Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:20:33 (3154)

1999-02-02 15:20:33# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stærsta átakamál síðasta löggjafarþings var án alls efa sá hluti frv. til sveitarstjórnarlaga sem laut að stjórnsýslu miðhálendis Íslands. Þar var gjörvallt miðhálendið sneitt niður og skipt á milli aðliggjandi sveitarfélaga. Um það stóðu heitar umræður dögum saman hér í þingsalnum en ekki aðeins hér heldur einnig utan hússins. Það kom berlega í ljós, sem hefur verið að gerast á undanförnum árum, að almenningi er hreint ekki sama um miðhálendið sem hann lítur á sem sameign þjóðarinnar allrar, líka þeirra sem ekki eiga land að svæðinu sem kallað er miðhálendi.

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan þetta svæði var landið gleymda, eða jafnvel forsmáða í hugum meiri hluta landsmanna. Það voru ekki allt of margir landsmenn sem létu sig það einhverju varða hvernig með það var farið. Afleiðingarnar af þessu skeytingarleysi eru augljósar hverjum þeim sem það vilja skoða. Á þessu svæði hefur verið níðst áratugum og öldum saman. Þar ægir saman línum, lónum og skálum af ýmsum stærðum og gerðum. Skálarnir eru um 400 talsins ef ég man rétt og stór hluti þeirra reistur í óleyfi. Þar eru vegslóðar sem engin kort ná yfir og annað eftir því. Sumt af þessu raski verður aldrei lagfært en annað má lagfæra eins og gengur. Óhjákvæmilegt hefur verið að koma lagi á óreiðuna, koma á heildarskipulagi og tryggja umsjón og eftirlit með gangi mála.

Niðurstaðan er okkur öllum kunn. Hér á Alþingi reyndist meiri hluti fyrir að skipta þessu svæði milli aðliggjandi sveitarfélaga, 40 talsins, muni ég rétt. Það þjónar auðvitað engum tilgangi að rifja upp málafylgju okkar sem lentum í minni hluta við afgreiðslu málsins eftir kröftuga baráttu. Baráttan naut mikils stuðnings, ég fullyrði það, stórra hópa í samfélaginu. Sú barátta og þær miklu umræður sem urðu um þetta mál utan þings sem innan hafa hins vegar haldið áfram. Baráttunni er alls ekki lokið þótt einn þáttur hennar hafi tapast. Henni er haldið áfram með fundahöldum, umræðum, greinaskrifum og jafnvel ljóðalestri hér úti á Austurvelli, sem er haldið þar úti með aðdáunarverðri þrautseigju í hvaða veðri sem er. Það er okkur til stöðugrar áminningar um ábyrgðina sem að okkur snýr. Ég minni á að hér var haldinn mjög merkilegur fundur, baráttufundur til verndar miðhálendinu, í lok nóvember sl. og öllum sem sóttu þennan baráttufund svokallaðs hálendishóps í Háskólabíói verður sú reynsla ógleymanleg. Stemmningin, samkenndin og baráttugleðin var slík að ekki verður með orðum lýst. Hinn sterki vilji til að varðveita og vernda þá auðlind sem býr í miðhálendinu verður ekki sniðgenginn. Ég segi það bara að sú manneskja er tilfinningasnauð sem ekki skynjar vilja þjóðarsálarinnar í þessu máli, sterkar meiningar, afstöðu og tilfinningar fólksins til þessa svæðis.

Vegna þess að málin hafa þróast svona, herra forseti, þá er ég ekki jafnhrikalega ósátt við niðurstöðuna úr afgreiðslu sveitarstjórnarlaganna á liðnu vori eins og áður. Ég trúi því að ekki verði hægt að líta fram hjá baráttunni og þeim sterka vilja sem kristallast hefur í henni varðandi skipulag og ráðstöfun einstakra svæða á miðhálendinu. Ég taldi óráð að búta þetta landsvæði niður. Ég hef ekki skipt um skoðun í því efni. Ég hefði viljað hafa svæðið eina heild og alla yfirstjórn á hendi eins aðila, yfirstjórn, byggingar- og skipulagsmál. Aftur á móti hefði síðan mátt fela aðliggjandi sveitarfélögum afmörkuð verkefni eins og löggæslu, heilbrigðiseftirlit og fleira. Ég var hins vegar í tapliðinu og er ansi hrædd um að langt sé í að þeirri niðurstöðu verði breytt ef henni verður nokkurn tímann breytt. Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns þá yrði til þess að fara í gang flókið ferli og úr því þessi niðurstaða varð á sl. vori, þá er ólíklegt að hægt verði að breyta henni.

Frv. sem hér er til umræðu er afkvæmi þeirrar umræðu og togstreitu sem varð um þetta mál á síðasta löggjafarþingi. Ég tek undir það að í raun er óskiljanlegt að við séum einungis í 1. umr. en ekki 2. umr. eða 3. umr. um þetta frv. Því var lofað strax á haustdögum og eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra bera ýmsar tímasetningar í því með sér að frumvarpshöfundar hafi reiknað með því að það yrði lagt fram fyrr. Eflaust verður erfitt að fá skýringar á því hvað tafði framlagningu frv. Það er með hátt málanúmer þannig að ekki er hægt að kenna því um að umræður hér á þingi hafi tafið að það kæmi til umfjöllunar. Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna þessi töf hafi orðið, hvað hafi reynst svona flókið við að koma frv. hingað inn í þingið. Um hvað þurfti að semja?

Ég ætla ekki að spá illu um framkvæmd þessa máls en það verður fróðlegt að heyra af umfjöllun um það í hv. umhvn., sem ég sit því miður ekki lengur í og sakna þess. Það verður fróðlegt að heyra hvað umsagnaraðilar hafa um frv. að segja, um hlutverk nefndarinnar og samsetningu hennar. Það er ákaflega litla leiðsögn að hafa af frumvarpstextanum sjálfum og grg. Ég velti því sannarlega fyrir mér hvernig farið verði að því að velja í þessa nefnd. Um það eru engar upplýsingar. Mér segir nú svo hugur að býsna flókið geti orðið fyrir félagasamtök um útivist með ákaflega misjafnar forsendur og hagsmuni að koma sér saman um einn fulltrúa. Eitt stykki fulltrúa fyrir öll þau mörgu og ólíku félög og félagasamtök.

[15:30]

Um aðra fulltrúa er það eitt vitað að þeir eiga að vera fulltrúar sinna kjördæma en um faglega þekkingu eða aðra verðleika segir ekki neitt. Og hlutverk og verkefni hæstv. ráðherra eru ekki beinlínis öfundsverð. Honum er mikill vandi á höndum og ég leyfi mér að efast um að auðvelt verði fyrir hæstv. ráðherra að reyna t.d. að tvinna saman kjördæmasjónarmið og sjónarmið hinna ýmsu útivistarmanna. Ég get varla ímyndað mér að hann fari að reyna að finna fulltrúa jeppamanna í einu kjördæmi og fulltrúa vélsleðamanna í öðru og veiðimanna í því þriðja og hestamanna í því fjórða o.s.frv. En hvernig í ósköpunum eiga þessi útivistarsamtök að geta komið sér saman um fulltrúa sinn þar sem svo geysilega mismunandi sjónarmið eru þarna á ferðinni?

En eitt er víst, herra forseti, að þessi nefnd, hvernig sem hún verður skipuð, verður undir smásjá þeirra sem vilja að hálendi Íslands fái frið og vernd eftir ára- og aldalanga ánauð.