Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:52:24 (3202)

1999-02-02 18:52:24# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. flm. Steingrímur J. Sigfússon kveinkar sér mjög undan þeirri gagnrýni sem hann verður fyrir út af þessum tillöguflutningi og ég verð að minna hann á að við erum að ræða þáltill. sem hv. þm. flytur og við erum að ræða efnisþætti hennar. Aðalefni hennar er að það verði ekki lengur viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli, það verði gengið til samninga við Bandaríkjamenn um það og langtímamarkmiðið sé að standa utan Atlantshafsbandalagsins.

Síðan segir hann: ,,Við viljum fá að ræða þetta hvern lið fyrir sig.`` Við segjum aftur: Við verðum að hafa eitthvert heildarsamhengi í málunum. Hann talar um stefnu Framsfl. fyrr á tímum. Ég bendi honum á að lesa stefnu Framsfl. sem við samþykktum á síðasta flokksþingi. Við höfum endurmetið okkar stefnu í utanríkismálum. Mér finnst hins vegar að hann og það sem eftir er af Alþb. og þeir sem störfuðu þar um langan tíma hafi á alls ekki endurmetið sína stefnu. Þeir eru að tala um nákvæmlega sömu hlutina og þegar kalda stríðið stóð sem hæst, þ.e. að það eigi að leggja Atlantshafsbandalagið niður. Á sama tíma og allar þjóðir Evrópu hvetja til þess að Atlantshafsbandalagið verði eflt og margar þjóðir sem standa utan þess hafa gengið til samstarfs við það, m.a. Rússar, Úkraína, á meðan lönd eins og jafnvel Sviss og Austurríki, Finnland og Svíþjóð hafa tekið upp náið samstarf við Atlantshafsbandalagið, þá segir hv. þm.: ,,Ísland á að fara úr þessum samtökum.``

Og hann vill ræða þetta án samhengis. (SJS: Án samhengis?) Þú sagðir sem svo. ,,Ja, menn geta náttúrlega rætt það að enginn viðbúnaður verði hér á landi og við verðum samt í Atlantshafsbandalaginu.`` Þetta er því miður mikið óraunsæi, hv. þm. Heldur t.d. hv. þm. að líklegt sé að þau ríki sem ætla að ganga í Atlantshafsbandalagið í Washington á næsta fundi geti lýst því yfir að þau leggi niður heri sína, þau taki ekki þátt í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins? Heldur hv. þm. að það sé skynsamlegt af Íslendingum að segja: Við tökum ekki lengur þátt í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins og ætlum ekki að leggja neitt af mörkum í því samhengi?

Við verðum að meta þessa stöðu í ljósi breyttra tíma og í ljósi þeirrar staðreyndar að við höfum verið í þessu öfluga lýðræðisbandalagi í Evrópu. Við ætlum okkur að halda áfram að vera í því og leggja það að mörkum sem þarf til þess að viðhalda þessu góða samstarfi.

Auðvitað geta orðið þar einhverjar breytingar á og þær ber ekki að útiloka. Það geta orðið breytingar á Keflavíkurstöðinni. En það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að hafa einhvern viðbúnað á Norður-Atlantshafi, ekki aðeins vegna Íslands heldur líka vegna ríkjanna í kringum okkur, vegna þess að við höfum heitið því að við skulum standa sameinaðir í þessu starfi. Það er íslenskri þjóð til framdráttar að halda því áfram.

Þess vegna notaði ég orðið ,,gamaldags``. Ég get alveg eins sagt að þetta sé algjörlega úr (ÖJ: Skoðanalaus.) takti við tímann. Nei nei, ekkert skoðanalaust. (ÖJ: Leiðitamur?) Ég tel að þetta sé alveg úr takt við tímann. (SJS: Óánægður með Bandaríkin.) (EOK: Já.) Hv. þm. geta hrópað svona á mig, haldið áfram að gera það í frammíköllum í hinum ýmsu málum. Það er allt í lagi mín vegna og geta gert það á hverjum degi, hvort sem það varðar Saddam Hussein eða aðra. En aðalatriðið er að við verðum að sjá þetta í einhverju heildarsamhengi og endurmeta stöðuna í ljósi breyttra viðhorfa. Og það er það sem við erum að gera í Atlantshafsbandalaginu í dag. Atlantshafsbandalagið mun samþykkja nýja stefnu á fundinum í Washington og það er nauðsynlegt að ræða þá nýju stefnu á Alþingi.

Ég hef ekki ráðrúm til þess að gera það hér. En það er alrangt sem hv. þm. hefur sagt og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði líka, að stefnt væri að því að NATO yrði eitthvert alheimshernaðarbandalag og ætlunin væri að NATO gæti gripið til aðgerða hvar sem er í heiminum og Bandaríkjamenn væru að biðja um það. Utanrrh. Bandaríkjanna staðfesti það á síðasta fundi Atlantshafsbandalagsins í desember að svo væri alls ekki. Og eitt af því sem verið er að ræða í hinni nýju stefnu bandalagsins er: Hvar eru þessi landamæri? Getur og á bandalagið að grípa inn í hluti sem ekki tilheyra svæðinu?

Það er samstaða um að rétt sé að Atlantshafsbandalagið komi inn í mál á Balkanskaga og það hefur bandalagið gert og það hefur verið ítrekuð ósk fólksins þar að bandalagið hjálpaði til í þeirri lýðræðisþróun sem þar þarf að eiga sér stað. Ég held að óhugsandi sé að ná þar árangri án þess að það haldi áfram.

Hv. þm. var mjög viðkvæmur fyrir því að ég hefði spurt hann um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Það stendur í þáltill. að þetta sé þáltill. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. (SJS: Rétt.) Er það ósanngjörn spurning að hann geri grein fyrir því hvernig hann hugsar sér að það eigi sér stað? Þarf hann að koma svona önugur upp í ræðustól og spyrja að því hvort Framsfl. vilji líka hafa sérstakar tekjur af varnarliðinu? (Gripið fram í.) Hvers konar óskapleg önugheit eru þetta? Ég er að biðja þingmanninn um að gera grein fyrir sínu máli í þinginu, í máli sem hann flytur hér. Ég hef heyrt hann halda hér margra klukkutíma ræður þar sem hann biður ríkisstjórnina að gera grein fyrir afstöðu sinni vegna mála sem ríkisstjórnin er að flytja. Er það ósanngjarnt að hann sé kurteislega beðinn um að gera grein fyrir því? Þarf hann að snúa því upp í þessi önugheit?

Að lokum, herra forseti. Það er verið að undirbúa viðræður við Bandaríkjamenn vegna þess að bókun sem stendur í dag rennur út árið 2001. Undirbúningurinn er þegar hafinn. Við erum að skilgreina okkar samningsmarkmið. En ég get fullvisað hv. þm. um að þau samningsmarkmið sem koma fram í hans málflutningi og hans tillögu rúmast ekki inni í þeim ramma. Mér þykir afar leitt að heyra að samfylkingin hefur hugsað sér að taka undir þessa tillögu, en ég býst við því að það gleðji hv. þm.