Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:37:32 (3179)

1999-02-02 17:37:32# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir tók heils hugar undir þessa tillögu sem fyrrverandi félagar hennar hafa lagt fram ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og er mjög sammála tillögunni.

Ég vil því spyrja hv. þm. hvort það sé þá stefna samfylkingarinnar að hún vilji að fyrra bragði að varnarliðið fari á braut, og ég segi að ástæðulausu. Ekkert bendir til þess að varnarliðið þurfi að fara héðan nema við krefjumst þess. Ekkert bendir til þess innan NATO og ekkert bendir í sjálfu sér til annars en að Atlantshafsbandalagið og störf okkar innan þess séu þess virði að við eigum að vera áfram fullgildir meðlimir innan Atlantshafsbandalagsins.

Ég spyr þá: Er það þá stefna samfylkingarinnar að hún vilji að fyrra bragði segja upp þeim þúsundum starfsmanna sem núna starfa hjá varnarliðinu? Tvö þúsund starfsmenn vinna þarna fyrir utan aðra afleidda starfsemi af veru og störfum í kringum varnarliðið. Þúsundir manna mundu missa störf sín. Það er þá stefna samfylkingarinnar að byrja á því væntanlega eftir kosningar að senda þessu fólki uppsagnarbréf. Þetta er þá væntanlega yfirlýst stefna þess flokks sem er í prófkjörum þessa dagana. Það er mjög gott að fá að heyra þetta á þessari stundu af því að prófkjör verður væntanlega um næstu helgi á Suðurnesjum og í Reykjaneskjördæmi fyrir samfylkinguna. Þeir fulltrúar sem þar standa í fylkingarbrjósti geta því sagt kjósendum á Suðurnesjum sérstaklega hvað þeir hyggjast gera eftir kosningar.