Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:18:56 (3153)

1999-02-02 15:18:56# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Ég veit ekki hvernig þingmaðurinn getur túlkað ræðu mína hér áðan þannig að ég hafi verið alveg hoppandi glöð yfir tillögunum, þótt ég lýsi yfir ... (Gripið fram í.) Já, hv. þm., við erum sammála um að brýnt sé að fá niðurstöðu í þessu máli. Það er ekki þar með sagt að sú niðurstaða sé óbreytt frv. frá því sem hér er. Verði það niðurstaðan þá mundi ég sætta mig við hana vegna þess að mér finnst svo brýnt að þetta mál nái fram að ganga. En ég get tekið undir hvert orð þingmannsins varðandi breytingar á þessu efni. Ég vildi gjarnan sjá meira vægi bæði náttúruverndarsamtaka, útivistarfólks og suðvesturhornsins. Þingmaðurinn minnist þess kannski að áður en tillagan kom endanlega fram, og mátti ekki ræða hér í vor, voru miklar deilur um skipan nefndarinnar þar sem m.a. hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson kom við sögu. Þar stóð nú ekki aldeilis til að gera útivistarsamtökum eða suðvesturhorninu hátt undir höfði.

Í grundvallaratriðum er ég sammála hv. þm. Miðhálendi Íslands er sameign og á að vera sameign íslensku þjóðarinnar og þar á meiri hluti þjóðarinnar að sjálfsögðu að hafa mikið um það að segja hvernig málum verði háttað. En auðvitað verður þar að virða sjónarmið annarra líka.