Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:19:34 (3142)

1999-02-02 14:19:34# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram en það hefur ekki komið fram að sá stöðugleiki sem ríkir í fjármálum ríkisins kemur öllum vel. Lág verðbólga, lágir vextir og aukinn kaupmáttur kemur sér vel fyrir fjölskyldurnar í landinu, kemur sér vel fyrir fyrirtækin, kemur sér vel fyrir sveitarfélögin og svo auðvitað ríkið. (Gripið fram í.)

Það er ákveðin krafa um aukna þjónustu í öllum sveitarfélögum landsins og það fer æ stærra hlutfall af skattpeningum sveitarfélaganna í rekstur. En tekjustofnar sveitarfélaga eru býsna óréttlátir. Fasteignaskatturinn er óréttlátur skattur, m.a. vegna þess á hvaða grunni hann er byggður. Þjónustugjöldin eru til þess að gera eðlileg. Það er eðlilegt að borga vatnsskatt þegar fólkið fær vatn inn í húsin sín. Það er eðlilegt að borga holræsagjald þó að sumum hafi þótt nóg um það á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað er sjálfsagt að borga þessi þjónustugjöld og auðvitað er sjálfsagt að borga líka sorpeyðingargjald.

En vítt og breitt um landið er til fólk sem aldrei borgar þessa fasteignaskatta, aldrei. Það eru ýmsir embættismenn sem búa í embættisbústöðum. Ríkið borgar fyrir þá. Það eru til skólastjórar og kennarar sem borga jafnvel aldrei þessa skatta til þess sveitarfélags sem þeir búa í. Þessir tekjustofnar sveitarfélaganna eru því óréttlátir og við þurfum að finna nýja tekjustofna.

Það er nauðsynlegt að endurskoða verkaskiptalögin eins og komið hefur fram hjá hæstv. félmrh. og það starfar einmitt nefnd að því. Ég tel að mikið gæfuspor hafi verið að flytja skólana yfir til sveitarfélaganna frá ríkinu. Sveitarfélög úti á landsbyggðinni eru í mörgum tilfellum miklu lengra komin með einsetningu grunnskólans en á höfuðborgarsvæðinu og það sýnir líka hvernig sveitarfélögin hafa stillt upp og forgangsraðað þeim málefnum sem þau eru að berjast fyrir. Ég þakka þessa umræðu.