Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:27:39 (3111)

1999-01-13 17:27:39# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:27]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg kórrétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að ég hef haft býsna mikla sannfæringu fyrir því að þetta kerfi þjónaði okkur best til að ná tveimur höfuðmarkmiðum fiskveiðistjórnar á Íslandi, að vernda og byggja upp fiskstofnana og ná góðum efnahagslegum árangri. Allar reynslutölur á báðum sviðum sýna það. Ég hef hins vegar sagt æ ofan í æ og það líka í þessari umræðu: Ef einhverjir sýna mér fram á að hægt sé að ná þessum markmiðum betur með öðrum leiðum þá er ég mjög fús til að ræða það, en það hefur enginn gert í þessari umræðu og ekki heldur hv. 8. þm. Reykv.