Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:34:33 (3097)

1999-01-13 16:34:33# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað af athygli á ræðu hv. þm. Kristins Péturssonar sem ég veit að hefur kynnt sér sjávarútvegsmál mjög vel. Hann sér þau að vísu út frá örlítið öðru sjónarhorni en mörg okkar hinna. Ég skil hann þannig að hann styðji þetta aflamarkskerfi sem við búum við, þegar hann talar um nauðsyn þess að endurskoða kerfið þá sé hann ekki að tala um að kollvarpa því.

Ástæðan þess að ég stend hér upp eru orð hv. þm. þegar hann ræddi um þá hagfræði eða skort á hagfræðilegri þekkingu sem í því sé fólgin að veiða þorsk sem gefi af sér 90 eða 100 kr. kílóið en fóðra þennan sama þorsk til að vaxa með rækju sem hægt væri að selja fyrir 700 kr. Ef ég skildi hv. þm. rétt var hann að meina það að auka ætti sóknina í þorskinn, auka veiðina til þess að hlífa rækjunni þannig að hægt væri að sækja meira í þann stofn.

En hvaða hagfræði er á bak við það þegar við stöndum frammi fyrir stöðu eins og núna að bæði er verðfall á rækjunni og aflasamdráttur í rækju? Og af því að hér var minnst á hagfræði og fiskihagfræði í sömu andrá þá væri nú fróðlegt að heyra skýringar hv. þm. á þessu. En ég vildi líka gjarnan fá að heyra það skýrt og skorinort: Er það ekki rétt skilið að hann styður aflamarkskerfið, grundvöllinn á bak við, þó hann vilji sjá breytingar á því hverjir ákveða og hvernig ákveðið sé hvaða afla megi taka úr hafinu á hverju ári?