Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:04:29 (3189)

1999-02-02 18:04:29# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að við í hinni nýju Vinstri hreyfingu -- grænu framboði viljum ekki stuðla að friði í heiminum eða öryggiskerfi sem heldur í heiminum. Við viljum að það öryggiskerfi byggi á réttlæti, það byggi á réttlæti og virði lýðræði. Hæstv. utanrrh. til upplýsingar þá er það rétt að ég er talsmaður þess að kjarnorkuvopnum verði útrýmt, þau verði lögð til hliðar einhliða eða alhliða og farið að kröfu og úrskurði Alþjóðadómstólsins sem hefur dæmt tilvist þeirra ólöglega, og að farið verði jafnframt að --- ja, hvað eigum við að segja --- heilbrigðri skynsemi og við tökum höndum saman um að hamra á þessari kröfu.

Það sem ég vil hins vegar að hæstv. utanrrh. upplýsi er hvort hann sé sammála þeirri staðhæfingu sem hér kom fram áðan að NATO-ríkjunum og NATO beri réttur til að nota kjarnorkuvopn. Lítur hæstv. utanrrh. svo á að eitthvert ríki hafi rétt, lagalegan eða siðferðilegan rétt, til þess að nýta kjarnorkuvopn? Síðan skulum við ræða Saddam Hussein og hvað verið er að gera saklausu fólki í Írak og hverjir koma þar við sögu. Það skulum við ræða enda er það á dagskrá hér síðar á þessum fundi. Hitt vil ég ítreka að hæstv. utanrrh. svari því hvort hann líti svo á að eitthvert ríki innan NATO eða annars staðar hafi rétt til þess að nýta kjarnorkuvopn.