök Hæstaréttar eða menn lesa það út úr dómnum að úreldingarreglurnar eða veiðileyfin standist ekki vegna þess að þau takmarki um of aðgang nýrra aðila inn í greinina. En hvað gerist þegar sjútvrh. kvótasetur tegund? Hann takmarkar um leið aðgang nýrra aðila. Þá kemur hin virka takmörkun og eftir dóm Hæstaréttar er það þannig, og það kunna einmitt að vera rökin fyrir því að dómur Hæstaréttar er eins og hann er, að Hæstiréttur hafi meðvitað hugsað sem svo: Úreldingarreglurnar svona úr garði gerðar standast ekki m.a. vegna þess að þær takmarka möguleika manna til að sækja í tegundir sem hafa verið kvótasettar óeðlilega því að það er eðlilegt að allir séu frjálsir í að sækja í þær svo lengi sem ekki þarf að grípa til ráðstafana skv. 3. gr.

Hver er þá orðin niðurstaðan af þessari reifun, herra forseti? Að hvaða niðurstöðu kemst ég um 3. gr.? Ég kemst að þeirri niðurstöðu að sjútvrh. hljóti hér eftir að þurfa að rökstyðja mun betur en hann hefur hingað til gert hverja einstaka ákvörðun um kvótasetningu tegunda. Ekki nægir að vísa í, eins og stundum hefur verið gert, tiltölulega óljósa leiðsögn Hafrannsóknastofnunar. En menn hafa látið sig hafa að það að kvótasetja tegundir og búa til verðmæt framseljanleg réttindi í tegundum sem voru mjög hæpnar fiskifræðilegar forsendur fyrir að gera og ég ætla að nefna dæmi um það.

Hæstv. sjútvrh. rauk til og setti steinbít í kvóta. Var það ekki á árinu 1996? Nú þori ég ekki alveg nákvæmlega að fara með það hvort það tók gildi 1. september 1996 frekar en 1. september 1995, það var snemma á þessu kjörtímabili og hefur líklega verið við lýði í ein tvö fiskveiðiár. Hvers vegna var rokið til og settur kvóti á steinbít? Var það vegna þess að eindregin tilmæli kæmu um það frá Hafrannsóknastofnun? Nei. Það var ekki þannig, sagði hæstv. sjútvrh. Hafrannsóknastofnun lýsti áhyggjum yfir því að nokkrar líkur væru á því að sóknin í steinbít hefði á vissum árum farið umfram það sem væri æskilegt miðað við hámarksafrakstursgetu stofnsins. Það voru engin stórfelld hættumerki á ferð. Það hlálega var að þegar kvótinn var svo settur á í kringum 1996 var steinbítsstofninn aftur á uppleið og hafði verið í nokkur ár miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslum Hafró um nýliðun í stofninum.

Kannski er ástæða til að rifja þetta aðeins upp, herra forseti, vegna þess að eru menn vissir um að sú ákvörðun sjútvrh. að kvótasetja steinbít standist, að skilyrðunum um nauðsyn í 3. gr. laganna sé fullnægt? Enn frekar er ástæða til að velta því fyrir sér hvort þessi ákvörðun stenst nú í kjölfar dóms Hæstaréttar. Hvað gerist ef einhver lætur á það reyna og næsta mál sem ráðuneytið og dómstólar fá í hausinn verður mál sem einhver höfðar sem vill fá að sækja í steinbít af því að engin ástæða sé til að hafa hann í kvóta, sóknin sé vel innan þeirra marka að teknu tilliti til óvissu og alls sem eðlilegt er að horfa til?

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr síðustu skýrslu Hafrannsóknastofnunar um steinbít, með leyfi forseta. Þar er verið að ræða um að á árunum 1985--1988 hafi steinbítsaflinn vaxið úr um það bil 10 þús. tonnum eða tæplega 10 þús. tonnum, sem hann hafði þá lengi verið, í yfir 14 þús. tonn og mestur var steinbítsaflinn 18 þúsund tonn árið 1991. Síðan minnkaði hann í tæp 13 þúsund tonn á þriggja ára tímabili, 1993--1995. Hvaða tímabil er það? Það eru árin áður en sjútvrn. rauk til og setti steinbítinn í kvóta. Þá minnkaði aflinn niður fyrir 13 þús. tonn. Hvað er Hafrannsóknastofnun að leggja til núna? 13 þús. tonn. Hvað segir í framhaldinu?

,,Vísitala veiðistofns í stofnmælingum hefur í stórum dráttum farið minnkandi síðan árið 1985 og árið 1995 var hún aðeins um 43% af vísitölunni 10 árum áður. Á árunum 1995--1998 hefur vísitala veiðistofns hins vegar farið hækkandi á ný.`` --- Hún var farin að hækka þegar ráðherrann rauk til og setti steinbít í kvóta. Það merkilega er að vísitala ungviðis, sem er auðvitað mælikvarðinn á framtíðina, var miklu jákvæðari en þetta. ,,Vísitala ungviðis bendir til vaxandi nýliðunar í veiðistofni.`` --- Samkvæmt grafi á bls. 49 í skýrslunni, ef ég man rétt, er þetta sýnt þannig að allt frá árunum upp úr 1990 hefur vísitala nýliðunar verið mjög góð. Síðan segir Hafró að vísu í þessum texta:

,,Talið er að aflinn síðasta áratug [þ.e. á níunda áratugnum] hafi verið meiri en nemur langtímaafrakstri stofnsins.`` --- Talið er. Það er ekki fullyrt mikið, það er talið. Og með orðunum ,,meiri`` getur ekki verið átt við miklu meiri, nei, vegna þess að þegar við skoðum þessar tölur þá er þetta rétt við þessi mörk sem Hafró er núna að leggja til 13 þús. tonn. ,,Hafrannsóknastofnunin leggur því til að steinbítsaflinn á fiskveiðiárinu 1998/99 fari ekki yfir 13 þús. tonn.`` Hafró leggur það samt til.

Þá er komið að spurningunni: Er einhver ástæða til að ætla að steinbítsaflinn færi mikið yfir 13 þús. tonn þó veiðin væri frjáls? Svarið er nei. Það er eiginlega engin ástæða til þess vegna þess að þrátt fyrir kerfi sem hefur verið hvetjandi og ýtt mönnum í steinbít alveg sérstaklega undanfarin ár hefur aflinn ekki orðið meiri en þetta.

Vita hv. þm. hver steinbítsaflinn var 1997? Var hann hættulega mikill? Nei, hann var 12 þús. tonn. Hann var þúsund tonnum minni en útgefin ráðgjöf Hafró. Hann var þúsund tonnum minni. Eru þá rökin fyrir hendi, brýn nauðsyn að kvótasetja þessa tegund? Hvernig er farið með valdið hér? Er sú tálmun sem nýjum aðilum er reist inn í landhelgina með því að kvótasetja steinbít frekar verjanleg en almennar reglur um takmörkun á stærð fiskiskipastólsins voru? Spyr sá sem ekki veit. Því lætur ekki einhver reyna á þetta?

Á bls. 50 í þessari skýrslu Hafró segir: ,,Sóknarþungi í stofninn virðist hafa náð hámarki árin 1991--1993 þegar aflinn var mestur en hefur verið nokkru minni síðustu fjögur ár.`` Þá var farið að draga úr sóknarþunganum í stofninn. Vísitala nýliðunar var góð og veiðistofninn var á uppleið þegar ráðuneytið rauk til og setti kvóta. Hvers vegna? Ég held að ráðuneytið skuldi okkur svör, rökstuðning og þó að það gripi til þess að setja kvóta 1996, af hverju heldur það honum þá áfram? Af hverju var kvótinn ekki felldur niður 1997 þegar í ljós kom að ekki veiddust nema 12 þús. tonn þrátt fyrir útgefna ráðgjöf Hafró upp á meira og sóknin er minnkandi? (Gripið fram í.) Ég gæti farið yfir fleiri stofna og ég gæti rakið mörg dæmi frá umliðnum árum, hv. þm. Við gætum spurt okkur að nákvæmnisvísundunum í kvótaúthlutunum á úthafsrækju þegar menn gripu t.d. til þess ráðs að stórauka kvótann þegar langt var liðið á vertíðina vegna þess að einstakir aðilar voru að verða búnir með sinn hlut og svoleiðis æfingar áttu sér stað. En menn gáfu veiðarnar ekki frjálsar af því að kvótinn var orðinn aðalatriðið. Kerfisforsendurnar réðu. Þannig er það. Það er alveg ljóst.

Herra forseti. Ég spái því að margt fleira af þessu tagi komi menn til með að þurfa að rökstyðja betur og vanda sig meira við á komandi árum en menn hafa, mér liggur við að segja, komist upp með hingað til. Ég hef gert 3. gr. að umræðuefni, herra forseti, vegna þess að ég leyfi mér að halda því fram að hún sé að komast í allt annað samhengi og miklu afdrifaríkara nú í kjölfar dóms Hæstaréttar og í kjölfar viðbragða meiri hlutans við þeim dómi, sem sagt þeirra viðbragða að fella allar úreldingarreglur og veiðileyfatakmarkanir úr gildi vegna þess að auðvitað er mjög líklegt að aðilar sem þá sæta lagi, kaupa sér fiskiskip, skrá það inn í flotann án þess að hafa þar veiðiheimildir í kvótabundnum tegundum láti á þetta reyna, láti ráðuneytið hafa fyrir því að sanna í hverju einstöku tilviki, jafnvel fyrir dómi, þar sem það er umdeilanlegt að það séu rök og ástæður til að reyra viðkomandi tegund fasta í kvóta sem tryggir þeim forgang og verndar þá sem fyrir eru í hópnum. Ef menn telja að þetta mál snúist öðrum þræði um aðgengi nýrra aðila hljóta menn auðvitað að fara að líta á þessa hluti.

Herra forseti. Ég reikna svo sem ekki með að það hafi mikið upp á sig að ræða þetta meira. Þó er margt sem leitar á hugann og gaman væri að fjalla um. Auðvitað á ekkert að hlífast við því úr því að mönnum er haldið í þessari vitleysu dögum og sólarhringum saman eins og gert hefur verið að undanförnu, þingið kallað saman í offorsi sl. miðvikudag og nú er runninn upp annar miðvikudagur. Þá er okkur svo sem ekki vandara um en öðrum en taka einhvern tíma í umræður um þetta mál og þetta er að mörgu leyti mjög stórt mál.

Ég hef dregið inn í þetta sérstaklega tvennt sem mér fannst ástæða til á lokaspretti málsins vegna þess hvernig umræðan um þessa hluti hefur þróast, þ.e. annars vegar mögulegt aðgengi nýrra aðila inn í greinina og aðrar aðferðir til að búa til farveg fyrir slíkt, opna nýjum aðilum möguleika, gefa þeim séns eins og sagt er á gullaldaríslensku og hæstv. forsrh. gæti átt til að missa það úr sér, gefa mönnum séns. (Gripið fram í.) Hins vegar er það sem lýtur að rökstuðningi ráðuneytisins hvað það varðar að kvótasetja tegundir. Þar tók ég tímans vegna aðeins eitt dæmi en þau gætu verið mörg, bæði í núinu og ekki síður frá umliðnum árum.

Síðan óska ég, herra forseti, meiri hlutanum til hamingju með að vera að koma þessu óskabarni sínu í höfn, þeim bastarði sem þetta mál hlýtur að kallast, en votta um leið þeim hv. alþm. samúð mína, hverjir sem það nú verða sem koma til með að fá þetta aftur í hausinn á næsta þingi.