Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:47:26 (3214)

1999-02-03 13:47:26# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MLS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Magnús L. Sveinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekkert ofsagt sem kom fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar þegar hann sagði áðan að vandinn væri risavaxinn. Risavaxinn vandi, sagði hv. þm. og ég tek undir það. Ég held við deilum ekki um það. Það kom reyndar fram hjá hæstv. ráðherra að verið er að vinna að þessum málum. Ég verð að segja það sem mína skoðun að mér hefur fundist það vera blettur, vondur blettur á þjóðfélaginu hversu löng bið er eftir hjúkrunarplássi fyrir það fólk sem er í brýnni þörf. Og hvað þýðir brýn þörf? Það er meira en að fólkið sé í þörf. Það er brýn þörf, það þarf nauðsynlega að fá aðstöðu og það er mjög þýðingarmikið að við notum það velferðarþjóðfélag sem við búum nú í til að taka á þessu máli. Það er mjög brýnt.