Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:24:37 (3108)

1999-01-13 17:24:37# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:24]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Hvorki réttlætið né lögfræðin eru fólgin í því, virðulegi forseti, að fresta ákvörðunum, heldur að framkvæma þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur flutt og varða það efni málsins, þ.e. aukið atvinnufrelsi annars vegar og hins vegar að tryggja drjúgum hluta þjóðarinnar arðshlutdeild í hinni sameiginlegu auðlind. Þetta er réttlætið, virðulegi forseti, sem hæstv. sjútvrh. hefði verið nær að taka sér til fyrirmyndar og sem yfir 70% þjóðarinnar og mikill meiri hluti fylgismanna hans eigin flokks telur að eigi að fullnægja. Hæstv. sjútvrh. og félagar hans eru hvorki að fullnægja réttlætinu, lögfræðinni né vilja meginþorra þjóðarinnar með þeirri afgreiðslu sem á að fara fram. Þeim væri nær að gera það.