Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:11:38 (3192)

1999-02-02 18:11:38# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:11]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þykir það með dálitlum ólíkindum að í dag, þ.e. í upphafi árs 1999, skuli menn vilja helst vinna sér það til frama í stjórnmálum að reyna að gera þetta bandalag, Norður-Atlantshafsbandalagið sem við Íslendingar svo farsællega höfum verið þátttakendur í frá upphafi, tortryggilegt. Mér finnst flest annað vera nær en að gera það tortryggilegt.

Ég minnist þess og man það vel á dögum kalda stríðsins þegar menn hér á Íslandi margir hverjir notuðu hvert tækifæri til að ófrægja þetta bandalag, ófrægja Bandaríkin, okkar bestu vinaþjóð og reyna að gera það að öllu leyti tortryggilegt að við skyldum hafa gengið í þetta bandalag. Ég er sjálfur sannfærður um að sagan mun bara á einn hátt dæma þetta: Við Íslendingar vorum miklir gæfumenn, mjög miklir gæfumenn þegar við skipuðum okkur í sveit með Atlantshafsbandalaginu 1949. Við erum miklir gæfumenn og margar þjóðir munu öfunda okkur af því hlutskipti sem við nutum á þessum árum. Það voru önnur örlög sem við hlutum en þjóðir Austur-Evrópu. Það er ömurlegt til þess að vita hvernig þar fór. En menn gleyma því hvað við vorum miklir gæfumenn.

Það er að vísu rétt að í upphafi sjálfstæðis okkar 1918 þegar hugsjónamenn Evrópu sáu í hillingum þá draumsýn að það vitlausa stríð sem þá var rétt að ljúka væri stríð sem yrði til að binda endi á aðrar styrjaldir. Það hefur komið í ljós að varla var vitlausari hugsun hugsuð. En einmitt á þessum tímum var þetta unga sjálfstæða ríki að heita því að verða hlutlaust. Það gerðu Íslendingar. Ég vona sannarlega að Íslendingar rati aldrei í þá barnalegu gryfju að halda að í þessum heimi verði menn hlutlausir. Aldrei. Við tókum okkur stöðu með vestrænum ríkjum í upphafi og við ætlum að standa þar.

Ég hef ekki lagt dóm á það hversu herfræðilega mikilvægt er að hafa þennan herflugvöll í Keflavík. Ég ætla þó að vona að það fari eftir mati þeirra manna sem gerst þekkja hversu mikill hernaðarmáttur þarf að vera hér. Kannski þarf engan hernaðarmátt. Þá verður hann lagður niður. En ég vona samt innilega að það verði áfram þannig að okkar besta vinaþjóð, Bandaríki Norður-Ameríku, verði ætíð tilbúin til að lýsa því yfir að hún ætli að standa vörð um sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar.

Ég minnist þess líka að á dögum kalda stríðsins kom hingað mjög þekktur bandarískur stjórnmálamaður, öldungadeildarþingmaðurinn Fulbright. Hann var þekktur á þeim tíma fyrir að hafa dálítið frjálslyndar og sérstakar skoðanir á utanríkismálum. Hann hélt hér erindi og meginþema þess erindis var að sannarlega segði sagan okkur að saga allra stórvelda væri þakin mörgum glæpum og svo væri líklega sannarlega um hans eigið land, Bandaríkin, þeir hefðu gert margt sem þeir betur hefðu látið ógert. En hann væri samt stoltur af því sem Bandaríkjamaður og bandarískur öldungadeildarþingmaður að á sögu og samskipti þessa stærsta lýðræðisríkis og mesta herveldis heimsins, og hins minnsta lýðræðisríkis heimsins, Íslands, hefði aldrei fallið blettur. Ég hef oft hugsað um þessi ummæli, fundist þau þess virði að rifja þau upp alltaf öðru hverju, einmitt til að minnast þess hversu hamingjusamir við vorum, hversu mikið við eigum að þakka þeim sem sáu til þess að við rötuðum þann veg sem við göngum í dag. Við eigum ekki að hvika frá honum. Við eigum að standa með vestrænum þjóðum. Við eigum ekki að taka undir það að NATO sé eitthvert totryggilegt árásahernaðarbandalag. Það er ekki rétt að NATO hafi ráðist á Japan. Það er ekki rétt. Það voru Bandaríkin sem tóku þá ákvörðun 1945, fjórum árum áður en NATO var stofnað þannig að hér var farið frjálslega með sannleikann. Síðan má ræða það hvort Truman Bandaríkjaforseti hafi þá tekið rétta eða ranga afstöðu, um það skal ég ekki segja. (ÖJ: Það var vísað í aðildarríki NATO.) Það þýðir ekkert að vísa í aðildarríki NATO. NATO var stofnað 1949 sem varnarbandalag vestrænna ríkja og það er það enn þá og það stendur vörð um þau. Því miður er heimurinn þannig fyrir hvern þann sem vill hlusta og sjá að engin ástæða er til að fyllast þeirri bjartsýni að nú sé að koma einhver sá fróðafriður að hægt sé að beygja og grafa öll vopn.

Það er sannarlega rétt að íslenska ríkisstjórnin hefur alltaf tekið þátt í starfi NATO og alltaf staðið við hlið þess og sú stefna sem NATO fylgir í því að reyna að minnka og helst að láta þau hverfa, kjarnorkuvopnin, er stefna sem við þurfum að standa vörð um og án forustu NATO hef ég enga trú á því að nokkurn tíma takist að ná utan um þetta nú þegar við vitum að hvert ríkið á fætur öðru er einmitt að koma sér upp kjarnorkuvopnum og ófriðurinn blasir við hvert sem litið er.

Þess vegna vona ég það að herstöðin á Keflavíkurflugveli verði hér áfram sem tákn um hið mikla samstarf Íslands og Bandaríkjanna svo lengi sem nokkur þörf er talin á því að hún sé hér.