Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:28:24 (3165)

1999-02-02 16:28:24# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:28]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu fallist á að umræðunni sé frestað af því ég þarf að víkja af fundi, ef hv. þm. óska þess. Ég nefndi áðan að það yrði að hafa sinn gang. Ég hefði talið gott ef umræðunni hefði lokið til að flýta málsmeðferðinni svo frv. kæmist til eðlilegrar umfjöllunar í viðkomandi nefnd. En hitt er sjálfsagt að við höldum áfram umræðu um málið, að 1. umr. verði ekki lokið þar sem ég þarf, og biðst nú afsökunar á því aftur, að víkja af fundinum og get ekki klárað umræðuna núna.

Ég verð að árétta þá skoðun mína sem virðist ekki fara saman við viðhorf eða skoðun hv. þm., að hér er verið að setja á laggirnar sérstaka nefnd sem ekki er tilnefnd beint af þeim sveitarfélögum sem fara með skipulagshlutverkið lögum samkvæmt og þar með talið skipulagshlutverkið á hálendinu heldur er hér gerð tillaga um nefnd sem sett yrði saman með öðrum hætti og yrði að mestu skipuð fulltrúum kjördæma og landshluta í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélögin koma þannig óbeint að málinu en verði frv. að lögum er ekki gert ráð fyrir að skipulagshlutverkið sé tekið af sveitarfélögunum. Um það fer eins og segir í 13. gr. Því miður hef ég ekki tíma til að lesa það aftur. Þar er gert ráð fyrir að tillögur þessarar nefndar, ef þær fara samkvæmt því sem þar er gert ráð fyrir, fari til sveitarfélaganna og sveitarfélögin komi að málinu með eðlilegum hætti eins og þeim ber að gera og síðan fer tillagan til Skipulagsstofnunar. Frá Skipulagsstofnun fer hún síðan til ráðherra þannig að hinu lögformlega ferli sem skipulagið á að fara er viðhaldið og það hlutverk ekki tekið af sveitarfélögunum með þessu.