Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:28:49 (3073)

1999-01-13 14:28:49# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Kristinn Pétursson (andsvar):

Herra forseti. Ég deili áhyggjum hv. 4. þm. Norðurl. e. af því að löggjöfin sé frekar stirð í framkvæmd en varðandi þær breytingar sem eru til umræðu sé ég ekki að menn græði neitt á því að fella þær tillögur því að það er kannski aðeins skárra en að gera ekki neitt. Af því að hv. þm. var að velta því fyrir sér hvort ég ætlaði að greiða þessu atkvæði gæti ég vel hugsað mér að greiða svona lagfæringu atkvæði þó að ég greiði ekki fiskveiðistjórnarlögunum atkvæði sem heild vegna þess að það er ekki í umræðunni.

En ég vil spyrja hv. þm. af því að hann var svo vinsamlegur að nefna mig í þessu sambandi. Ég hef safnað gögnum um veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í tíu ár og ég ætla í hv. Alþingi að bjóða honum aðgang að þessum gögnum. Hann situr í sjútvn. og hann getur fengið fullan aðgang að þessum gögnum ef hann hefur áhuga á því að kynna sér þá sagnfræði sem hann var að tala um. Hann sagði að einhverjir doktorar í sagnfræði ættu eflaust eftir að skrifa þessa sögu. Ég vil benda hv. þm. á að það þarf engan doktor til að skrifa þessa sögu, það getur hver sem er gert það. Ég hef verið að kynna mér þessa sögu og sumir hafa verið að segja að ég væri með einhverjar kenningar í sambandi við Hafrannsóknastofnun. Það eru ekki neinar kenningar, hæstv. forseti. Það eru fyrst og fremst sögulegar staðreyndir að veiðiráðgjöfin hefur aldrei staðist.

Til dæmis bara á viðmiðunarákvæðunum svokölluðu þegar kvótakerfið var sett á minnkaði þorskstofninn um 900 þús. tonn þótt 120 þús. tonn vantaði upp á að veiða þar sem Hafró sagði að mætti veiða. Það var nú allur sannleikurinn.