Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:51:16 (3216)

1999-02-03 13:51:16# 123. lþ. 58.2 fundur 175. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er orðið nokkuð langt síðan þessi fyrirspurn var lögð fram. Það er kunnara en frá þurfi að segja og við höfum tekið það fyrir nokkrum sinnum á hv. Alþingi að fíkniefnaneysla ungs fólks, unglinga og jafnvel barna er orðið verulegt vandamál. Neyslan hefur aukist og aldurinn færst neðar. Foreldrar verða oft og tíðum að sinna erfiðu umönnunarhlutverki á heimili áður en pláss fæst á sjúkra- eða meðferðarstofnun og ég veit mörg dæmi þess að annað foreldri, jafnvel bæði, hafi þurft um tíma að segja upp vinnu til að sinna ungum, fársjúkum fíkniefnaneytanda heima hjá sér. Heimilið, fjölskyldan, foreldrarnir og systkini eru undirlögð vegna þess að einstaklingur innan fjölskyldunnar hefur ánetjast fíkniefnum. Þess vegna má segja að þegar unglingurinn eða barnið fær loks pláss á meðferðarheimili er öll fjölskyldan, foreldrarnir og systkinin í þörf fyrir hjálp til að vinna úr vandanum. Það hefur verið lögð rík áhersla á nauðsyn þess í meðferðarstarfi að foreldrar og systkini taki þátt í meðferðarstarfinu. Það hefur hins vegar verið þannig að meðferðarheimili fyrir unglinga og börn í fíkniefnaneyslu eru oftar en ekki staðsett langan veg frá heimabyggð viðkomandi einstaklings og þá kannski sérstaklega ef horft er til höfuðborgarinnar þar sem fjöldi þeirra ungu einstaklinga sem eru í eiturlyfjum er hvað mestur. Ef foreldrar ætla að taka virkan þátt í meðferðarstarfinu þurfa þeir að leggja í verulegan kostnað vegna ferðalaga, jafnvel gistingar og þetta reynist mjög mörgum erfitt vegna bágs fjárhags, þar sem tekjur heimilisins minnka verulega þegar annað foreldrið hefur þurft að segja upp vinnu utan heimilisins og stunda þennan veika einstakling. Það er mjög brýnt að foreldrarnir taki virkan þátt í meðferðarstarfinu vegna barnsins og unglingsins en það er líka brýnt vegna foreldranna sjálfra og systkina viðkomandi. Það er nauðsynlegt að gera þeim kleift að taka þátt í þessu starfi og auðvelda það, m.a. með greiðslu ferðakostnaðar vegna meðferðarstarfsins þar sem fíkniefnaneysla hefur verið viðurkennd sem sjúkdómur og ætti þá að falla undir sömu reglur og ferðakostnaður vegna annarra sjúkdóma.

Á þskj. 180 beini ég eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

Í fyrsta lagi. Hvaða reglur gilda um þátttöku almannatryggingakerfisins í ferðakostnaði foreldra eða aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda sem eru á meðferðarheimilum fjarri heimabyggð? Ef um hlutdeild almannatrygginga er að ræða í þessum kostnaði, hver er hún, og ef ekki, mun ráðherra þá beita sér fyrir breytingum á viðkomandi reglum?

Í öðru lagi. Hver er áætlaður heildarferðakostnaður foreldra eða aðstandenda vegna þátttöku þeirra í meðferðarstarfi á heimilum fyrir unga fíkniefnaneytendur?