Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:06:35 (3093)

1999-01-13 16:06:35# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:06]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Að útdeila framseljanlegum einstaklingsbundnum kvótum, hvort sem það eru sóknarkvótar eða aflakvótar, stækkar efnahagsreikninginn af því þetta eru sérréttindi sem hafa eignarréttarígildi. Um þetta erum við hæstv. sjútvrh. sammála. Þetta er af hinu góða. En ég held við séum ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut þar fyrir utan því ég hef stórlega efast um það allan tímann að tekjuhlið rekstrarreikningsins hafi aukist. Ég tel það fráleitt að á undanförnum árum höfum við hámarkað arðinn af sjávarútvegi. Ég er viss um að það er langt í frá að svo hafi verið vegna þess ég veit það að hefði okkur ekki tekist að stoppa verðbólguna væri sjávarútvegurinn nú í sömu klessu og hann var fyrir tíu árum. Hefði okkur ekki tekist að halda svo um ríkisfjármálin að hér hefur verið jafnvægi í efnhagsmálum, væri sjávarútvegurinn í sömu klessu og hann var fyrir tíu árum og hefði okkur ekki tekist að hverfa frá verðlagsráðunum og gefa frjálsa verðmyndun væri sjávarútvegurinn í sömu klessu og hann var fyrir tíu árum.