Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:17:57 (3193)

1999-02-02 18:17:57# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hér fyrir þessa umræðu og viðveru manna í henni þó að ég neiti ekki hinu að ég sakna pínulítið talsmanna ákveðinna flokka sem af einhverjum ástæðum hafa ekki séð sér fært að vera hér í dag. Það á t.d. við um þingmenn Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna.

Ég verð að segja, herra forseti, að ósköp finnst mér það alltaf dapurlegt þegar menn eru farnir að færa fram sem rök máli sínu til stuðnings að málflutningur andstæðinga þeirra sé gamaldags, eins og hæstv. utanrrh. gerði og hv. þm. Kristján Pálsson. Mér finnst þetta ámóta hallærislegt og það að ég kæmi hér upp og reyndi að gera lítið úr skoðunum hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar með þeim rökum að hann gengi með grátt bindi eða með þeim rökum að honum þættu góðir tómatar. Þetta er svona álíka mikið út í loftið. Ég er ekki viðkvæmur fyrir nafngiftum af þessu tagi og ég segi í fullri einlægni að ég tel mig hafa fylgst nokkuð vel með umræðum um utanríkismál. Eins og t.d. hæstv. utanrrh. ætti að vita hef ég verið virkur þátttakandi í öllum umræðum og allri umfjöllun um utanríkismál á vettvangi Norðurlandaráðs sl. þrjú ár. Ég hef gjarnan verið talsmaður míns flokkahóps í Norðurlandaráði um þau mál og ég tel mig alveg þokkalega lesinn í umræðum um evrópsk utanríkismál.

Ég fullyrði úr þessum ræðustól: Það sem er gamaldags í þessum umræðum hér uppi á Íslandi og það sem er gamaldags á síðum Morgunblaðsins eru tilraunir til að lemja niður öll skoðanaskipti um þessi mál, það eru tilraunir til rétttrúnaðar á óskeikulleika NATO og bandarískra hernaðarhagsmuna. Það er bannað að færa fram önnur sjónarmið inn í umræðuna. Þá eru þau gamaldags eða eiga ekki rétt á sér o.s.frv.

Umræður um þessi mál eru af allt öðrum toga núna t.d. á meginlandi Evrópu og að verulegu leyti á hinum Norðurlöndunum. Að undanskildu kannski Bretlandi má segja að umræður hafi opnast og séu allt aðrar. Menn ræða þar hispurslaust fram og til baka t.d. um hlutverk NATO og hvort það eigi að vera til. Um það eru vissulega skiptar skoðanir og hæstv. utanrrh. á sér vissulega skoðanabræður. En að láta sér detta í hug að fyrir því séu ekki rök að ræða þessa hluti opið, eins og gert er og má gera alls staðar annars staðar en á Íslandi, það er dapurlegt. Svo taka menn það sem sérstaka sönnun þess að NATO sé fullkomið, óskeikult, og að búið sé að byggja þúsundáraríkið í NATO, það verði eldra en Rómaveldi, ef marka má hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, að Austur-Evrópuþjóðir séu að reyna að komast inn í það, koma sér inn undir kjarnorkuhlíf NATO. Það skilur hver maður sem þekkir til ástandsins á þeim slóðum og spennunnar á þessum náttúrulegu og menningarlegu landamærum milli austurs og vesturs sem liggja um miðja og austanverða Evrópu. Í sögulegu ljósi séð og allt þar fram eftir götunum þá skilja það allir. Það er fullkomlega eðlilegt að þessi ríki reyni að koma sér inn í NATO.

En þýðir það að þau séu blind? Hvað sagði Vaclav Havel um NATO, sem á sama tíma var að reyna að fá þjóð sína, fá Tékkland inn í NATO? Hann sagði: Hættan við NATO er að það dagi uppi sem klúbbur íhaldssamra hershöfðingja sem eru að reyna að skapa sér framhaldslíf og tilgang í ljósi breyttra aðstæðna þar sem óvinurinn er horfinn. Þetta sagði Vaclav Havel á sama tíma og hann var að tala fyrir inngöngu Tékka í NATO. Þar fór ekki blindur maður. Þar fór ekki maður sem talar um NATO eins og óskeikult fyrirbæri. Það var ekki svo.

Ég held að hæstv. utanrrh. gerði betur í því en að reyna að afgreiða málflutning manna sem ekki eru honum sámmála með því einu að hann sé gamaldags, að ræða efnislega við okkur t.d. um stöðu NATO, ef við erum að taka það upp á annað borð. Um stækkunina, um útvíkkun valdsviðs NATO, að NATO verði ekki bara svæðisbundið bandalag þeirra þjóða, innan landamæra þeirra þjóða, sem að því standa heldur alheimshernaðarsamtök sem áskilji sér rétt til íhlutunar í fjarlægum heimsálfum. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að ræða við okkur um hugmyndir Bandaríkjamanna um að NATO fái þjóðréttarlega stöðu til þess að grípa til aðgerða án undangengins samþykkis Sameinuðu þjóðanna eða öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það væru efnisleg skoðanaskipti sem akkur væri í en ekki málflutningur af þessu tagi.

Ég held að það væri gaman ef hæstv. utanrrh. kæmi hér með stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart núverandi áherslum utanríkisráðherra Þýskalands um að NATO breyti um afstöðu og hætti að áskilja sér rétt til þess að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Það reifaði Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, á fundi NATO í desember. Hver var afstaða Íslands þá? Hefur Ísland tekið afstöðu í því máli? Er ríkisstjórn Íslands með eða á móti afstöðu þýska utanríkisráðherrans? Þetta væru hlutir sem skiptu máli í umræðunni og að við ræddum um efnislega hluti en ekki á þeim nótum sem mér fannst hæstv. utanrrh. falla í að gera hér áðan.

Tillagan hér er um það að skipuð verði viðræðunefnd til þess að fara í viðræður við Bandaríkjamenn um brottför hersins. Það er algjörlega ljóst að mati okkar sem stöndum að tillögunni hvert á að vera samningsmarkmið í þeim efnum. Og þegar ég tala um samkomulag eða lið í því að sætta meira andstæður um utanríkismál en nú er þá er ég að tala um þetta atriði, að sá fleinn í holdi þjóðarinnar sem erlend herseta hefur verið og mun verða, hann verði þó a.m.k. í burtu. Ég geri mér alveg grein fyrir því að áfram mun menn sjálfsagt greina á um ýmislegt í utanríkismálum. Og ég er ekki að segja að með slíku yrðu menn allir á einni nóttu sammála. Það verður sjálfsagt aldrei. En að a.m.k. yrði sá fleinn í holdi þjóðarinnar sem erlend herseta er, hefur verið og mun verða, þá í burtu.

Satt best að segja, herra forseti, finnst mér dapurlegt að heyra hversu viðhorf eru orðin hér breytt. Látum nú vera viðhorf talsmanna Sjálfstfl. því mér er ljóst að fyrir allmörgum árum síðan hurfu þeir frá þeirri stefnu sinna fyrrum foringja, Bjarna Ben. og Ólafs Thors, að hér ætti ekki að vera her á friðartímum. Hver talaði dyggilegar fyrir þeirri stefnu en Ólafur Thors hér á fimmta og sjötta áratugnum? Það var hann. Það er nokkuð síðan Sjálfstfl. lagði þennan málflutning til hliðar. En ég held að það sé nýtt að formaður Framsfl. afgreiði þá stefnu alveg út af borðinu. Og ég vil spyrja hæstv. utanrrh. og formann Framsfl.: Er það orðin flokksleg stefna Framsfl. að hér eigi að vera erlendur her til frambúðar hvort heldur er á friðartímum eða ófriðartímum? Er það orðin flokksleg stefna Framsfl.? Ef það kæmi í hlut hæstv. utanrrh. að stýra viðræðum við Bandaríkjamenn um áframhald samskipta okkar mun það verða samningsmarkmið hans að halda hernum hér í landinu hvað sem friðartímum eða ekki líður?

Svo geta menn haft þessa dapurlegu heimsmynd fyrir sér sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um, þ.e. að ófriðarhætturnar blasi við hvert sem litið er, eins og hv. þm. sagði og var dapurlegt að heyra því ég, eins og fleiri þingmenn sem hér hafa talað, hélt satt best að segja að menn væru frekar á hinu að friðvænegar horfði, þó að vissulega, því miður, hafi þjóðir eins og Indland og Pakistan verið að sýna klærnar hvað kjarnorkuvopn varðar og allir viti, þó að hæstv. utanrrh. kæmi sér hjá því að nefna það, að í Miðausturlöndum er eitt kjarnorkuveldi, þ.e. Ísrael. Það er ekki Írak. Írak hefur enga getu til þess að koma sér upp þeim vopnum lengur enda er búið að sprengja landið aftur á steinaldarstig. En það vita jú allir sem það vilja vita að Ísrael á um eitt hundrað kjarnorkusprengjur.

Og svo ég svari þá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í leiðinni: Ég er ekki að leggja til að Ísland segi sig úr Vesturlöndum. Það er misskilningur hjá hv. þm. Ég er ekki að leggja til að Ísland segi sig úr Vesturlöndum. Það er annað en hitt að éta gagnrýnislaust upp allt hrátt sem kemur frá Bandaríkjunum, sem auðvitað leiða ferlið. Ég er að leggja til að við látum erlendan her hverfa úr landinu og að við stöndum undir nafni sem friðelskandi og vopnlaus smáþjóð. Ég nefndi t.d. fordæmið Álandseyjar í þeim efnum. Ég gerði það nú.

Hv. þm. Árni Mathiesen virðist hafa misskilið mál mitt þegar hann gaf sér að ég væri að tala um að herinn hyrfi úr landinu á árinu 2000 eða 2001. Það sem við erum að tala um í þessari tillögu er að fyrir þann tíma liggi fyrir samkomulag um hvernig þessar breytingar gerist og þar með talið þá á hvaða tíma þær gerist því að sjálfsögðu sættir maður sig við að þarna þurfi að koma til eitthvert samningsferli og eitthvert tímabil sem þessar breytingar eiga sér stað á. Auðvitað vonum við að það verði sem styst, en aðalatriðið er að samningsmarkmiðin séu þessi og að menn fari í þessar viðræður.

Það fór hrollur um hv. þm., ef ég má leyfa mér að túlka það svo, Kristján Pálsson, þegar hann lýsti því að það væri rosalegt að svona tillögur skyldu hanga yfir þjóðinni, svona skelfilegar tillögur um það að herinn færi. Hv. þm. eiginlega alveg hryllti sig yfir að sjónarmið manna af mínu tagi skyldu yfirleitt vera til. En þau eru til og þau verða til. Og ég skal alveg lofa hv. þingmönnum því, hvaða nafngiftir sem þeir kjósa að gefa afstöðu af því tagi sem ég hef til þessara mála, að þá verður hún áfram til. Vegna þess að ég trúi því og ég veit að áfram verða til menn sem eru á móti vígbúnaðarbrölti, vilja afvopnun og vilja annars konar lausnir í öryggismálum og samskiptum þjóða heldur en vígbúnað og ógnarjafnvægi, og þar með talda hótun um beitingu kjarnorkuvopna. Það er þannig. Ef menn opna gluggana og fylgjast með umræðum um þessi mál t.d. í Evrópu, Ástralíu og yfirleitt flestum öðrum heimsálfum en í Bandaríkjunum --- þar er reyndar þessi umræða vissulega til þó að hún nái ekki mikið inn í stóru fjölmiðlana --- þá er þetta allt öðruvísi. Úti um allan heim er friðarsinnað fólk að reyna að berjast fyrir draumum sínum um afvopnun og um friðsamlegri heim þar sem sú ógnun vofir ekki alltaf yfir mannkyninu að vopnin verði notuð. Og það er ógnunin, hv. þm. Kristján Pálsson, ekki hugmyndir manna.

Ógnunin, hin efnislega ógn er gereyðingarvopnin og verður á meðan þau eru til. Þess vegna má ekki gefast upp í baráttunni fyrir afvopnun og fyrir alþjóðasamningum t.d. um reglur um vopnaviðskipti. Það þarf að kippa tönnunum úr vígbúnaðar- og hergagnaiðnaðinum sem er hættulegasta ógnunin við heimsfriðinn og skapar sér markaði á einn eða annan hátt eins og dæmin sanna og er drjúgur við. Auðvitað á að reyna að koma á þeirri skipan mála í þessum heimi að öryggisgæslan verði á grundvelli lýðræðislega kjörinna og samansettra alþjóðastofnana en ekki í krafti hernaðarlegra yfirburða einstakra aðila. Það fyrirkomulag mun alltaf valda ójafnvægi og spennu því að þegar einn hefur vopnin og hernaðarlega yfirburði þá byrjar einhver annar annars staðar í heiminum að reyna að verða jafningi hans. Það er alltaf það sem gerist og mun gerast í þessu kerfi.

[18:30]

Þess vegna er engin framtíðarlausn fólgin í því né hugsuninni um hernaðarbandalög og ógnarjafnvægi og gereyðingarvopn. Það verður aldrei. Það geta komið tímabil þar sem alþjóðastjórnmál þróast þannig að þetta lítur betur út á einum tíma en öðrum. En það er þannig, það liggur í eðlinu að þetta kerfi er glatað. Það þarf ekki annað en að spyrja sig að því hvernig mannleg samskipti ganga fyrir sig almennt í smærra eða stærra umhverfi, að svona á þetta ekki að vera. Svona á þetta ekki að vera.

Hvers vegna er spennan milli Indlands og Pakistans? Það er af því að hvort land um sig er að tryggja að það sé jafnoki hins. Fyrst var það landherinn. Annar var talinn eiga fleiri skriðdreka en hinn og þá rauk hinn til og keypti fleiri skriðdreka. Síðan eignuðust menn öflugar orrustuþotur. Annar varð á undan að kaupa þær. Þá þurfti hinn orrustuþotur. Svo fréttu Pakistanar af því að Indverjar væru að gera tilraunir neðan jarðar með kjarnorkuvopn og þeir ruku til og fóru að undirbúa það að koma sér upp kjarnorkuvopnum o.s.frv. Við þekkjum þennan vítahring og stigmögnunareðli vígbúnaðarkapphlaupsins mætavel. Það þarf ekki lengra aftur en á kaldastríðsárin til að muna það.

Vilja menn halda þessu svona áfram? Er það framtíðarsýnin? Geta menn ekki nært í brjóstum sínum drauma um eitthvað fallegra og betra ástand en það að friðarins verði að gæta með ógnun við hann sjálfan, þ.e. vopnum? Ég held að það væri illa komið, herra forseti, ef svo færi a.m.k. í íslenskum stjórnmálum að engir þyrðu að vera talsmenn annarra hluta en þeirra sem hér hafa verið fluttir fram af hálfu hæstv. utanrrh. og þeirra sem lagt hafa honum lið úr stjórnarliðinu. Það fannst mér satt best að segja ekki merkilegt.

Að allra síðustu, herra forseti, hnaut ég illilega um eina setningu eða ein ummæli hæstv. utanrrh. Mér þótti verra og lakara að heyra þau úr þeirri átt. Ég kippi mér ekki upp við það þó að þingmenn Sjálfstfl. tali um tekjurnar af varnarliðinu en ég hnaut um það þegar hæstv. utanrrh. spurði mig hvort ég væri þá að leggja til, ef við hættum að hafa tekjurnar af hernum, að við yrðum að hækka lendingargjöld og taka á okkur útgjöld vegna reksturs Keflavíkurflugvallar. Þá spyr ég hæstv. utanrrh. og formann Framsfl. á móti: Er það þá orðið þannig að einnig af hálfu Framsfl. séu tekjurnar af herliðinu hér sjálfstætt tilefni til að hafa hann áfram í landinu? Var það það sem hæstv. utanrrh. var að segja? Það er til sérnafn á íslensku yfir það.