Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:41:57 (3079)

1999-01-13 14:41:57# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja almennt að meðferð málsins í þinginu en vil kannski koma áður að einu atriði sem ég óska eftir að hæstv. sjútvrh. skýri nánar eða formaður sjútvn. eða báðir, en það lýtur að því að í brtt. 4 á þskj. 703 segir svo, með leyfi forseta:

,,Í flokki báta sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki skal hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast í hlutfalli við veiðar hvers báts um sig á þessum árum og skal í þeim samanburði miðað við tvö bestu ár hvers báts af árunum 1996, 1997 og 1998. Við útreikning þennan skal afli árið 1998 margfaldaður með tveimur.``

Í frhnál. meiri hluta sjútvn. á þskj. 702 segir svo í 2. tölul., með leyfi forseta:

,,Lagt er til að horfið verði frá því að láta árið 1999 gilda við útreikning á innbyrðis hlutdeild krókabáta sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki í ýsu, ufsa og steinbít. Til að koma til móts við þá sem nýlega hafa skipt yfir í veiðar með þorskaflahámarki verði hins vegar afli ársins 1998 tvöfaldaður áður en til samanburðar við árin 1996 og 1997 kemur.``

Það er alveg ljóst að í frhnál. er efni greinarinnar ekki tíundað að fullu og ég hef aðeins orðið var við það að þeir sem hafa bara lesið frhnál. höfðu samband við mig fyrr í dag og sögðu: Þetta er eitthvað sérkennilegt, en áttuðu sig síðan á málinu þegar ég útskýrði það þannig, eins og fram kemur í brtt. sjálfri, að það ætti að miða við tvö bestu ár hvers báts á árunum 1996, 1997 og 1998. Ég hefði viljað fara fram á það að hæstv. ráðherra eða hv. formaður nefndarinnar fari nokkrum orðum um þetta til þess að taka þar alveg af allan vafa um við hvað er átt og hvernig á að skilja þetta ákvæði af því að ég tel að textinn í frhnál. sé ekki nægilega ítarlegur í þessu efni, en það er eins gott að hafa þessa hluti ítarlega vegna þess að allt þetta mál byggist ekki síst á því að það sé nákvæmlega með alla hluti farið.

Í öðru lagi ætla ég að víkja að meðferð málsins í þinginu og segja að við meðferð málsins er greinilegt að reynt hefur verið talsvert mikið á alla aðila og þanþol þingskapanna. Ég hef satt að segja ekki fyrr velt því fyrir mér að setja þyrfti í þingsköpin ákvæði um það hvað telst fullnaðarafgreiðsla í nefnd. Ég held að það þyrfti að vera skýrt og ég held að það þyrfti að vera ósköp einfaldlega þannig að segja sem svo: Það mál telst til fullnaðar afgreitt í nefnd og þær brtt. teljast hafa komið fram í nefnd og teljast hafa getað verið fluttar af viðkomandi nefndarhluta eða nefnd í heild sem komið hafa fram áður en síðasta fundi nefndarinnar lýkur. Á þær brtt. sem koma fram eftir að síðasta fundi nefndarinnar lýkur ber að líta sem brtt. frá einstökum þingmönnum. Mér finnst óeðlilegt að tillögur, sem ekki hafa legið fyrir þegar nefndin stendur upp frá síðasta fundi sínum, séu kallaðar breytingartillögur, meiri hluta eða minni hluta eftir atvikum. Menn geta talið að þetta sé smámál en þetta er nokkuð mikilvægt fyrirkomulagsatriði til þess að hlutirnir séu algerlega skýrir í þessari stofnun. Þetta nefni ég m.a. með hliðsjón af því að núna er verið að endurskoða þingsköpin, hefur því miður gengið nokkuð illa en vonandi verður því haldið áfram á næsta kjörtímabili og þá hefði ég viljað að það sæist alveg skýrt við hvað er átt í þessum efnum, hvað telst til fullnaðar afgreitt í nefnd og hvað ekki og hvernig á að fara með brtt. sem koma fram í nefndarafgreiðslu og hvernig á að fara með brtt. sem koma fram eftir að nefndin hefur lokið störfum.

[14:45]

Ég tel líka að eitt atriði sem við þurfum kannski að skoða betur sé mikilvægt í störfum nefnda. Ég er ekkert sérstaklega að ræða það út af þessari nefnd heldur bara almennt. Ég held að það verði líka að vera nokkuð skýrt hvað á að bóka í nefnd og hvað ekki og hvenær og hvernig. Það er ekki skýrt. Í raun og veru eru engar reglur í þingsköpunum um bókanir í nefndum, hvað á að bóka þar og hvernig. Ég held að það eigi að vera í þingsköpunum vegna þess að bókanir í nefndum eru svo mikilvægur þáttur þingstarfanna, eins og við sem hér erum þekkjum.

Í þriðja lagi ætlaði ég að víkja aðeins að brtt. Alþb. sem við fluttum við 2. umr. og kölluðum til 3. umr. Brtt. er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Lög um stjórn fiskveiða falla úr gildi 31. desember 2002. Fyrir Alþingi það sem hefst haustið 2001 verði lögð tillaga um nýja skipan fiskveiðimála er taki mið af 1. gr. laganna, fenginni reynslu og fyrirliggjandi dómum Hæstaréttar.

Til að undirbúa tillöguna kýs Alþingi níu manna nefnd hlutfallskosningu þegar að loknum næstu alþingiskosningum. Nefndin starfar á ábyrgð og á kostnað Alþingis en hefur sérstaka samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið sem leggur til sérfræðiþekkingu og aðstoð eftir því sem nefndin óskar eftir.

Nefndin hafi samráð við alla aðila málsins í störfum sínum. Nefndin kýs sér sjálf formann.``

Ég ætla fyrst að fara nokkrum orðum um efni tillögunnar og segja að fyrri hluti hennar lýtur að því að koma til móts við dóm Hæstaréttar að því leytinu til að Alþingi viðurkenni að lögin séu meingölluð og hluti þeirra gjörsamlega ófullkominn. Alþingi viðurkenni það með því að ákveða að fella lögin úr gildi á tilteknum tíma.

Nú eru engin sérstök vísindi á bak við dagsetninguna 31. desember 2002 af okkar hálfu frekar en aðrar slíkar sem oft sjást í þingmálum. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þessi dagsetning er til komin í þessum texta af minni hálfu, en ég skrifaði hana. Ég tók eftir því að menn voru að gantast með það að þetta væri upp úr tillögum formanns sjútvn. meðan hann var í Alþb., en þá hafi hann flutt hliðstæða tillögu í þessari virðulegu stofnun ásamt mér og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Þó að svo vilji til að þetta sé sama ártalið, þá er ekkert samhengi þarna á milli. Ég hafði engan hug á því að vera sérstaklega að gantast við hv. formann sjútvn. með þessa dagsetningu eða þetta ártal. Það breytir engu og er að mínu mati útúrsnúningur og tilraun til þess að gefa lýðræðislegri umræðu langt nef, svo að ég noti orðalag sem var notað hér um daginn, að vera að gera mikið úr þessu atriði hvaða dagsetning er valin. Það er fullkomið smámál. En ég er þeirrar skoðunar, m.a. vegna ítrekaðs orðalags í dómi Hæstaréttar, að aðalatriði dómsins sé það að veiðiheimildirnar megi ekki binda varanlega. Það sé aðalatriðið. Annað sé í raun og veru leitt af því frekar en hitt. Þess vegna hefði ég talið að sólarlagsákvæði eins og þetta, sem Alþb. gerir tillögu um, væri fullgilt svar við dómi Hæstaréttar, enda verði um leið, herra forseti, tekin um það ákvörðun að setja málið í endurskoðun eins og við gerum líka tillögu um og um það ætla ég líka að fara nokkrum orðum.

Þar er það ekki þannig, herra forseti, að við séum að leggja það til að gera á einn eða neinn hátt lítið úr sjútvrh. hver sem hann er. Það stendur ekki til, a.m.k. ekki af minni hálfu. Ég tel að málið snúist ekki um það. Ég tel að veruleikinn sé sá að í lögunum um stjórn fiskveiða sem slíkum, uppsetningu þeirra og vinnubrögðum, þurfi Alþingi að standa sig betur en það hefur gert. Ég tel að dómur Hæstaréttar beinist ekki bara að sjútvrh. og hvernig hann afgreiddi einhverja tiltekna umsókn frá Valdimar Jóhannessyni. Það er ekki aðalatriðið í mínum huga. Aðalatriðið í mínum huga er það að dómurinn gagnrýnir niðurstöðu Alþingis í þessu máli að því er varðar lög af því að hún stangist á við þann vilja sem stjórnarskrárgjafinn birtir í stjórnarskránni sjálfri. Þess vegna finnst mér eðlilegt að Alþingi geri svo að segja hreint fyrir sínum dyrum, komi til dyranna eins og það er klætt og gangi sjálft í þetta verk. Það er ekkert annað sem fyrir mér vakir og okkur með þeirri tillögu sem hér var flutt við 2. umr. málsins. Það er fjarri mér að hafa haft það í huga að það ætti að gera að neinu leyti lítið úr starfandi eða væntanlegum sjútvrh. í þeim efnum. Það er ekkert slíkt uppi.

Hitt er alveg ljóst að til þess að losa sig út úr þessum lögum þarf auðvitað að grípa til annarra ráðstafana um leið. Í þeim efnum hafa alþýðubandalagsmenn, þar á meðal formaður Alþb. nýlega í áramótagrein sinni, bent á þá leið að menn þrepi sig út úr þessu kerfi stig af stigi, t.d. á fimm ára tíma þannig að tiltekinn hluti af aflaheimildunum fari á uppboð eða losað verði um þær með öðrum hætti, skipulega og á ákveðnu árabili og þannig losi þingið þjóðina út úr þessu kerfi hægt og bítandi áður en nýtt kerfi tekur við. Mér er það algjörlega ljóst, og ef einhver hefur haft þau orð um tillögu okkar eða málflutning að öðru leyti þá vil ég segja, að ég teldi það alveg fráleitt að setja bara sólarlagsákvæði en taka ekki mjög fljótlega --- kannski ekki strax í dag --- ákvörðun um það hvernig eigi að losa sig út úr kerfinu. Það verður líka að taka einhverja slíka ákvörðun og um það tel ég að menn eigi að leita sátta innan þessarar stofnunar vegna þess að ég held að í rauninni séum við ekki aðeins að fjalla um stjórn fiskveiða heldur séum við í tiltekinni vörn fyrir virðingu Alþingis og þess vegna skiptir það mjög miklu að við náum samstöðu í máli af því tagi sem hér er um að ræða. En á meðan endurskoðunin stæði yfir og á meðan við værum að trappa okkur út úr þessu kerfi að öðru leyti, þá ættu menn, eins og við alþýðubandalagsmenn höfum bent á í okkar málflutningi, að frysta að hluta til núverandi ástand óbreytt að nokkru leyti, að vísu með vissum lagfæringum sem hafa verið í gildi að því er varðar smærri bátana. En í rauninni væru menn að setja af stað ferli sem beindist að því að losa þjóðina hægt og bítandi út úr þessu fiskveiðistjórnarkerfi af því að það samrýmist ekki grundvallarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Auðvitað gætu menn síðan komist að þeirri niðurstöðu að þeir vildu breyta stjórnarskránni eins og heyrst hefur talað um og þá er það sjálfstætt pólitískt úrlausnarefni sem ég er alla vega ekki tilbúinn til að ræða um í þessu samhengi vegna þess að það yrði óþarflega löng ræða miðað við allar aðstæður.

Þessi tillaga okkar liggur fyrir frá 2. umr. og það er alveg greinilegt af undirtektum hæstv. sjútvrh. að hann mun beita sér fyrir því að tillagan verði felld. Það er alveg greinilegt. Ég hef ákveðið, og við flutningsmenn, að við ætlum ekki að láta það gerast. Við ætlum að draga tillöguna til baka. Við teljum að það væri vont að Alþingi felldi svona tillögu, vont fyrir efni málsins og við teljum skynsamlegra að vísa þessu til kosninga, skynsamlegra að vísa því til þjóðarinnar heldur en að láta meiri hlutann á Alþingi beita valdi á síðustu vikunum áður en kjörtímabilið rennur út. Það er miklu eðlilegra og hreinlegra að þjóðin fái sjálf að kveða upp úr með það hvernig hún vill haga þessum málum frekar en að láta meiri hluta á Alþingi sem er kominn að fótum fram þó hann gæti orðið endurreistur --- ég veit ekkert um það. Hann er alla vega kominn að fótum fram stjórnskipulega séð --- ég vil ekki láta hann eyðileggja þessa hugmynd strax sem hann mundi gera ef þessi tillaga yrði felld.

Auk þess er það svo, herra forseti, að mér er það fulljóst að fjöldinn allur af ágætum þingmönnum í stjórnarflokkunum er í raun og veru hlynntur þeim sjónarmiðum sem hér eru sett fram en mundi í nafni tryggðar og meiri hlutans, sem hér er þrátt fyrir allt enn þá þó að skammt sé eftir af kjörtímabilinu, vafalaust fylgja stjórnarliðinu í því að hafna tillögunni eins og hún lítur út. Ég ætla með öðrum orðum ekki að gera það fyrir stjórnarflokkana að hjálpa þeim að fella þessi sjónarmið. Við ætlum ekki að flytja tillöguna við 3. umr. Við höfum kynnt hana, fengið ónotalegar undirtektir og látum það nægja að sinni.

Varðandi síðan efni málsins að öðru leyti get ég út af fyrir sig vísað í ágætar ræður sem hér hafa verið fluttar á undan minni ræðu. Ég ætla bara að bæta því við að ég hef aðeins reynt að fara yfir það í morgun og í gærkvöldi reyndi ég að fletta því upp, þ.e. ég reyndi að svara eftirfarandi spurningu: Eru mörg dæmi um hliðstæða dóma Hæstaréttar? Án þess að ég hafi að sjálfsögðu gert á því neina tæmandi leit, þá er bráðabirgðasvar mitt við spurningunni nei. Ég hef ekki fundið dæmi um nákvæmlega hliðstæðan dóm. Í þessu sambandi er það auðvitað samt sem áður þannig að Hæstiréttur hefur aftur og aftur verið að fjalla um löggjöf og það hvernig hún samrýmdist stjórnarskránni og m.a. um það hvernig dómar samrýmast mannréttindasáttmálum sem við höfum orðið aðilar að eins og í máli Jóns Kristinssonar á Akureyri og frægt varð.

Ég nefndi við 2. umr. þungaskattsdóminn sem var þannig að Alþingi heimilaði álagningu þungaskatts en tilgreindi ekki nein efri mörk skattlagningarinnar í lagasetningunni og Hæstiréttur komst að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu að þetta væri gegn því ákvæði stjórnarskrárinnar að engir skattar eru á lagðir nema með samþykki Alþingis.

Það er athyglisvert að þegar þessi dómur var felldur árið 1980 þá gerði Magnús Thoroddsen, þáverandi hæstaréttardómari, grein fyrir sératkvæði sínu í nokkuð ítarlegri og skemmtilegri greinargerð þar sem hann fullyrðir að ríkið ætti að endurgreiða alla þá skatta sem innheimtir hefðu verið umfram þau mörk sem Alþingi sjálft hefur sett samkvæmt lögunum um þungaskatt eins og þau voru í gildi til ársins 1980. Í rauninni má segja að með breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt fyrir tveimur til þremur árum þegar það var ákveðið að menn skyldu endurgreiða það sem oftekið væri af einstaklingunum, hafi verið komið til móts við þetta sératkvæði Magnúsar Thoroddsens í þessu fræga þungaskattsmáli.

Þingmenn þekkja líka vafalaust flestir Veiðivatnamálin sem snerust um eignarrétt á afréttum í landinu þar sem Hæstiréttur tók þá ákvörðun að allt land ofan eignarlanda og byggða væri í eigu ríkisins. Hér var um að ræða gríðarlega merkilegan dóm. Og það var ekki fyrr en í fyrra þegar Alþingi samþykkti þjóðlendulögin að komið var til móts við þessa dóma, marga dóma sem snerust um eignarhald og nýtingarrétt á auðlindum hálendisins. Auk þess er til, mér liggur við að segja fullt af skattamáladómum sem eru af svipuðu tagi þar sem Hæstiréttur er með tilliti til stjórnarskrárinnar að berja á puttana á Alþingi og telur að þar hafi verið rangt að hlutunum staðið.

[15:00]

Hv. 6. þm. Norðurl. e. vitnaði fyrr í dag í tvo lögmenn og sérfræðinga á sviði laga sem hafa fjallað um þennan dóm sérstaklega og ætla ég ekki að endurtaka umfjöllun hennar að neinu leyti. En í þessu sambandi vil ég þó taka undir þau ályktunarorð sem hún hafði uppi í framhaldi af tilvitnun í viðtal við Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann sem birtist í Morgunblaðinu 5. desember 1998 og í framhaldi af tilvitnun í viðtal við Davíð Björgvinsson prófessor sem birtist í Degi 5. desember 1998. Í þessu sambandi má auðvitað einnig vitna til greinar eftir Vilhjálm H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmann sem birtist í Morgunblaðinu 8. desember 1998. Með öðrum orðum er algerlega ljóst --- og það ætla ég að láta verða mín orð í þessu án þess að vitna neitt í þessa menn frekar, þó að ég gæti út af fyrir sig gert það hér því ýmsu mætti halda frekar til haga í ummælum þeirra en gert hefur verið --- ég tel alveg ljóst að mikill ágreiningur sé meðal lögmanna um það hvort sé rétt að hlutunum staðið að því er varðar 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna í því frv. sem hér liggur fyrir. Ég er yfirleitt að tala um þá grein. Ég er ekki að tala um trillugreinarnar sérstaklega.

Ég er algerlega sannfærður um að við erum á gráu svæði og ég óttast að þau viðbrögð sem hér eru höfð í frammi séu ófullnægjandi og í því sambandi ætla ég að síðustu í þessum hluta ræðu minnar að vísa til ágætrar greinargerðar Sigurðar Gizurarsonar sem bendir á að ekki einasta sé Alþingi rétt að takmarka stærð fiskiskipaflotans heldur skylt að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Herra forseti. Ég held þess vegna að við hljótum í þessu sambandi að velta því þessu næst fyrir okkur hvað við gerðum ef 7. gr. yrði á sama hátt dæmd ógild. Hver væri þá staða okkar? Ég er nokkuð sannfærður um að við mundum þá grípa til hugmyndar eins og þeirrar sem birst hefur í tillögu okkar alþýðubandalagsmanna.

Ég ætla þessu næst að víkja að tveimur efnisatriðum í niðurstöðum málsins eins og það liggur fyrir núna og ekki bæta neinu við það sem áður hefur komið fram hjá fulltrúum minni hlutans. Það eru tvö atriði sem ég ætla að nefna. Fyrst er það þetta Byggðastofnunarmál. Ég hefði viljað að annaðhvort formaður nefndarinnar eða sjútvrh. hefðu einhver orð uppi um það að þeir mundu a.m.k. leitast við af fremsta megni, svo ég segi nú ekki meira, að tryggja það að meðferðin á þessum peningum sé fagleg og traust. Mér finnst eiginlega ekki hægt að fara fram á minna. Hér er um að ræða þannig mál að það er vont fyrir málið, vont fyrir byggðarlögin og sérstaklega fólkið sem býr þar, ef það er hjúpað tortryggni þegar af stað er farið. Ég vil því taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram, m.a. frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og fleirum, að betur þarf að búa um þessa grein en gert er og ég teldi það til bóta ef eitthvað er ef slíkar yfirlýsingar kæmu frá þeim sem tala aðallega fyrir málinu.

Annað atriði sem ég ætla að gera að umtalsefni í þessari stuttu ræðu minni er svo það að vísa stærð flotans í siglingalögin. Það finnst mér ekki alveg ríma. Siglingalög eru eitt, fiskveiðistjórnarlög eru annað. Lögin um stjórn fiskveiða eru um það hvernig á að stjórna aðgangi að fiskimiðunum. Ég er ekki alveg sammála því að þau séu bara um efnahagsmál eins og hér kom fram áðan. Þau eru það auðvitað að miklu leyti en þau eru ekki bara um efnahagsmál. Þau eru um vísindalega vernd fiskimiðanna, fiskstofnanna eins og það heitir. En áður en ég vík að stærð flotans ætla ég að vísa í þskj. 575. Ég vona að hv. þm. hafi séð það. Það er svar hæstv. sjútvrh. við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um fiskveiðistjórnarkerfi og stöðu fiskstofna. Það er fjarska fróðlegt þingskjal þar sem farið er yfir það lið fyrir lið hver veiðistofn þorsks var árið 1983 og hver hann er nú. Hver var veiðistofn ýsu árið 1983? Hann var 155 þús. tonn. Hver ætli hann sé í ársbyrjun 1999? Hann er 155 þús. tonn. Árið 1983 var veiðistofn ufsa metinn 256 þús. tonn. Síðan fór stofninn hratt minnkandi eftir 1988, að hluta vegna veiðiálags en fyrst og fremst vegna lélegrar nýliðunar og er veiðistofninn kominn í sögulegt lágmark, tæp 140 þús. tonn árið 1996. Ég vísa á það sem þarna er sagt um karfann, um grálúðuna, um skarkolann. Og um leið og ég tek undir þær efasemdir sem hér komu fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um kvótasetningaheimildir ráðherra yfirleitt, þá ætla ég bara að segja að það er ekki bara út af hæstaréttardómi sem þarf að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Það er eitt. Það er líka vegna þess hvernig lögin virðast hafa reynst að því er varðar þróun fiskstofnanna sjálfra. Það er mjög mikið umhugsunarefni. Og þó að sennilega sé hægt að halda því fram að að mörgu leyti hafi lögin skilað árangri að því er varðar ýmsa þætti efnahagsmála og kostnaðar, þá er hitt ljóst að áhrifin af framkvæmd laganna á þær skepnur sem synda í sjónum og við byggjum þessa starfsemi á eru a.m.k. afar tvíbent að ekki sé meira sagt og kalla að mínu mati á sérstaka skoðun á málinu vegna þess að í rauninni er engin óyggjandi vissa um að sú vísindalega stjórn á þessum málum sem beitt hefur verið hafi skilað árangri, að ég segi ekki meira. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að vera að taka stórt upp í mig um það að þeir menn sem vinna hjá Hafrannsóknastofnun hafi unnið illa. Það er ekki skoðun mín. Ég veit að þeir vanda sig.

Ég ætla að víkja aðeins að öðru atriði en Byggðastofnunarmálinu í frv. eins og það lítur út núna og það er að vísa stærð flotans í siglingalög. Ég spyr: Hafa menn velt því fyrir sér hvort það yrði ekki talið það sem kallað er tæknilegar hindranir vegna þess að siglingalög eru eitt, siglingalög eru öryggi. Fiskveiðistjórnarlög eru annað, þau eru um fisk. Ég skil því ekki hvernig hægt sé að beita fiskveiðilegum takmörkunum á stærð fiskiskipaflotans í siglingalögum. Mér þætti vænt um ef hv. talsmenn málsins af hálfu stjórnarflokkanna mundu vilja útskýra það nánar fyrir mér.

Ég viðurkenni það hins vegar að það er út af fyrir sig hugsanlegt að glíma við þetta mál aðeins lengur, þetta takmörkunarmál, og velta því aðeins lengur fyrir sér. Ég væri a.m.k. til í að brjóta heilann aðeins lengur um það. Mér finnst að röksemdir sérfræðinganefndarinnar að því er varðar það að gera alla báta, hvaða nafni sem þeir nefnast, jafnsetta í þessu efni, séu kannski ekki að öllu leyti nægilega traustar. En ég get ekki sætt mig við það að vísa þessu máli í siglingalögin vegna þess að siglingalögin fjalla um algerlega óskylt svið. Ég hefði a.m.k. viljað auglýsa eftir nánari rökum í því máli. Ég er út af fyrir sig alveg tilbúinn til að fallast á þau rök, ef þau eru til, að siglingalögin geti leyst þetta. En ég sé ekki að það geti verið. (Gripið fram í: Þannig var það.) Að því er varðar veiðiheimildirnar þá hefur það verið þannig en ekki að því er varðar stærð hins virka fiskiskipaflota, og það er það sem menn eru að tala um.

Ég vil að síðustu segja það af minni hálfu og okkar, herra forseti, að við teljum að málið sé ófullkomið af hendi stjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Við teljum í fyrsta lagi að dómur Hæstaréttar sé stefnumarkandi dómur og að hann snúist ekki eins þröngt um 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna og gefið hefur verið í skyn og túlkað er af meiri hlutanum.

Í öðru lagi teljum við að fyrir liggi álit sem verði að taka mark á sem sýna fram á að það sé ekki aðeins unnt heldur skylt að takmarka stærð flotans. Við teljum því að það sé uppgjöf að fara í málið eins og hér er gerð tillaga um og að með tillögunni eins og hún liggur fyrir sé verið að gera tilraun til að plata Hæstarétt sem muni ekki takast. Það munu menn sjá þegar hann verður að fella sinn dóm næst á þessu sviði.

Í þriðja lagi tel ég að yfirvofandi hætta sé á réttaróvissu áfram í allri lagalegri umgjörð þessa máls.

Í fjórða lagi tel ég að krukkið í þau mál sem snúa að smábátunum geti verið stórháskalegt. Breytingarnar sem menn hafa orðið að gera á svo að segja klukkutíma fresti á síðustu dægrum benda til þess að við vitum ekki að öllu leyti hvað við erum að gera í því sambandi. Í því máli ætla ég bara að segja það að mér finnst að Alþingi sé að mörgu leyti að fjalla um mál að því er varðar smábátana sem ættu að vera á sviði framkvæmdarvaldsins. Alþingi á að setja almennar reglur sem víðast. Það er ráðuneytanna að útfæra þær reglur og mér finnst að í þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá meiri hlutanum sé verið að láta Alþingi samþykkja reglur sem eru í rauninni þannig að þær ættu ekki að vera á borðum þingmanna. Það er í raun hættulegt að setja hlutina upp eins og hér er að gerast, að Alþingi sé sem slíkt að fara svo að segja í hvert einasta smáatriði, hverja einustu sameind, frumeind, atóm í þessu máli vegna þess að það er ljóst að Alþingi getur það ekki og Alþingi er heldur ekki, sem betur fer, svo sveigjanleg stofnun að við getum lagað hlutina til frá degi til dags. Alþingi er ætlað að setja almenn lög, almennar reglur. Alþingi er ekki ætlað að kveða á um framkvæmdaratriði frá degi til dags eða frá klukkutíma til klukkutíma.

Af þessum ástæðum öllum, herra forseti, er það svo með okkur þingmenn Alþb. að við munum ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um þetta mál þegar hún kann að fara fram.