Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 15:56:29 (3085)

1999-01-13 15:56:29# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því þegar hæstv. ráðherra var að fara yfir möguleg viðbrögð við dómi Hæstaréttar að hann gat um þá aðferð að setja allar aflaheimildir á uppboð. Þetta segir mér, herra forseti, að ráðherrann er ekki að gera það sem hann telur að sé réttast vegna þess að hann er augljóslega að tala um það sem möguleg viðbrögð við dómi Hæstaréttar að taka upp nýtt úthlutunarkerfi, þ.e. að það það eigi að taka á 7. gr.

Það er fróðlegt í ljósi þess sem gerst hefur að þau skuli nú vera orðin viðhorf Þorsteins Pálssonar að það sem verið er að gera sé orðið öldungis rangt vegna þess að það að setja allar aflaheimildir á uppboð séu möguleg viðbrögð við dómi Hæstaréttar, eins og hann sagði hér áðan. Og þar með liggur hér fyrir að mínu viti viðurkenning hæstv. ráðherra á því að dómur Hæstaréttar snúist um ýmislegt fleira en nefnda 5. gr., sem hann hefur þó hingað til reynt að halda sig við.