Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:48:57 (3215)

1999-02-03 13:48:57# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi taldi saman rúmin og ég vil segja honum að á árunum 1998 og 1999 fjölgar hjúkrunarrúmum um 171 á höfuðborgarsvæðinu. Það bætir auðvitað úr þeirri brýnu þörf sem menn eru sammála um að er til staðar. Það er mikill vandi. Það markmið að aldrei verði lengri bið en 90 dagar er ásættanleg bið. Og með því að taka þennan stóra pakka núna eins og við erum að gera, t.d. með því að byggja upp 60 rúma stofnun sem er þegar í forvali og af því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á það áðan að 72 millj. væru ætlaðar til þess verks, þá erum við að tala um reksturinn, við ætlum að setja það í reksturinn á þessu ári. Það er því verið að gera verulega mikla bragarbót.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir sagði áðan að um hreppaflutninga væri að ræða þegar við opnuðum í Ási í Hveragerði. Í Ási í Hveragerði er dvalarheimili og þeir einstaklingar sem eru að fara núna yfir á hjúkrunarheimili hafa yfirleitt verið á dvalarheimilinu en venjan hefur verið að dvalarsjúklingar þar hafi flust til Reykjavíkur. Það gerist ekki nú. Þeir fá að búa áfram þar sem þeir hafa búið undanfarin ár og það tel ég mikið til bóta. En það er sem sagt ekki aðalatriðið hversu margir eru á biðlista heldur hversu biðin er löng. Það að biðin verði ekki lengri en 90 dagar er markmið sem við meira en stefnum að, það er markmið sem við ætlum að uppfylla.