Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:22:29 (3106)

1999-01-13 17:22:29# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:22]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er ánægjulegt hvað sjálfstæðismenn þurfa að tjá sig mikið um þetta mál því þeir hafa haldið uppi umræðum í mestallan dag og það sem er ánægjulegast við að veita athygli í þeirri umræðu er að þeir eru aldeilis ekki sammála. Mér er jafnvel til efs að hæstv. sjútvrh. sé mjög sáttur við þær tillögur sem hann ætlar að fara að greiða atkvæði um á eftir þó svo það kunni að vera að hann greiði atkvæði með þeim.

Hæstv. sjútvrh. segir að stjórnarandstaðan hafi engar tillögur flutt í málinu. Á þessu kjörtímabili hafa 18 þingmál legið fyrir Alþingi, flutt af stjórnarandstöðunni, sem varða efni þess máls sem hér er verið að afgreiða, annars vegar tillögur um að auka atvinnufrelsi og hins vegar að gera það sem Hæstiréttur bendir á, að tryggja að drjúgur hluti þjóðarinnar geti notið arðsins af sameiginlegri auðlind. Flestöll þessi mál ganga út á nákvæmlega það þannig að fjölmargar tillögur liggja fyrir frá stjórnarandstöðunni um það hvernig hægt væri að taka á þessu máli.

Hæstv. dómsmrh. viðurkenndi það nánast í máli sínu áðan að stjórnarandstaðan hefði lögfræðina með sér í afstöðu sinni til þessa máls, og það er ánægjulegt, en stjórnarandstaðan hefur ekki bara lögfræðina með sér. Stjórnarandstaðan hefur réttlætið með sér og samkvæmt skoðanakönnun DV í dag hefur stjórnarandstaðan þorra þjóðarinnar með sér líka í afstöðu sinni til þessa frv. þar sem yfir 70% lýsa yfir stuðningi við þann málflutning stjórnarandstöðunnar að sú aðgerð sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir sé ekki aðgerð til að fullnægja niðurstöðu dóms Hæstaréttar. Það er ánægjulegt að hafa ekki bara lögfræðina heldur líka réttlætið og þorra þjóðarinnar með sér.