Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:26:40 (3145)

1999-02-02 14:26:40# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:26]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í umræðunni áðan var sagt að búseturöskunin dýpkaði þann vanda sem hér er við að eiga og það er mikið rétt. Það er nefnilega svo að það nægir ekki, ef á að bæta þá stöðu sem menn hafa áhyggjur af, að þau sveitarfélög sem hafa svigrúm nýti sér það svigrúm vegna þess að það eru ekki bara þau sveitarfélög sem svigrúmið hafa sem hafa þörf fyrir meiri tekjur. Það er þvert á móti, herra forseti, að mörg þau sveitarfélög sem nú þegar hafa fullnýtt útsvarsprósentu sína eru í mestum vandræðum af ýmsum ástæðum, sum hver vegna þess að við höfum leyft að sveitarfélögin á Íslandi nánast veðsetji velferðarkerfið sem þau eiga að reka til að halda atvinnulífinu gangandi. Það er kannski atriði sem við þyrftum að ræða líka í tengslum við stöðu sveitarfélaganna í landinu.

Grunnskólinn hefur auðvitað tekið til sín mun meira fjármagn en reiknað var með. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir útskýrði ágætlega áðan hvernig á því stendur. Árið 1995 þegar þessir samningar eru frágengnir er launaþáttur grunnskólanna 5,6 milljarðar. Hann stefnir í að verða 9,5 milljaðar á næsta ári. Þetta er enginn smámunur, herra forseti. Það munar a.m.k. um minna. En þetta segir ákveðna sögu. Byggðaþróunin í landinu hvílir beinlínis á því að sveitarfélögin geti mætt óskum og þörfum íbúanna og þess vegna hafa sveitarfélögin gert sitt ýtrasta til að mæta þörfum fólks fyrir bætta þjónustu. Nýjar áherslur eru uppi og við þeim verður að bregðast og ég vænti þess að þær nefndir sem hér hefur verið vitnað til, m.a. til að endurskoða tekjustofna --- ég vona að ég hafi skilið það rétt, hæstv. ráðherra --- taki á þessum vanda sem fyrst og skoði þetta mál með hliðsjón af nýjum áherslum og breyttum kröfum í samfélaginu.