Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:03:24 (3220)

1999-02-03 14:03:24# 123. lþ. 58.2 fundur 175. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Í allflestum tilvikum er mjög mikilvægt að foreldrar taki þátt í meðferð barnsins. Það er þó mat fagmanna oft á tíðum að barnið þurfi einhvern tíma að fá að vera í vissri einangrun, en í allflestum tilvikum þurfa foreldrar að koma þar að og það er það langæskilegasta. Það er langæskilegast að heimilislífið sé þannig að það sé hægt og það sé gert mögulegt.

En það kom fram í fyrra svari mínu og ég endurtek að þessar reglur hafa verið til endurskoðunar og tryggingaráð hefur þegar komið með tillögur inn í heilbrrn. sem eru núna í faglegri og fjárhagslegri skoðun. Miklar breytingartillögur eru gerðar í þeim tillögum sem fyrir liggja. Að vísu taka þær fyrst og fremst á heilbrigðismálunum, ekki félagsmálunum. (Gripið fram í.) Það skal sagt hér eins og ég sagði áðan, hv. þm., af því að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kallar fram í, þá er þetta bæði heilbrigðis- og félagsmál. Eins og hv. þm. veit er hluti af þessari starfsemi sem félmrn. hefur alfarið á hendi sinni, og ég veit að hv. þm. veit það. Mjög mikilvægt er að samræma þær reglugerðir sem gilda innan heilbrigðisþjónustunnar og félagsmálaþjónustunnar.