Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:53:55 (3120)

1999-01-13 17:53:55# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GMS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:53]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að nota aflamark sem fiskveiðistjórnarkerfi. Hins vegar er það svo að flestar þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, hafa að mínu mati verið heldur til hins verra, flestar þeirra. Svo er um þessar brtt. sem við erum að fjalla um núna. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þessi sérstaki dómur Hæstaréttar, þar sem Hæstiréttur er farinn út í það að vinna eins og gerist í sumum öðrum löndum en hefur ekki verið venja hér, að túlka lögin eftir þeim straumum sem eru í þjóðfélaginu, kallar á það að menn bregðist við og þess vegna styð ég þessar brtt. þó að ég telji þær ekki til bóta fyrir fiskveiðistjórnarkerfið í heild.