Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:11:23 (3096)

1999-01-13 16:11:23# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Kristinn Pétursson:

Hæstv. forseti. Það eru nokkuð fróðlegar umræður sem hér hafa farið fram. Ég held ég hafi skilið hæstv. sjútvrh. rétt hér áðan að aflaaukning í sóknareiningu í þorski hefði vaxið um 70%. Var það ekki rétt skilið, hæstv. ráðherra? (Gripið fram í: Sagði það.) Sagði það. Þetta eru nýjar upplýsingar og gefa tilefni til að draga af því ályktanir vegna þess að miðað við gömlu mælingaraðferðina í stofnstærð þorsks þá er þorskstofninn í dag 70% stærri en hann var á því tímabili sem hæstv. ráðherra er að miða við. Það var beint samband á milli veiða og afla á sóknareiningu miðað við eldri mælingaraðferðir. Þar með höfum við aðeins nálgast, ég og hæstv. ráðherra, um að það sé meiri þorskur í sjónum en hann hefur viljað viðurkenna.

Varðandi áreiðanleika veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, og hæstv. ráðherra var að segja að OECD og fleiri erlendir aðilar hefðu verið að hæla Íslendingum fyrir góða fiskveiðistjórn, þá hljóta náttúrlega tilteknar niðurstöður að vera í samræmi við þær upplýsingar sem þessi fyrirtæki fá. Ef þeir hafa fengið falskar upplýsingar verður niðurstaðan náttúrlega í samræmi við það.

Ég ætla að rifja aðeins upp aftur söguna í þorskveiðum, í ráðgjöf og hver var niðurstaðan, því það tel ég vera grundvallaratriði fyrir hæstv. Alþingi hvort þessi ráðgjöf stenst eða ekki. Hv. þm. verða að kynna sér, þó ekki nema 20 ára sögu þessarar ráðgjafar, til að taka afstöðu til sögunnar.

Árið 1975 kom út svokölluð svarta skýrslan og þorskstofninn átti að vera að hrynja. Það var haldið áfram að veiða 120 þús. tonn umfram ráðgjöf árlega og stofninn næstum því tvöfaldaði stærð sína á fimm árum. Árið 1980 hafði hann náð 1.547 þús. tonna stærð eftir ofveiði um 600 tonn miðað við ráðgjöf í svörtu skýrslu. Stofninn hafði stækkað um 700 þús. tonn eftir ofveiði um 600 þús. tonn og ég taldi þetta vera reikningsskekkju upp á 1.300 þús. tonn. Þá áttum við það til góða og stofninn hrundi ekki ef einhver færi að bera brigður á þessa útreikninga. En, hæstv. forseti, hvað gerðist svo frá 1980 til 1983? Hvað gerðist á þessum árum sem eru kölluð viðmiðunarár? Rifjum það nú upp. Við veiðum samkvæmt ráðgjöf árið 1981 um 468 þús. tonn. Þorskstofninn minnkaði um 300 þús. tonn samkvæmt bókhaldi Hafrannsóknastofnunar. Árið 1982 náum við ekki að veiða samkvæmt ráðgjöf. Það vantaði 50 þús. tonn upp á og þorskstofninn minnkaði enn um 300 þús. tonn. Árið 1983 vantaði enn 70 þús. tonn upp á að við veiddum samkvæmt ráðgjöf og enn þá minnkaði stofninn um 200 þús. tonn. Þetta er alveg furðuleg saga því ekki náðist að veiða, hæstv. forseti, það sem ráðgjafar lögðu til að yrði veitt og svo komu þeir og sögðu að það væri ofveiði. Hvernig getur það passað?

[16:15]

Stofninn minnkaði um 752 þús. tonn á þessum árum, frá 1980 til 1983 og það náðist ekki að veiða 120 þús. tonn. Því segi ég að þarna er um að ræða skekkju aftur í mínus um 900 þús. tonn. Þarna eru fiskveiðistjórnarlögin sett á á forsendum ofveiði. Þá kemur stóra spurningin, var ofveiðikenning Hafrannsóknastofnunar rétt eða var hún ekki rétt? Það sem liggur fyrir samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunar er að vaxtarhraði í þorskstofninum hérlendis féll um 30% á þessum árum og allar kennslubækur í fiskilíffræði sem hægt er að finna í háskólum úti um allan heim segja að aldrei fari saman ofveiði og minnkandi vaxtarhraði. Það getur ekki gerst enda segir heilbrigð skynsemi að svo geti ekki verið. Við getum t.d. hugsað okkur bónda sem fækkaði í fjárhúsunum hjá. Það hyrfu kindur og þær legðu allar af og dræpust og svo kæmi einhver sérfræðingur til hans og segði að hann hefði lagt allt of mikið inn í sláturhúsið. Hver mundi trúa slíkum ráðgjafa? Ef 900 þús. tonn af þorski hverfa á þremur árum út úr bókhaldi Hafrannsóknastofnunar sem hvergi koma fram, þá hlyti þessum afla að hafa verið landað einhvers staðar ef þetta hefði verið ofveiði. Skýringin á þessu er sú að þarna er um reikningslega ofveiði að ræða. Tölfræðin sem notuð er í reiknilíkani Hafrannsóknastofnunar gerir nefnilega ráð fyrir því að fiskiskipaflotinn drepi fiskana sem vantar í bókhaldið þegar fiskarnir hætta að vaxa vegna þess að fæðu vantar í hafið og þess vegna var löggjöfin sett á forsendum sem ekki standast.

Hvað gerðist síðan í beinu framhaldi af því að löggjöfin var sett á? Aftur þegar hættuástand er talið, eins og 1975, fáum við tvo sterka árganga í þorskinum, 1983 og 1984. Nú átti aldeilis að byggja upp stofninn með þessum tveimur árgöngum. Það er rétt að geta þess að í haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar árið 1985 var það mælt að þorskstofninn át undan sér, hæstv. forseti, 30 þús. tonn á einum mánuði. Ef hann gerir það allt árið étur hann undan sér 360 þús. tonn á ári. Þarna var aðeins um einn mánuð að ræða en hver veit það, hæstv. forseti, hvenær þorskstofninn ræðst næst í að éta sjálfan sig niður og hvers vegna á þá að vera að geyma hann í sjónum? Næst þegar niðursveifla kemur í umhverfisskilyrði hér við land, sem enginn veit hvenær verður, þá er það jafnljóst og tvisvar tveir eru fjórir að vaxtarhraði fellur og þorskurinn fer að éta undan sér. Þar af leiðandi stenst núverandi veiðiráðgjöf ekki og ég tel að eðlilegra væri að veiða meira. Líka til að minnka spennuna í kringum kvótaleigu og hversu miklu er hent í hafið aftur.

Höldum aðeins áfram. Árið 1990 kom gífurlegt magn af hrygningarfiski inn á firði og flóa fyrir Norður- og Austurlandi sem var allt saman smáfiskur. Smáfiskur að hrygna, allir voru hissa. Þetta var mikið magn. Þetta reyndist vera sjö ára gamall smáfiskur að hrygna grindhoraður. Til samanburðar var meðalvigt sjö ára þorsks sem ólst upp á köldu hafísárunum tæp 6 kíló. Haustið 1990 kom dálítið skrýtin fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun. Það tók mig mörg ár að skilja þessa fréttatilkynningu. Hún var á þessa leið, eftir minni, hæstv. forseti: Vegna þess að Grænlandsgangan kom ári fyrr en stofnunin hafði ætlað verður að draga úr veiði. Og þetta stóð í mér. Ég hugsaði aftur og aftur: Vegna þess að við fengum þorska syndandi inn í lögsöguna, ári á undan áætlun, þurfti að draga úr veiði. Hvernig gat þetta gengið upp? (Gripið fram í: Þetta er sovéskt kerfi.) Ég ætlaði aldrei að ná þessu, ég verð að viðurkenna það. En þegar ég fór að skoða gögn frá Alþjóðahafrannsóknarráðinu um vaxtarhraða þorsksins við Grænland þá allt í einu áttaði ég mig á hvers vegna fréttatilkynningin var send svona út. Þorskurinn hafði gengið á Íslandsmið ári á undan áætlun og komið hér og hrygnt og sennilega drepist vorið 1990. Þess vegna voru allir firðir og flóar fullir af þessu rusli. En Grænlandsgangan sem átti að koma, kom hingað, eins og hálfs kílóa þungur fiskur, eða tveggja kílóa þungur, hrygndi og dó. Kom þar af leiðandi aldrei inn í stofninn. Þannig var skýringin á því. Af því að Grænlandsgangan kom ári fyrr þá urðum við að draga úr veiði. Punktur. Þarna var Hafrannsóknastofnun að segja hálfsannleika, svo maður segi nú ekki meira, eins og þeir hafa oft gert og gera oft.

Hæstv. forseti. Ég var búinn að sýna ykkur vaxtarhraða þorskstofnsins við Grænland, en ég ætla að endurtaka það. Hér sjáum við hvernig vöxturinn í þorskinum við Grænland hrundi.

(Forseti (ÓE): Þetta kom nú allt fram í fyrrakvöld, vill forseti benda á.)

Að gefnu tilefni tel ég rétt að rifja þetta upp, hæstv. forseti. Það er talað um að uppbyggingin sé að skila árangri. Ég er að lýsa hér staðreyndum og pottþéttum gögnum. Hæstv. sjútvrh. var að hæla sér af fiskveiðistjórninni, hvað hún hefur gengið vel og það er m.a.s. í Morgunblaðinu í dag verið að tala um árangurinn og reiknað með góðum vexti þorskstofnsins og ég er að rifja það upp. Þetta nær því miður ekki nema til 1983 þegar stofninn mældist 795 þús. tonn og þremur árum áður, hæstv. forseti, mældist stofninn 1.600 þús. tonn. Þá var ekki einu sinni veitt samkvæmt ráðgjöf, samt minnkaði stofninn. Niðurstaðan er sú að þetta séu náttúrusveiflur, hæstv. forseti, og veiði hafi miklu minni áhrif en talið hefur verið.

Aðeins varðandi rækjuna sem talað er um í þessu. Þetta er svar ráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Í texta um rækjuna segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Afli á sóknareiningu hefur á árinu 1997 og á þessu ári minnkað verulega. Það tengist m.a. aukinni þorskgengd á Norðurmiðum, sérstaklega í ár, sem hefur leitt til aukins afráns þorsks á rækju og enn fremur má ætla að þorskurinn hafi að einhverju leyti tvístrað rækjunni.``

Nú ætla ég að spyrja, hæstv. forseti, er það skynsamlegt að þorskur á 100 kr. éti rækju fyrir 700 kr. til að hækka að verðgildi úr 100 kr. upp í 200 kr.? Fiskur sem þarf að éta sjö sinnum þyngd sína á ári og étur tóma rækju, sem dæmi, þá étur þessi tiltekni fiskur fyrir 700 kr. til að aukast í verðgildi um 100 kr. Ég sé nú ekki skynsemina í þessu en svona er þetta allt saman.

Árið 1992, hæstv. forseti, árið eftir að Grænlandsgangan sem átti að koma kom ekki, þá kom Alþjóðahafrannsóknaráðið og ruddist hér inn í febrúarmánuði með rosalegum fjölmiðlaflugeldasýningum og stillti stjórmálamönnum og Íslendingum gjörsamlega upp við vegg og hér voru fjölmiðlar fullir af því í heila viku að við værum að drepa þorskstofninn. Það væri eitthvað rosalega hættulegt að gerast. Þá er fyrsta spurningin, hæstv. forseti: Hver bað Alþjóðahafrannsóknaráðið að ryðjast inn í íslensk innanríkismál og hafa á því skoðun? Mér er a.m.k. kunnugt um að sumir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn þá höfðu ekki hugmynd um þetta því þetta kom eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina. Ég m.a.s. veit ekki hvort hæstv. sjútvrh. hefur verið kunnugt um það þegar þetta yfirþjóðlega vald óð hér inn og skelfdi þjóðina í heila viku með stanslausum fréttatilkynningum um að nú værum við að drepa síðasta þorskinn. Nákvæmlega sama uppskriftin og Norðmenn máttu þola fyrir nokkrum mánuðum síðan, takið eftir þessu. Nákvæmlega sama uppskriftin. Þegar vaxtarhraðinn hrundi í Barentshafinu um helming, meira en gerðist hér á þessum árum þá ruddist Alþjóðahafrannsóknaráðið inn í norsk innanríkismál og ég spyr, hæstv. forseti, hver bað um það þar á bæ? Ég vildi gjarnan fá að vita það. Fullveldi þjóðarinnar er ógnað ef einhverjar alþjóðlegar stofnanir, alveg sama hvað þær heita, eru að ryðjast hér inn og hræða stjórnmálamenn til hlýðni við eitthvað sem þeir halda. Þeim koma þessi mál ekkert við. Þetta eru íslensk innanríkismál.

Ef við víkjum åðeins að hliðstæðu dæmi sem er allt annars eðlis, hæstv. forseti, frá árinu 1996 þá lagði vísindanefnd NAFO til að rækjuveiðar yrðu stöðvaðar á Flæmska hattinum eða a.m.k. skornar algjörlega niður vegna ofveiði á rækju. Hafrannsóknastofnunin íslenska kópíeraði hugmyndirnar frá NAFO og íslenskir stjórnmálamenn, alþingismenn, settu lög sem takmörkuðu veiðar íslenskra fiskiskipa á Flæmska hattinum verulega. Ég taldi þá og tel enn í dag að sú löggjöf hafi verið á hæpnum forsendum. Síðan kom 1997 og enn þá voru þeir hjá NAFO að halda því fram að rækjan á Flæmska hattinum væri ofveidd. Svo kom 1998 og þá komu þessir herrar, þessir reiknimeistarar, hálflúpulegir og lögðu til að veiðikvótinn yrði hækkaður úr 60 þús. tonnum í 70 þús. tonn. Hvað var nú að marka þetta allt saman? Þegar lögin voru sett 1996 sem takmörkuðu veiðar íslenskra fiskiskipa á Flæmska hattinum, hafði afli á sólarhring verið stöðugur 200--300 kíló á togtíma í langan tíma og það voru engar fyrirliggjandi upplýsingar um að þessi stofn væri eitthvað illa settur. Þetta var bara einhver hugarsmíð hjá skólakrökkum í tölvu hjá NAFO. Það er hastarlegt að þurfa að standa frammi fyrir því að einhverjar yfirþjóðlegar stofnanir, hvort sem þær heita NAFO eða Alþjóðahafrannsóknarráðið, skuli geta vaðið inn í íslensk innanríkismál og bókstaflega stillt íslenskum stjórnmálamönnum upp við vegg í gegnum fjölmiðla og látið þá hlýða sér í nánast einu og öllu.

Ég held að ætla megi að tap íslenskra útgerða vegna þessarar vitlausu lagasetningar 1996 geti verið 20 þús. tonn af rækju á ári, varlega áætlað, og það er aflaverðmæti upp á 3 milljarða.

Það er einhvers konar friðunartíska á sjávardýrum sem tröllríður hér í sambandi við svokallaða umhverfisumræðu í heiminum og ég held að íslensku þjóðinni stafi stórhætta af þessum umræðum. Það eru umhverfisverndarsamtök og náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum sem hafa það að markmiði sínu að friða 20% heimshafanna fyrir árið 2020. Mér finnst að þeim gangi það nokkuð vel og hafi gengið það nokkuð vel síðustu ár að hræða stjórnmálamenn til hlýðni með einum eða öðrum hætti. Ráðherrar og alþingismenn voru hræddir til hlýðni við að stöðva hvalveiðar hér um árið. Síðan voru menn hræddir til að gera þetta, svo voru menn hræddir til að gera hitt og við erum alltaf að stíga lengra og lengra aftur á bak. Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að draga í efa að það sé rétta aðferðin þegar verið er að ryðjast hér inn á vettvang íslenskra innanríkismála að vera alltaf í bakkgír. Ég er ekki viss um að það sé rétta stefnan.

Ég vil því leggja til, hæstv. forseti, að alþingismenn í öllum flokkum sem bera ábyrgð á þessari lagasetningu, allir nema Kvennalistinn vegna þess að allir hafa setið í ríkisstjórnum og greitt þessu atkvæði nema Kvennalistinn og þar af leiðandi hljóta allir stjórnmálaflokkar að bera ábyrgð á þessari lagasetningu nema Kvennalistinn, þeir ættu að sameinast í því að fara í endurmat, og það stendur til samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru að endurskoða þessi mál.

[16:30]

Það þarf að byrja á því að endurskoða veiðiráðgjöf og áhættumat við veiðar. Númer tvö þarf að aðskilja rannsóknarstarfsemi og veiðiráðgjöf, alveg eins og dómsvald og umboðsvald í héraði var aðskilið hér fyrir nokkrum árum. Það gengur ekki að sömu aðilar séu að rannsaka og dæma í svona stóru máli. Við erum að tala um allt of marga milljarða. Síðan eiga þessir sömu aðilar að gefa umsögn ef eitthvað fer úrskeiðis. Og þær umsagnir eru eins og ég hef verið að lýsa.

Ég hef verið að benda hæstv. sjútvrh. á að hægt væri að auka veiðar á þorski núna um 20 þús. tonn sem dæmi. En hann hefur ekki tekið neitt undir það. Ég taldi mig fara rosalega varlega í það að leggja til 20 þús. tonna aukningu. Ég hefði talið að það væri allt í lagi að auka veiðar um 50 þús. tonn. Og það er sama með það og afla á sóknareiningu sem hefur vaxið um 70%, að veiðileiga, leiga á þorskveiðikílói er 96 kr. vegna þess að menn eru að kaupa sig frá sekt eða að kaupa sér aðgöngumiða að öðrum fisktegundum. Menn eru ekki að kaupa sér þorsk á 96 kr. til að landa honum á 96 kr. Þetta segir raunverulega að þorskstofninn sé miklu stærri en Hafrannsóknastofnun viðurkennir.

Ég held að rétta aðferðin til þess að koma í veg fyrir brottkast sé að minnka spennuna með því að auka veiði. Það veitir líka ekkert af auknum peningum, hæstv. forseti. Það er farið að tala hér um aukna verðbólgu. Hvers vegna m.a. skyldi vera aukin verðbólga? Það er vegna viðskiptahalla. Ef við aukum þorskveiðar um 50 þús. tonn þá fáum við 4,5 milljarða, sem réttir af viðskiptahallann. Ef við mundum leyfa veiðar á 20 þús. tonnum við Flæmska hattinn þá fáum við 3 milljarða. Þá erum við komin með 7,5 milljarða upp í viðskiptahallann.

Ég horfi ekki á það neitt hlýjum augum að verðbólga sé hér að fara af stað aftur. Ég skil ekki þá hagfræði, hæstv. forseti, þegar sumir hagfræðingar reikna það út að aukin veiði þýði aukna verðbólgu. Ég held að þeir hljóti að hafa sofið í hagfræðitímunum vegna þess að ef þetta væri rétt, að aukinn afli þýddi aukna verðbólgu, af hverju í ósköpunum vorum við þá að reisa álver á þeim forsendum að það þyrfti að auka þjóðartekjur? Hefði þá ekki verið rétt að sleppa því? Væri þá ekki líka rétt að draga bara úr veiði til þess að reyna að koma í veg fyrir verðbólgu? Þessi rök detta dauð um sjálf sig.

Það er allt annað mál hvort þensla stafar af eyðslu. Þensla kemur ekki af aukinni framleiðslu vegna þess að aukin framleiðsla og auknar tekjur auka framboð á peningum og lækka þannig vexti með auknu framboði á fjármagni. Ég vildi koma þessu að.

Hæstv. forseti. Ég vil að síðustu óska þess að hv. alþm. beri gæfu til þess að endurskoða þessa löggjöf þannig að hún standist án efa stjórnarskrá lýðveldisins og verði þjóðinni til gæfu.