Heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:40:56 (3129)

1999-02-02 13:40:56# 123. lþ. 57.96 fundur 221#B heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég óska eftir því að eiga orðastað við heilbrrh. vegna nýrra tíðinda sem bárust öllum að óvörum sl. föstudag um fyrirkomulag og framtíðarskipan heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði og nágrannabyggðum, þjónustu sem meira en 20 þúsund manns njóta og þurfa að treysta á.

Hér er ég að vísa til svokallaðrar viljayfirlýsingar sem heilbrrh. og fjmrh. undirrituðu fyrir hönd ríkisins og bæjarstjórinn í Hafnarfirði umboðslaus, fyrir hönd bæjaryfirvalda. Þessi yfirlýsing kom öllum á óvart, m.a. starfsmönnum þeirra þriggja stofnana sem hér um ræðir, þ.e. heilsugæslunnar, Sólvangs og St. Jósefsspítala sem skipta hundruðum, stjórnum viðkomandi stofnana og enn fremur stórum hluta kjörinna bæjarfulltrúa í Hafnarfirði. Slík vinnubrögð í eins stóru máli og hér um ræðir eru auðvitað með öllu óþolandi og bæjarfulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa í dag óskað eftir sérstökum bæjarstjórnarfundi vegna þessara mála.

Spurningin er: Hvað þurfti að fela? Hvers vegna var umræðan ekki einfaldlega opnuð á faglegum grundvelli og síðan tekin yfirveguð skref? Það er því nauðsynlegt að fá skýr svör heilbrrh. við áleitnum álitamálum vegna þessara atburða því þingið --- ekki frekar en aðrir --- hefur hvergi komið hér nærri.

Þær heilbrigðisstofnanir sem um er að ræða eiga sér langa og merka sögu í heilbrigðisþjónustu á Hafnarfjarðarsvæðinu. Sólvangur var byggður á fyrri hluta aldarinnar að frumkvæði þáv. bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og hefur allar götur síðan gegnt mikilvægu hlutverki með miklum sóma, í seinni tíð sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Rekstur hefur þar ætíð verið til mikillar fyrirmyndar, ráðdeild og sparnaður.

St. Jósefsspítali var byggður á samnefndri reglu og hefur um áratuga skeið verið mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu fyrir Hafnfirðinga og raunar miklu fleiri íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þar er deildaskipt sjúkrahús á ferðinni og hefur í seinni tíð verið lögð aukin áhersla á ferliverk. Áður hefur verið reynt af hálfu ríkisins að draga úr þjónustu þar á bæ og breyta eðli sjúkrahússins og breyta í langlegudeild fyrir aldraða en bæjarbúar snerust þá til varnar og komu í veg fyrir þær fyrirætlanir.

Heilsugæslan í Hafnarfirði hefur um margt verið til fyrirmyndar öðrum heilsugæslustöðvum hvað varðar faglegan metnað og góða þjónustu. Á seinni árum hefur hins vegar þröngbýli og fjárskortur hamlað eðlilegri þjónustu og bæjarbúar með réttu kvartað yfir ástandinu. Nú horfir hins vegar til betri tíðar með stækkun húsnæðis og fjölgun lækna. Í bréfi allra starfsmanna heilsugæslunnar, 40 talsins, til ráðherra nýlega er hann beðinn um að gefinn verði friður og eytt verði óvissu og glundroða sem sífelldar fréttir af yfirtöku, breytingum eða sameiningu við aðrar stofnanir hafa orsakað. M.a. hefur því hefur verið fleygt að hluti stofnunarinnar verði fluttur í miðbæ Hafnarfjarðar. Að mínu áliti er ofur eðlilegt að ræða það að auka enn þjónustuumfang heilsugæslunnar og bæta þjónustuna með því að opna nýtt útibú og auka þann veg enn á þá mikilvægu þjónustu. Þau mál og önnur þarf hins vegar að ræða hispurslaust og fyrir opnum tjöldum. Þá kem ég að kjarna málsins, herra forseti.

Ég vil ekki sjá annars góðri heilbrigðisþjónustu á Hafnarfjarðarsvæðinu stefnt í voða með lítt hugsuðum og byltingarkenndum breytingum. Sameining þessara þriggja stofnana sem um margt eru eðlisólíkar er alls ekki sjálfgefin. Samstarf hefur verið gott á milli þeirra þegar það á við og engin vandamál verið á ferð. Hvers vegna þá að rugga bátnum?

Í öðru lagi er alveg ný stefna heilbrrn. að gera jafnviðamikla þjónustusamninga við sveitarfélag um rekstur sjúkrahúss, hjúkrunarheimilis og heilsugæslustöðvar og hér um ræðir. Er það ný stefna af hálfu ráðuneytisins? Er stefnt að hinu sama t.d. á Akureyri? Er skynsamlegt að steypa saman jafnstórum einingum á vettvangi heilsugæslu og annarrar þjónustu og hér um ræðir? Þetta eru lykilspurningar sem svara þarf.

Ég er talsmaður þess að flytja verkefni heim í hérað, vil t.d. að heilsugæslan verði flutt til sveitarfélaga í heilu lagi að afloknum nauðsynlegum undirbúningi og viðræðum við forsvarsmenn sveitarfélaga. En það á ekki að rjúka í þessa hluti með látum. Það eru vond vinnubrögð. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það alveg klárt og niðurnjörvað að engin eðlisbreyting verði á rekstri þessara stofnana og að þær fái nægilegt fjármagn til að bæta þjónustu í stað þess að draga úr henni? Árétta skal að allar þessar stofnanir hafa verið afskaplega vel reknar.

Hvað með réttarstöðu hundruða starfsmanna í þessum efnum? Hafnfirðingar vilja að lítt hugsuð tilraunastarfsemi af þessu tagi verði ekki til að skerða þjónustu. Það er grundvallaratriði. Fagleg og opin umræða er allt annar hlutur. Því spyr ég hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

Hvaða markmiðum er verið að ná fram með sameiningu heilsustofnana í Hafnarfirði?

Er tryggt að hin veitta þjónusta verði eigi minni og engin eðlisbreyting verði gerð á þjónustu viðkomandi stofnana, svo sem St. Jósefsspítala?

Er við það miðað að auka fjármagn til heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði og bæta þjónustu með þessari sameiningu?

Hvað með uppbyggingaráform eins og stækkun Sólvangs sem lengi hefur verið í undirbúningi?

Hvers vegna var undirbúningi þessa máls haldið leyndum bæði af hálfu meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem og heilbrrn. í stað þess að gefa kost á opinni og faglegri umræðu?