Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:43:01 (3198)

1999-02-02 18:43:01# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að taka það fram að þegar Sjálfstfl. var stofnaður þá fylgdi hann hlutleysi eins og allir stjórnmálaflokkar á Íslandi gerðu þá. Það var ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld að Sjálfstfl. hvarf frá því hlutleysi. Hann gerði það nokkuð á sama tíma og aðrir lýðræðisflokkar á Íslandi, Framsfl. og Alþfl., þó að einstakir menn væru kannski ekki alveg samstiga.

Það viðhorf var uppi að við vildum ekki hafa her hér nema slíkur væri ófriðurinn að við yrðum að hafa hann. Þetta sjónarmið er enn þá ríkjandi. Það vill enginn fara með hernaði nema telja þörf á því. Við höfum gengið í NATO og erum samstarfsmenn þeirra. Herstöðin í Keflavík mun ekki standa hér mínútu lengur en herfræðingar telja nauðsyn á. Það liggur alveg fyrir. Það eru engin önnur sjónarmið á bak við þá herstöð.

Ég vil ítreka fyrri ummæli mín um það að ég ætla að vona að okkar besta vinaríki, Bandaríki Norður-Ameríku, haldi áfram að lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að verja þetta litla lýðveldi hér í Norður-Atlantshafi, verja frelsi þess og fullveldi, jafnvel. Sá tími getur komið að herstöðin verði lögð niður og það skiptir öllu máli.

Auðvitað vilja allir frið. Auðvitað vilja allir stefna að afvopnun. En menn hafa gert það undir mismunandi skinhelgi. Ég veit ekki betur en að eini stóri vopnaframleiðandinn í Skandinavíu heiti Bofors og að þar megi kaupa vopn til skæruhernaðar um allan heim. Ég veit ekki betur en að það liggi fyrir að yfir 20 styrjaldir séu opinberlega taldar háðar í heiminum. Og hv. flm. þáltill. hefur ekki heyrt getið um þetta. Hann virðist ekki vita, herra forseti, að heil heimsálfa, Afríka, logar í ófriði, logar í ófriði hvert sem litið er og ekki er til orð yfir hörmungarnar. Þannig er um heiminn, það eru styrjaldir og styrjaldavá alls staðar og þess vegna skulum við fara hægt fram. Við skulum treysta því sem vel hefur reynst og við skulum halda áfram hinu farsæla samstarfi við Bandaríki Norður-Ameríku.