Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:12:39 (3139)

1999-02-02 14:12:39# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni sem er fjárhagsvandi sveitarfélaganna. Ég hef sem fulltrúi í fjárln. átt viðræður við sveitarstjórnarmenn úr flestum sveitarfélögum á Íslandi nú í haust og í vetur. Segja má að niðurstaðan af þeirra máli sé í flestum eða nær öllum tilvikum sú að krafa er af hálfu sveitarfélaga um aukna hlutdeild í skatttekjum til að geta staðið undir einsetningu grunnskólanna, ásamt þeim mikla kostnaði sem fylgir launahækkunum og útgjöldum vegna skólamála. Staðan er þannig í mörgum sveitarfélögum, eins og komið hefur fram í greinum og öðru frá sveitarstjórnarmönnum, að það horfir til þess að þeir verði að óska eftir því að fresta ákvæðum um tvö ár a.m.k. til að geta staðið við það sem þeir hafa skrifað sjálfir undir. Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að skoða í þessu sambandi hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þessa og vegna þess að svo mjög mismunandi aðstæður eru milli sveitarfélaganna. Því spyr ég hæstv. félmrh. um aðgerðir vegna séraðstæðna í sveitarfélögum. Þær eru mjög mismunandi en það er aðeins miðað við ákveðna höfðatölu í þeim reglum sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga vinnur eftir. Það þarf að skoða þessi einstöku sveitarfélög mjög nákvæmlega.