Heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:52:45 (3132)

1999-02-02 13:52:45# 123. lþ. 57.96 fundur 221#B heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er það komið fram í dagsljósið sem greinilega hefur verið pukrast með um nokkurn tíma hjá helstu hugmyndafræðingum Sjálfstfl. Ekki má gleyma að Framsfl. á þar líka hlut að því að gefa viljayfirlýsingu um sameiningu heilbrigðisstofnana í Hafnarfirði.

Í tvígang hefur starfsfólk heilbrigðisstofnana í Hafnarfirði risið upp til varnar vegna leynimakks bæjaryfirvalda um framtíð heilbrigðisþjónustunnar í bænum. Bæjaryfirvöld virðast ekkert hafa lært um nauðsyn opinnar umræðu áður en svona ákvarðanir eru teknar. Ætlunin er að gera þjónustusamning um rekstur heilbrigðisþjónustu til allt að fimm ára. Í því sambandi eru tilfærð háleit markmið. Það væri allt gott og blessað ef maður óttaðist ekki að fleira héngi á spýtunni. Í sjálfu sér er sameining stofnananna ekki skilyrði fyrir að slík markmið sem þarna eru tilgreind megi nást.

Einkum veldur ein setning í þessum drögum, sem ég hef undir höndum, mér áhyggjum. Þar segir að kannað verði hvort önnur rekstrarform komi til greina við heilsustofnanirnar. Þar er m.a. um að ræða heilsugæsluna í Hafnarfirði. Er e.t.v. verið að reyna að fara bakdyramegin að því að einkavæða grunnþjónustu við íbúana í Hafnarfirði? Ef svo er lýsi ég yfir algjörri andstöðu minni við málið. Það má aldrei gerast að slík þjónusta verði einkavædd eða gerð að akkorðsvinnu.

St. Jósefsspítalinn hefur oft átt í vök að verjast þegar heilbrigðisyfirvöldum hefur dottið í hug að spara eyrinn en kasta krónunni. Síðasta haust varð fjárveitingavaldið að koma Sólvangi til hjálpar og eins og allir vita hefur ráðdeild ætíð verið höfð í fyrirrúmi þar. Ég legg til að ef halda á áfram með þessi áform þá verði a.m.k. viðhöfð lýðræðisleg skoðanaskipti um tilgang þeirra en dýrmætustu stofnanir almennings ekki gerðar að skiptimynt í einkavæðingaráformum bak við luktar dyr.