Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:36:34 (3098)

1999-01-13 16:36:34# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Kristinn Pétursson (andsvar):

Hæstv. forseti. Á sumum sviðum í veiðistjórn okkar Íslendinga tel ég henta ágætlega að hafa aflamarkskerfið. En ég tel að í strandveiðiflotanum væri mun heppilegra að vera með dagakerfi og almennar takmarkanir. Og af því að hv. þm. spurði að þessu þá held ég að núverandi löggjöf sé orðin allt of torveld. Ég held að hægt væri að einfalda hana.

Ég vil minna á grundvallarforsenduna. Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar var forsendan fyrir því þegar aflamarkskerfið var sett á. Og ef forsendan fyrir öllu saman stenst ekki, hæstv. forseti, hvar stöndum við þá? Það er 70 ára reynsla á Íslandsmiðum. Þegar Íslendingar og erlendar þjóðir veiddu hér frjálst, þá veiddu þeir í takt við náttúruna án þess að nokkuð hættulegt gerðist. Og það er út af fyrir sig svar við því að það er ekkert víst að það verði neitt hættulegt að hafa veiðar á Íslandi frjálsar með þeim flota sem við höfum hér, þ.e. með almennum takmörkunum.

Stærri flotinn, úthafsveiðiflotinn, gæti verið á einhvers konar aflamarki en strandveiðiflotinn á dögum. Þetta mundi ég helst vilja sjá miðað við þær upplýsingar sem ég hef. En það þarf að fara fram grunnvinna, hæstv. forseti. Ég hef minnst á það hér áður. Það vantar faglegar upplýsingar um atvinnuréttindi sjómanna, atvinnuréttindi fiskverkunar og atvinnuréttindi fiskverkunarfólks, þ.e. þeirra sem starfa við sjávarútveg. Þegar sú vinna hefur verið kláruð og kemur til hv. alþm. þá er hægt að skoða þetta allt saman nánar. En þessar upplýsingar hefur alltaf skort, hæstv. forseti, til þess að hægt sé að leggja formlega fram tillögur sem mundu standast á grundvelli upplýsinga um atvinnuréttindi þessara aðila.

Löggjöfinni í dag stafar raunverulega ekki nein ógnun af öðru en því að hroðvirknislega hefur verið unnið við þessa löggjöf og menn hafa dregið lappirnar í að laga það sem út af hefur staðið. Við stöndum hér í dag eftir tiltekinn hæstaréttardóm vegna þess að hv. þm. hafa ekki vandað sig nægilega mikið.