Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:03:54 (3161)

1999-02-02 16:03:54# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem nú þegar hafa farið fram um málið. Ég veit að þeim er ekki lokið, það eru fleiri hér á mælendaskrá, en mér þótti rétt að koma aðeins inn í umræðuna og gera grein fyrir viðhorfum mínum til nokkurra atriða sem hafa komið fram og til spurninga sem til mín hefur verið beint. Ég vil láta það koma fram strax í máli mínu að ég þarf því miður að víkja af þessum fundi áður en honum lýkur vegna áætlaðrar ferðar norður í land og er bundinn af flugi. En mér þætti auðvitað gott ef umræðunni gæti lokið þrátt fyrir það en ég geri náttúrlega ekki kröfu til þess ef hv. þingmönnum finnst það ófært að ráðherra fjarstöddum.

Ég vil fyrst segja að ég tel það nokkuð ofmælt, að ekki sé meira sagt, hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, síðasta hv. ræðumanni, þegar hann talar um að ríkisstjórnin hafi farið með miklu offorsi gegn hálendinu og þeim viðhorfum sem í dag ríkja í þjóðfélaginu til umhverfismála og miðhálendisins. Hann kallar þetta atlögu ríkisstjórnarinnar að málinu. Ég mótmæli því.

Það sem hér er verið að gera er að tekið verður á málum með þeim hætti að störfum nefndar sem líklega hefur á sínum tíma verið skipuð af hv. þm., þáv. hæstv. umhvrh., í samræmi við lög eða breytingu á skipulagslögum sem forveri hans í stóli umhvrh. beitti sér fyrir, verði fylgt eftir og að ný nefnd taki við af þeirri sem varanleg umsjónarnefnd með skipulagi á miðhálendinu. Mér fannst þess vegna dálítið einkennilegt hvernig hann talar um þann málatilbúnað sem hér er á ferðinni. En nóg um það.

Skiptar skoðanir geta verið um það hvernig staðið er að málum og hvort rétt sé fram farið eins og hér er lagt til eða hvort þetta ætti að gera öðruvísi. Rætt hefur verið um það áður og skiptar skoðanir komið fram á því hvernig með skipulagsmál eigi að fara. Ég hef verið eindregið fylgjandi því að skipulagsmálin á miðhálendinu eigi að falla að öðrum skipulagsmálum í landinu, þ.e. þau séu verkefni sveitarfélaga, og ekki er gert ráð fyrir því með þessu frv. að það lögskipaða verkefni sveitarfélaga sé tekið af þeim. Ég kem nánar að því í sambandi við fyrirspurn frá hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni, og sný mér þá að því sem hann spurði um. Aðrir hv. þingmenn hafa nokkuð komið inn á sumt af því og svara ég þeim í leiðinni.

Hv. þm. spurði fyrst um þá viðmiðunarlínu sem getið er um í 1. efnisgrein 2. gr. frv., þar sem segir að miðhálendið markist af línu sem dregin sé milli heimalanda og afrétta. Hér er viðhöfð sama aðferð og hin fyrri nefnd lagði til og þau mörk dregin á sama hátt og þar var gert. Um það náðist ég leyfi mér að segja gott samkomulag. Það getur vel verið að einhver ágreiningur hafi verið uppi um tíma í störfum nefndarinnar. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið þegar leið á nefndarstarfið og á þeim fundum sem ég sat með þeirri nefnd, þ.e. nefndinni um svæðisskipulag miðhálendisins, kom aldrei fram að ágreiningur væri um þessa línu. Hins vegar var vitað um ágreining um mörk milli einstakra sveitarfélaga. Sérstök nefnd var sett til að reyna að ná samkomulagi um það. Það leystust tvö eða þrjú mál sem ágreiningur hafði verið um en því miður ekki alveg öll. Það eru því enn þá óuppgerð mál um landamerki milli sveitarfélaga. Það segir okkur auðvitað að svona mál eru öll nokkuð viðkvæm. Við vitum að oft er deilt um landamerki milli jarða, svo dæmi sé tekið, og vafalaust gæti komið upp einhver ágreiningur um þetta mál á síðari stigum, en það er ekki eins og er. Ég hef því talið að auðvelt væri að miða þetta við sömu mörk eins og unnið hefur verið eftir og skipulagstillagan, sem nú liggur fyrir, kveður alveg skýrt á um. Þar eru þessi mörk dregin og ég vænti þess og leyfi mér að fullyrða að þau eigi að geta staðið áfram og sé þá áréttað í frv. og væntanlegum lögum sama vinnuaðferð og viðhöfð var við þá skipulagsvinnu sem nú er um það bil að ljúka.

Hv. þm. fjallaði í öðru lagi um mismun á texta frá frv. sem lagt var fram í vor um verkefni nefndarinnar þar sem annars vegar var sagt að samvinnunefndin skyldi fjalla um svæðisskipulag. Hér er hins vegar sagt að samvinnunefndin skuli gera tillögur. Hér er því fyrst og fremst verið að árétta og skýra frekar verkefni og verksvið hennar. Ég álít að með þessu sé verið að mæta þeim sjónarmiðum sem fram komu í umræðum hjá hv. þingmönnum á sl. vori þegar menn töluðu um óljós verkefni nefndarinnar, að hún skyldi fjalla um svæðisskipulagið. Hér er skýrt tekið fram að hún skal gera um það tillögur. En tillögugerðin í þessu tilviki tekur ekki af --- eins og mér fannst vaka í spurningu eða vangaveltum hv. þm. --- hinn lögskipaða rétt sveitarfélaganna til að fara með skipulagsmálin. Þau gera það auðvitað áfram. Nefndin vinnur tillögurnar og þær fara síðan í ákveðinn farveg eins og hér er gert ráð fyrir.

Hér er því fyrst og fremst verið enn þá frekar en áður að styrkja hlutverk nefndarinnar. Ég vona og vænti þess að þetta frv. verði öllu betra en það sem var til umræðu og meðhöndlunar í fyrra og fékk misjafnar undirtektir.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. um skipulagsmálsmeðferðina í framhaldi af þessu, hvernig fara skyldi með tillögur nefndarinnar, og hvort þær skyldu fara eftir 13. eða 15. gr. byggingar- og skipulagslaga, en þar er annars vegar verið að fjalla almennt um kynningu, auglýsingu, samþykkt og staðfestingu svæðisskipulags, eins og segir í yfirskrift 13. gr., og hvernig slíkt svæðisskipulag skuli meðhöndla og hvaða meðferð það fái. Hins vegar er í 15. gr. verið að fjalla um sérstaka svæðisskipulagsmeðferð.

Ef við lesum aðeins 1. mgr. í 15. gr. þá segir svo, með leyfi forseta:

,,Sérstakri svæðisskipulagsmeðferð er heimilt að beita vegna fyrirhugaðra mannvirkja, svo sem þjóðvega, orkumannvirkja eða fjarskiptalína, eða áætlana um slíka mannvirkjagerð.``

Ég hef litið svo á, og það er þá svar mitt við spurningu hv. þm., að málsmeðferð þessara tillagana færi eftir 13. gr. en ekki eftir 15. gr. Við erum að tala um almennt heildsætt svæðisskipulag yfir ákveðið landsvæði en ekki um einstakar aðgerðir, framkvæmdir eða einstök mannvirki eins og talað er um í 15. gr.

Ég sé nú ekki að það sé mikill munur á efnislegri málsmeðferð þessara tillagna. Þó er það aðeins ef 13. og 15. gr. eru lesnar orðrétt saman. Ég get auðvitað mjög vel fallist á það að hv. umhvn. skoði þetta mál frekar og meti hvort ástæða er til að kveða hér skýrar á eða taka það beinlínis fram hvernig skuli með fara. En svar mitt er sem sagt það að farið er eftir 13. gr.

Hv. þm. spurði einnig, og það hafa fleiri hv. þingmenn gert, hvernig eigi að fara með þessi tilnefningarmál. Menn telja þau óljós og flókin og erfitt verði að ná þessari nefnd saman. Þessu er ég algjörlega ósammála og tel ástæðulaust að hafa af því áhyggjur því að það er skýrt á um það kveðið þó að menn hafi viljað draga annað upp hér.

Mig langar fyrst aðeins að fjalla um útivistarsamtökin. Gert er ráð fyrir því, eins og segir hér, að einn fulltrúi skuli tilnefndur af félagasamtökum um útivist. Útivistarsamtök, ég hygg 12--14 samtök í landinu hafa nú þegar myndað með sér ákveðinn samvinnuhóp, sem ég man nú ekki hvort heitir Samtök útivistarfólks eða útivistarfélaga. En ég taldi ekki rétt að setja þau félagasamtök sérstaklega merkt inn í frv. þar sem þau eru ný, þau eru ung og gætu átt eftir að breytast. Ég vil einnig vitna til reynslu af því að hafa í lögum ákvæði um að annar ákveðinn félagsskapur, Dýraverndarsamtök Íslands, skuli tilnefna í ákveðnar nefndir sem starfa á vegum ráðuneytisins lögum samkvæmt, að það hefur verið erfitt að fá þau samtök til þess að koma sér saman um tilnefningu. Reyndar er álitamál uppi um hvort samtökin kunni jafnvel að vera tvenn. Þar sem kveðið er skýrt á um slíkt hefur það ekki alltaf leyst málið. Hins vegar höfum við í nokkrum tilvikum í umhvrn. leitað til umhverfis- og náttúruverndarsamtaka um að tilnefna fulltrúa, bæði til samstarfs við okkur í nefndum og til að taka þátt í þingum og ráðstefnum á alþjóðlegum vettvangi og það hefur ekki reynst erfitt. Það hefur gengið alveg ágætlega að fá þá til að koma sér saman um fulltrúa og þeir hafa tilnefnt einstaklinga til slíks samstarfs við ráðuneytið. Þannig að ég kvíði því ekki.

[16:15]

Í öðru lagi voru uppi deilur um það hvernig tilnefnt var í hina fyrri nefnd sem nú hefur lokið störfum um svæðisskipulag miðhálendisins, þ.e. að það væru fulltrúar héraðsnefndanna. Það þótti mönnum ótækt vegna þess að það væri of þröngur hópur. Við höfum rætt um, eins og var í frv. sem lagt var fram í fyrravor, að það væru sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu. Það var talað um að það væri flókið og erfitt að fá öll þau sveitarfélög til að tilnefna 12 fulltrúa eins og gert var ráð fyrir í því frv. Það hefur komið til tals að landshlutasamtök sveitarfélaganna tilnefndu. Þau eru ekki talin hafa nægjanlega skýra lögformlega stöðu þannig að það varð niðurstaðan að ekki væri rétt að láta þau tilnefna í þessa nefnd. Niðurstaðan varð sem sagt sú að í stað þess að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga að stinga upp á eða gera tillögur um, í þessu tilfelli, átta fulltrúa í nefndina, þá væri eðlilegt að það væri á valdi ráðherra eins og mörg önnur slík verkefni eru að ráðherrar þurfa að leita að fólki til að starfa í nefndum á vegum ráðuneytanna eða sem vinna að málefnum sem undir ráðuneytin falla og til að það væri nú ekki alfarið á valdi ráðherra eins, þá skyldi leitað samráðs um það við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég kvíði því ekki heldur því að sá sem hér stendur hefur a.m.k. átt gott samstarf við stjórn og forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar við höfum þurft að tilnefna eða leita eftir tilnefningum eða leita samráðs við sambandið um það að fá menn til að skipa nefndir á vegum ráðuneytisins og það hefur líka gengið vel. Ég tel því að þetta sé auðvelt verk og að þetta sé besta aðferðin við að ná fram þessum hópi. Þeir geta hugsanlega haft einhver áhrif á það hvernig hann er samansettur og að það komi ekki tilnefningar úr einstökum landshlutum án þess að neitt sé við það ráðið hverjir eða hvernig skipast í þá sveit. Hægt er að hafa áhrif á það að menn með mismunandi þekkingu eða bakgrunn komi að nefndarstarfinu. Ég tel að hér sé vel að málinu staðið og skynsamlega og hef ekki áhyggjur af því að það sé flókið eða erfitt að koma saman þessari nefnd.

Auðvitað má segja að málið sé seint fram komið og of seint. Á því eru ýmsar skýringar sem er ekki tilefni til að telja upp hér. Það hefði verið æskilegt að fá þetta fyrr inn. Ég minni á það að þó að ég hefði haft áhuga á því og hafi lýst því úr þessum ræðustóli áður, að geta staðfest þá svæðisskipulagstillögu sem nú liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun en eru nú litlar líkur á miðað við tímasetningar sem hér blasa við okkur, þá hef ég líka heyrt þau sjónarmið, mig minnir af fjölmennum fundi, ráðstefnu eða baráttufundi, sem haldinn var í Háskólabíói og hefur verið vitnað til hér áður í umræðunni, að það væri eitt aðaláhyggjuefni þess hóps að núverandi umhvrh. mundi líklega hafa það í hendi sér að staðfesta þetta svæðisskipulag miðhálendisins. Þeim hlýtur að létta mjög sem fjölluðu um það á sínum tíma, að það verður trúlega hlutverk annars umhvrh. að undirrita það eða staðfesta það svæðisskipulag. Ekki veit ég hvaða sjónarmið menn hafa verið að hugsa til þar að kynnu þá að ráða ferðinni, en verði þetta frv. hins vegar ekki samþykkt og takist okkur ekki að gera það að lögum er rétt að minna á að þá má búast við að Skipulagsstofnun sendi ráðherra skipulagstillögu sína, þegar búið verður að ljúka athugun og yfirferð á tillögunni sem þar liggur nú fyrir, og þá er það í hendi ráðherra hvort eða hvenær hann vill undirrita það svæðisskipulag án þess að aðrir komi þar frekar að.

Aðeins að lokum, hæstv. forseti, af því að ég sé hv. þm. Össur Skarphéðinsson hér í dyragættinni. Hann spurði hver væri í raun þörf fyrir 4. gr. í frv., þ.e. að þessi nýja nefnd skuli koma að málinu. Það var reyndar eitt af því sem kom mjög ákveðið fram í umræðunum í fyrra. Menn töldu að það væri eðlilegt og nauðsynlegt og ég var mikið spurður um það hver ætti að vera aðkoma nefndarinnar að þessu. Ég hef talið að það væri nauðsynlegt að hún fengi svigrúm og möguleika til þess. Ef við settum á nýja nefnd án ákvarðana um aðkomu að málinu nú, kæmi hún ekki að því í raun fyrr en kannski eftir fjögur ár eða hefði lítið um það að segja að koma með nýjar skipulagstillögur fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Því var talið eðlilegt að hún hefði umsagnarrétt og athugasemdarétt við þá tillögu sem nú liggur fyrir og þess vegna er 4. gr. hér inni, sem er ákvæði til bráðabirgða um hlutverk þessarar nýju nefndar. Það er þá hennar fyrsta verk að fara yfir þá tillögu sem nú liggur fyrir og koma þeim athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun sem síðan er þá á hennar valdi hvort hún gerir þær að sínum tillögum og þá aftur að tillögu til ráðherra.