Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:40:27 (3148)

1999-02-02 14:40:27# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur mælt fyrir um breytingu á skipulags- og byggingarlögum lætur ekki mikið yfir sér hvað lengd snertir eða fyrirferð en hér er hins vegar á ferðinni afar mikilvægt málefni sem miklu skiptir hvaða niðurstaða verður á. Þarf ekki annað en vísa til þeirrar miklu umræðu sem varð um þessi efni í tengslum við frv. til sveitarstjórnarlaga á síðasta þingi. Reyndar má einnig vísa til umfjöllunar sem tengdist frv. til skipulagslaga á þinginu 1996--1997 en þá um vorið voru skipulagslög þau sem hér er verið að leggja til breytingar við afgreidd á þinginu samhljóða að tillögu umhvn.

Við þá vinnu að skipulagslögum ræddi ég það ítrekað í umhvn. að æskilegt væri að kveða með skýrari hætti á um svæðisskipulag miðhálendisins sérstaklega en gert var og gildir samkvæmt núverandi löggjöf vegna séreðlis þessa svæðis. Til þess var þá vísað af meiri hluta í umhvn. á þeim tíma að í 12. gr. væri heimild til skipunar nefndar til þess að fjalla um svæðisskipulag sem færi ekki endilega að sveitarfélagamörkum og byggt á því þannig að hugmyndir mínar fengu þá ekki stuðning. Þetta mál kom síðan til mikillar umræðu eins og hæstv. ráðherra minnti á og þingheimi er í fersku minni vegna frv. til sveitarstjórnarlaga tengt stjórnsýslu á miðhálendinu og ákvörðunum um mörk sveitarfélaga inn til landsins.

Ég ætla ekki að fara yfir þá umræðu en fram kom við afgreiðslu þess frv. af hálfu þáv. talsmanna Alþb. í nefndinni, nú formanns þingflokks óháðra, Ögmundar Jónassonar, og hv. þm. utan flokka, Kristínar Ástgeirsdóttur sem leiddi þingnefndina á þessum tíma gegnum þetta flókna mál, að þau gerðu þar fyrirvara sem ég held að sé rétt að ég hafi yfir þó viðkomandi þingmenn muni eflaust rifja það upp og gera grein fyrir viðhorfum sínum því það tengist sannarlega því sem hér er. En þau skrifuðu með fyrirvara undir álit meiri hluta nefndarinnar og þar segir í lokin, með leyfi forseta:

,,Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara sem m.a. lýtur að því að gera þurfi breytingu á skipulags- og byggingarlögum samhliða afgreiðslu þessa frumvarps eigi skipulag hálendis Íslands að vera með ásættanlegum hætti. Þær breytingar verði að fela í sér á afdráttarlausan hátt að miðhálendið verði skipulagt sem heild og að fleiri komi að þeirri vinnu og ákvarðanatöku en aðliggjandi sveitarfélög. Er þar átt við fulltrúa tilnefnda af ríkinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd þjóðarinnar allrar.``

Þetta er niðurlagið í nefndaráliti og segir nokkuð um þann fyrirvara sem þingmennirnir túlkuðu síðan í umræðu um málið enn frekar. Segja má að það sem þá kom fram í formi frv. og sýnt var hér, mjög umdeild framlagning á máli sem var aðeins til sýnis en ekki einu sinni tekið til umræðu og urðu um það snarpar deilur í þinginu, að þá var til þess að verða við fyrirheitum sem fram höfðu komið í félmn. um málið sýnt í hvaða stefnu ríkisstjórnin hygðist beina þessu máli.

[14:45]

Frv. sem hér liggur fyrir og við ræðum nú er að nokkru annars efnis, þó stofninn sé kannski svipaður. Hvað snertir samsetningu nefndarinnar sem hér er kölluð samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags er um ólíkan búning að ræða og líka að því er varðar verkefni hennar og ég mun vekja athygli á því.

Ég vil taka fram, virðulegur forseti, í sambandi við þetta mál sem ég hef fylgst með hér á liðnum árum, að ég tel afar þýðingarmikið að skipulag komist á málefni miðhálendisins. Ég hef lagt ríka áherslu á þá verndarstefnu sem við í þingflokki óháðra viljum sjá sem græna þráðinn í málinu, þ.e. að tillit verði tekið til umhverfis- og náttúruverndar. Svæðisskipulagið, sem tillaga lá fyrir um í fyrra og hefur nú verið sent til Skipulagsstofnunar og á aðeins eftir að staðfesta af ráðherra, með því innskoti sem hér er í formi frv., endurspeglar að mörgu leyti góðar verndarhugmyndir sem við höfum leyft okkur að útfæra enn frekar með því að gera í þinginu tillögu um stofnun stórra þjóðgarða á miðhálendinu. Þeir tækju í aðalatriðum mið af verndarstefnu þeirri sem fram kemur í svæðisskipulagstillögunni, en að þar yrði hnýtt upp á með náttúruverndarlöggjöf og friðun samkvæmt náttúruverndarlögum.

Ef þannig væri um hnútana búið og þetta mál fengi ásættanlega umfjöllun og niðurstöðu, þá held ég að menn hefðu stigið jákvætt skref miðað við núverandi stöðu. Ég hef eins og áður verulegan hug á því að hlúa að ásættanlegri niðurstöðu þessa máls. Ég hef margt við það að athuga sem gerðist í sambandi við sveitarstjórnarlögin sem samþykkt voru í fyrravor, þá stefnu sem þau og fleiri þættir sem snerta þetta mál tóku en ég tel afar þýðingarmikið fyrir þjóðina í heild sinni og þjóðarhagsmuni að ná sátt um málefni miðhálendisins. Þar þarf allur umbúnaður, lagarammi og skipulag að tryggja víðtæka náttúruvernd. Það er hins vegar ljóst að um þau efni eru deildar meiningar og afar sterk öfl sem vilja sjá málið fara í annan farveg.

Þá ætla ég, virðulegur forseti, að koma að frv. sem hér er til umræðu, koma fram með spurningar og benda á ákveðna veikleika í málinu. Þar er fyrst til að taka 2. gr. --- ég ætla ekki að fjalla um 1. gr. frv. sem er bara tilvísun á milli lagagreina. Í þessu frv. segir, eins og í tillögunni sem ríkisstjórnin sýndi í fyrravor:

,,Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.``

,,Skal svæðisskipulagt sem ein heild.`` Þetta er gott ákvæði og býsna skýrt eins og það hljóðar. En hvernig er staða þessarar línu? Ég spyr hæstv. umhvrh. að því og bið hann að gera grein fyrir því hér: Er sú lína, sem hér er gengið út frá og miðað var við í vinnu að svæðisskipulagi miðhálendisins, þannig frágengin að hér og nú sé hægt að lögfesta þetta mál í trausti þess að ekki verði í ágreiningi við þá sem mótuðu svæðisskipulagstillöguna, sem nú hefur verið afgreidd af samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins?

Ég nefni þetta vegna þess að eins og málið var unnið var gert ráð fyrir að þessi lína hyrfi. Þeir sem tilnefndu fulltrúa í héraðsnefndir, í þessa samvinnunefnd, hugsuðu hana og skilgreindu sem vinnulína, sem vinnumörk sem gengið yrði út frá við gerð svæðisskipulagsins en síðan félli það svæðisskipulag að svæðisskipulagsáætlunum landshlutanna, sem gerðar yrðu í framhaldinu. Þannig skildi ég málið á þeim tíma.

Nú er málið hins vegar sett mun afdráttarlausar og ég tel jákvætt ef þetta stenst, út frá þeim sjónarmiðum sem þingflokkur óháðra hefur talað út frá í þessu máli og aðilar tengdir honum, en um það efast ég. Ég vísa til þess að upp af Borgarfirði og innan Norðausturlands, sem hæstv. ráðherra þekkir, kunna að vera vandkvæði á að fá skýra niðurstöðu í þetta mál. Hér á að miða við mörk afrétta og heimalanda. En var það gert í öllum tilvikum þegar þessi lína var dregin, vinnulínan í svæðisskipulagi miðhálendisins? Ég held ekki. Ég held að vikið hafi verið frá þeim mörkum og hér geti verið um formlega erfiðleika að ræða. Þetta þarf að skýrast við umræðuna áður en málið fer til nefndar.

Nú ætla ég fjalla um 3. málslið en gera nefndina að umræðuefni síðar. Þar segir:

,,Samvinnunefnd miðhálendis gerir tillögur til Skipulagsstofnunar um svæðisskipulag á miðhálendinu og gætir þess að samræmi sé með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga innbyrðis og að þær samræmist svæðisskipulagi miðhálendisins.``

Þetta er annað orðalag en í tillögunum frá því í fyrra. Ég ætla út af fyrir sig ekki að kveða upp dóm um það en á fyrra þingi var ekki talað um að samvinnunefndin ,,gerði tillögur`` heldur ,,fjallaði um`` svæðisskipulag miðhálendisins og gæfi Skipulagsstofnun umsögn um tillöguna.

Virðulegur forseti. Ég bið hæstv. umhvrh. að bregðast við ef það er ekki hans skilningur, að segja okkur hvort það sé rétt þegar ég fullyrði að verið sé að búa til ný stjórnsýslumörk í skipulagsmálum, í skilningi skipulagsmála. Það hróflar ekki við því sem samþykkt var í lögunum um sveitarstjórnir, að hin almenna stjórnsýsla, löggæsla o.fl., er í höndum sveitarfélaganna en í skipulagslegu tilliti er verið að búa til sjálfstæða stjórnsýslueiningu. Málið er flókið að því leyti.

Síðan kemur að aðalskipulagi sveitarfélaga. Því er ætlað að ná yfir allt umráðasvæði sveitarfélagsins, alveg upp í vatnaskil. Í aðalskipulagssamhengi fjalla sveitarfélögin um allt sitt land. Þeim ber hins vegar að taka tillit til svæðisskipulagsins sem fjallað er um alveg sjálfstætt. Vitanlega væri fótfesta í þessu ef hægt er að ganga þannig frá málunum að svæðisskipulagið sé forsendan, sé ákvarðandi og aðalskipulaginu beri að taka tillit til þess. Þannig er hugmyndin væntanlega að tryggja að þarna sé um heildstæð málstök að ræða, þ.e. á svæðisskipulagsstiginu.

Þetta er auðvitað nokkuð flókið gagnvart sveitarfélögunum og við skulum vona að þetta sé fær leið. Hún er hins vegar nokkuð flókin og þarf góðan skilning á málum og vilja til þess að þetta nái saman. Í báðum tilvikum er um stórar nefndir að ræða, bæði þá sem hér er gert ráð fyrir samkvæmt frv. og eins þá sem fjallar um aðalskipulag, þannig að vanda þarf til verka.

Í framhaldi af þessu: Eftir hvaða lagagrein skipulagslaga ætlar hæstv. ráðherra að láta málið ganga að því er varðar málsmeðferðina, þ.e. skipulagsmeðferðina? Er það 13. gr. eða 15. gr. sem þarna er vísað til? Í frv. eða athugasemdum gat ég ekki séð neitt um það og því nauðsynlegt að fá svör við þessu. Mér sýnist þetta hljóta að eiga að falla undir 15. gr. skipulagslaga um sérstaka svæðisskipulagsmeðferð, efni málsins samkvæmt.

Síðan er það val á fulltrúum í þessa nefnd. Segja má að hér sé orðið við þeirri kröfu sem var mjög almenn, að landsmenn allir eða fulltrúar allra hluta landsins, þar á meðal höfuðborgarsvæðisins, kæmu að málinu. Hér er reynt að koma til móts við það. En ósköp er þetta flókið eins og fyrir er lagt, þ.e. það eiga að vera ellefu fulltrúar og ráðherra á að velja níu án tilnefningar, þar af formann nefndarinnar. Átta skulu valdir úr öllum kjördæmum landsins í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Hverjir eiga að koma að þessu sem fulltrúar kjördæma landsins, búa hugmynd í hendur ráðherra, sem á síðan að velja viðkomandi? Hér er ekki um tilnefningar að ræða heldur á hann að velja fulltrúana. Þetta er afskaplega óskýrt. Svo á hæstv. félmrh. að koma með einn og félagasamtök um útivist einn. Það er auðvitað álitamál hvernig velja á úr hinum stóra hópi áhugafélaga. Ég skal ekkert um það segja að lítt athuguðu máli en það er vitanlega hið besta mál að fulltrúar notenda, ef svo má segja, komi að þessu máli. Við verðum auðvitað að treysta því að umhverfissjónarmiðin og samtök um umhverfisvernd fái aðgang að þessu máli. Það er ekki alltaf svo að áhugafélög um útivist tryggi þau sjónarmið. Því þarf að gaumgæfa hvernig aðgengi áhugasamtaka skuli vera.

Ríkisstjórnin og reyndar fleiri ónefndir stefna að því að fækka kjördæmum landsins niður í jafnvel sex talsins, ef ég hef skilið tillögur rétt. Þá breytist kannski það sem hér er á ferðinni. Ég bendi nefndinni, sem ég á raunar sæti í, á að skynsamlegt væri að koma tilvísunarsetningum fyrir með svolítið lögulegri hætti en gert er í þessum tillögutexta þar sem ,,sem`` vísar til sveitarstjórnarkosninga en ekki til samvinnunefndar miðhálendis, eins og þetta er sett fram í tillögu hæstv. ráðherra. Hins vegar er ekki óalgengt að tilvísunarsetningar fari á flot.

Kjördæmin eiga að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég er ekki sannfærður. Fram kom hugmynd um að Samband ísl. sveitarfélaga eða stjórn þess tilnefndi fulltrúa. Hvað er Samband ísl. sveitarfélaga? Jú, það er heilmikil stofnun með sér stjórn. Hver á þarna að koma að máli? Er það stjórnin? Hver er fulltrúi kjördæmanna, sem á að hvísla í eyra ráðherra áður en hæstv. ráðherra, án tilnefningar, velur níu í þessa nefnd?

[15:00]

Hér er margt uppi sem ég hefði þurft að ræða frekar og síðan er það afgreiðslan. Ég hygg að hæstv. ráðherra hefði kosið að ganga frá þessum málum á starfstíma sínum sem ráðherra, þ.e. fyrir 1. mars eða 15. mars, ég man nú ekki hvort er. En af máli hans áðan mátti ráða að hann gerði ekki ráð fyrir að svo gæti orðið tímans vegna. Þetta er alveg hroðalegt. Hvers vegna í ósköpunum --- ég á við miðað við ásetning hæstv. ráðherra --- hvers vegna í ósköpunum var þetta mál ekki lagt fyrir í byrjun þings í haust? Komin voru drög að tillögu. Það var búið að sýna tillögu í frumvarpsformi í fyrravor og síðan er það rétt fyrir jólahlé þingsins að smeygt er inn tillögu sem kemur fyrst til umræðu núna. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Það er alveg óskiljanlegt með öllu að það skuli vefjast fyrir hæstv. ríkisstjórn að ganga frá þessu máli, geta ekki komið því í boðlegan búning í upphafi þings, virðulegur forseti.

Þetta er stórt mál. Það þarf að vanda afgreiðslu þess og það þarf að vera reist á traustum grunni. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er heildstætt skipulag fyrir miðhálendi Íslands með verndarsjónarmið við hún.