Heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:46:34 (3130)

1999-02-02 13:46:34# 123. lþ. 57.96 fundur 221#B heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. er heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði til fyrirmyndar á mörgum sviðum. Er þá alveg sama hvort við tölum um Sólvang, St. Jósefsspítala eða heilsugæsluna. Heilsugæslan hefur verið í fararbroddi með ýmislegt á faglega sviðinu og eftir því hefur verið tekið.

Það var í kringum mitt sumar 1998 sem bera fór á löngum biðlistum í heilsugæslunni í Hafnarfirði. Það var tekið sérstaklega á því í heilbrrn. og eftir mikla umfjöllun var ákveðið að ráða tvo nýja heilsugæslulækna. 1. okt. 1998 byrjaði fyrsti heilsugæslulæknirinn, til viðbótar við þá sem fyrir eru. 15. febrúar hefur næsti læknir störf og auk þess hefur svokallaður námslæknir tekið til starfa í Hafnarfirði. Þetta kallar á aukin húsakynni. Þegar hefur verið innréttað húsanæði sem verður vígt nú í febrúar, rúmlega 300 fermetrar. Það er búið að kaupa og er verið að kaupa innanstokksmuni í það. Við erum því enn að styrkja og efla heilbrigðisþjónustuna í Hafnarfirði. Nýlega var yfirlæknir ráðinn. Um það stóð nokkur styr en það mál er nú alveg á hreinu.

Varðandi það sem hv. þm. gerir hér að umtalsefni, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi í upphafi beðið um að verða svokallað reynslusveitarfélag á heilbrigðissviði. Það mál var kannað á liðnu ári en ríkið hafnaði því. Við töldum það ekki hagkvæman kost en bærinn hefur haft frumkvæði um að efla heilbrigðisþjónustuna í Hafnarfirði. Um það erum við sammála. Þar af leiðandi var gefin viljayfirlýsing sem felur í sér það eitt að kanna hvort hagkvæmt kunni að vera að þjónustan verði öll undir einni stjórn.

Þessi viljayfirlýsing er yfirlýsing um það sem við ætlum að kanna. Hér er ekki rokið í hlutina, eins og hv. þm. sagði, heldur er yfirvegað kannað hvort hagkvæmt sé að þessi þjónusta öll sé undir einni stjórn. Að því máli kemur auðvitað bæjarstjórn og stjórnendur heilbrigðisþjónustunnar í Hafnarfirði auk bæjaryfirvalda. Ég held að okkur sé það öllum sameiginlegt að vilja efla þjónustuna með þessu.

Hv. þm. spyr mig fimm spurninga. Það er eiginlega hægt að svara öllum spurningunum með því að biðja menn að lesa þá viljayfirlýsingu sem fyrir liggur. Í henni er stefnt að því að auka þjónustuna.

Hv. þm. spyr hvort auka eigi fjármagn til heilbrigðismála í Hafnarfirði. Það hefur þegar verið gert, eins og ég sagði áðan, með auknu húsnæði og auknum mannafla. Hv. þm. spyr líka hvers vegna öllum undirbúningi sé haldið leyndum. Málið er þannig vaxið að við erum að hefja þessa könnun. Við hefjum könnunina eftir yfirlýsinguna. Því hefur engu verið haldið leyndu. Ég svara náttúrlega ekki fyrir bæjaryfirvöld í Hafnarfirði enda veit ég að hv. þm. Guðmundur Árni skilur það vel, sem fyrrverandi bæjarstjóri og fyrrverandi heilbrrh. Ég vona að ég hafi svarað fyrirspyrjanda.