Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:06:40 (3190)

1999-02-02 18:06:40# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að NATO hefur áskilið sér þann rétt að beita kjarnorkuvopnum og NATO-ríkin hafa ekki horfið frá því. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir í mínum huga að NATO-ríkin munu aldrei beita kjarnorkuvopnum til árása að fyrra bragði. NATO-ríkin telja ekki skynsamlegt að leggja þessi vopn af einhliða meðan það ástand sem ríkir í heiminum í dag er til staðar. Svo einfalt er það mál. Því miður vinna ýmis ríki að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum, t.d. Pakistan, Indland og einnig ríki fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þetta er mjög hættuleg þróun og það er afar mikilvægt að stöðva þessa þróun og koma í veg fyrir að fleiri ríki komi sér upp kjarnorkuvopnum í þeirri von að þau sem hafa kjarnorkuvopn í dag geti smátt og smátt samið um það að eyða þessum vopnum. Það er skoðun mín að stefna eigi að því. Ég er hins vegar mjög ósammála hv. þingmönnum græns framboðs hvernig þessum markmiðum skuli náð, eins og ég er afar ósammála þeim í þeim málflutningi sem þeir hafa haft í frammi á Alþingi áður að því er varðar málefni Íraks. Ég er mjög ósammála þeim og tel að þeir séu í reynd með málflutningi sínum á Alþingi að styðja við þá stefnu sem Saddam Hussein hefur í frammi og ég skal færa rök fyrir því síðar. Þessi mál verða því miður ekki leyst í gegnum Frið 2000, hv. þm.