Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 19:00:45 (3203)

1999-02-02 19:00:45# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[19:00]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal svara utanrrh. alveg í hvelli. Ég vil að Íslendingar reki sinn millilandaflugvöll sjálfir. Já, ég vil það. Okkur á ekki að vera það ofverk frekar en öðrum sjálfstæðum þjóðum. Ég trúi því að bæði sé hægt að nýta þá aðstöðu sem þar mundi losna þegar herinn færi og hafa af henni tekjur og við gætum ráðið fram úr því.

Ég leyfi mér hins vegar að spyrja á móti út í afstöðu Framsfl. til aronskunnar af því að ég hnaut um þessi ummæli hæstv. ráðherra. Ekki var hægt að skilja hæstv. ráðherra öðruvísi en þannig að hann teldi tekjurnar sem við hefðum af herliðinu sjálfstætt tilefni til þess að hafa herinn hér áfram. Það heitir aronska á mannamáli og greinilegt að hæstv. ráðherra vill fara eitthvert annað í skóginn heldur en að svara þeim spurningum.

Ég kveinka mér ekki undan gagnrýni. Ég fagna efnislegum skoðanaskiptum um utanríkismál og öryggismál þjóðarinnar. Ég bið um efnislega umfjöllun. Mér finnst það ekki mjög efnislegt eða ákaflega rökfast að ætla að afgreiða skoðanir manna sem eru á öðru máli en maður sjálfur með því einu að segja að þær séu gamaldags. Ég leyfði mér að segja að það væri álíka hallærislegt eins og að ég færði það fram sem rök fyrir því að málstaður hæstv. utanrrh. væri vondur að hann gengi með grátt bindi, eða að ekkert mark væri takandi á hv. þm. Kristjáni Pálssyni af því að honum þættu tómatar góðir. Þetta er ámóta merkilegur málflutningur, þ.e. að ætla að reyna að gefa gagnstæðum eða andstæðum sjónarmiðum þeim sem maður hefur sjálfur svona einkunnir og afgreiða þau þannig út af borðinu.

Ég ætla þá bara að segja að að mínu mati er það hin skilyrðislausa fylgispekt við bandaríska utanríkisstefnu og bandaríska hernaðarhagsmuni sem er gamaldags. En hún er auðvitað meira en gamaldags. Hún er lítilmótleg. Og það er því miður þannig að umræður um þessi mál á Íslandi, á Alþingi og víðar, hafa alveg dapurlega tilhneigingu til að fara ofan í þetta far. Það er eins og ekki sé hægt að opna í þeim neina glugga í þeim efnum.

Að lokum, herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fara í viðræður við bandarísk stjórnvöld um að herinn fari. Það er rétt að í greinargerð tillögunnar --- ég vek athygli á því að í greinargerð tillögunnar kemur fram samhengi við okkar afstöðu um það að við eigum einnig að stefna á að ganga úr NATO eða standa utan hernaðarbandalaga. En hæstv. ráðherra hefur tekið þann kost í umræðunni að leggja algjörlega að jöfnu það sem sagt er í tillögugreininni sjálfri og það sem fjallað er um í greinargerðinni og það er hans mál.