Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:54:40 (3217)

1999-02-03 13:54:40# 123. lþ. 58.2 fundur 175. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:54]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda að þarna er um sjúkdóm að ræða sem hefur áhrif á alla fjölskylduna. Hv. þm. spyr mig mjög afmarkaðra spurninga varðandi ferðakostnað. Til að byrja með er rétt að athuga reglur tryggingaráðs nr. 185 frá 28. mars 1996 settar samkvæmt j-lið 36. gr. almannatryggingalaga en þær fjalla um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands. Í 3. mgr. 3. gr. reglnanna segir svo:

,,Sjúkratryggingar endurgreiða með sömu skilyrðum og getið er í 1. mgr. þeirrar greinar, [þ.e. vegalengd sem a.m.k. er 15 km. milli staða] nauðsynlegar ferðir foreldris eða nánasta aðstandanda til að vitja sjúklings 16 ára og yngri. Endurgreiðsla slíkra ferða takmarkast við eina vitjun á viku til sjúklings.``

Þessi aldursmörk hafa nú verið rýmkuð samkvæmt úrskurði tryggingaráðs og er miðað við breyttan sjálfræðisaldur, þ.e. 18 ár.

Sjúkratryggingar almannatrygginga endurgreiða 2/3 hluta kostnaðar af raunverulegu fargjaldi með venjulegri áætlunarferð eða af reiknuðu fargjaldi með áætlunarbifreið á hverjum tíma af eigin bíl ef notaður er. Skilyrði endurgreiðslu sjúkratrygginga er að sjúklingur sé til meðferðar eða óhjákvæmilegs eftirlits hjá lækni, tannlækni eða í sjúkrahúsi eða til þess að njóta óhjákvæmilegrar meðferðar samkvæmt tilvísun læknis eða hjá heilbrigðisstéttum sem sjúkratryggingar hafa samið við. Skilyrt er að endurgreiðslan einskorðist við skilgreinda, alvarlega sjúkdóma. Í dag er ekki gert ráð fyrir að endurgreiðslur eigi við vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða vegna aðstandenda þeirra. Ungir fíkniefnaneytendur sem fá meðferð hjá heilbrigðiskerfinu eru almennt flestir sendir á Vog eða til SÁÁ. Þar er fyrst í stað um skammtímaafeitrun að ræða og er yfirleitt ekki gert ráð fyrir heimsóknum á þær stofnanir meðan á afeitrun stendur. Flestir ungir fíkniefnaneytendur fá síðan meðferð sína utan heilbrigðisstofnana og það er einna helst á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu víðs vegar um land. Þessum meðferðum hefur fjölgað eins og hv. þm. kom inn á í ræðu sinni áðan. Það er orðið mjög algengt að byggja upp slík heimili úti á landi og telja menn að það séu fleiri kostir við það en færri og er að mati fagmanna mjög góður árangur af þeirri meðferð sem yfirleitt er veitt þar.

En til að svara hv. þm. um kostnaðarreglur er ljóst að ekki hefur verið greitt fyrir þá aðila sem hafa verið undir verndarvæng Barnaverndarstofu en um nokkurt skeið hafa þessar greiðslur, ferðakostnaðarreglur verið til endurskoðunar. Tryggingaráð hefur nú skilað tillögum til heilbrrn. og þessar tillögur eru nú bæði til faglegrar og fjárhagslegrar meðferðar í ráðuneytinu.

Varðandi síðustu spurningu hv. þm. um hve mikill ferðakostnaður það er fyrir einstaklinga eða foreldra barna sem eiga við þennan vanda að stríða, þá hefur það ekki verið tekið saman, enda mjög mismunandi kostnaður hjá foreldrum vegna meðferðar.