Reglur um endurgreiðslu á ferðakostnaði sjúklinga

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:09:19 (3222)

1999-02-03 14:09:19# 123. lþ. 58.3 fundur 257. mál: #A reglur um endurgreiðslu á ferðakostnaði sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:09]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef nú þegar á þessum fundi farið yfir þær reglur sem eru í gildi um ferðakostnað. Varðandi fyrirspurnir hv. þm. um hvað valdi því að ferðakostnaður vegna ýmissa algengra sjúkdóma er ekki endurgreiddur er því til að svara að veruleg uppbygging læknisþjónustu hefur átt sér stað úti um allt land og stefnt er að því að auka hana. Þar að auki hafa sérfræðingaferðir verið skipulagðar út um land en það er nokkuð sem færst hefur mjög í vöxt á undanförnum árum með það fyrir augum að færa þjónustuna til fólksins frekar en að fólkið þurfi að bera sig eftir þjónustunni.

Það er þó auðvitað í mörgum tilvikum svo að hvorki heilbrigðisstofnun né sérfræðingur á ferð fái ráðið við vandann á staðnum þannig að sjúklingur komist ekki hjá því að taka á sig ferðalag til að leita lækninga. Í þeim tilvikum koma sjúkratryggingar til móts við sjúklingana og endurgreiða hluta ferðakostnaðar ef um er að ræða illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega augnsjúkdóma, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og tannréttingar vegna meiri háttar galla eða alvarlegra tilefna. Enn fremur er það falið læknum Tryggingastofnunar að meta að hve miklu leyti aðrir sjúkdómar eða sambærilegir þessum alvarlegu sjúkdómum, sem reglurnar taka til, því heimild er til að greiða fyrir aðra sambærilega sjúkdóma eða alvarleg vandamál í meðgöngu. Það sama gildir einnig fyrir ferðir vegna bráðatilvika sem farnar eru samkvæmt ákvörðun læknis og er ekki hægt að sinna í heimabyggð svo og heimferð, t.d. að loknu sjúkraflugi.

Af þessari upptalningu má sjá að enda þótt illkynja alvarlegir sjúkdómar kunni að vera tiltölulega algengir leiðir ekki af þessari upptalningu að ætlunin sé með þessum reglum að koma til móts við sjúklinga með algenga sjúkdóma eins og fyrirspyrjandi leitar eftir. Í skipulagi heilbrigðiskerfis okkar er reynt að mæta þörfum sjúklinganna sem næst heimabyggð.

Þá er spurt í öðru lagi að því á hvaða forsendum það byggist að ferð vegna tiltekins sjúkdóms sé endurgreidd eða ekki. Eins og fram hefur komið taka reglurnar einungis til alvarlegra bráðatilvika eða alvarlegra sjúkdóma. Matið á því hvort ferðakostnaður vegna tiltekinna sjúkdóma er greiddur byggir þannig fyrst og fremst á læknisfræðilegum forsendum. Eins og ég kom að áðan hafa þessar reglur verið í endurskoðun, þær hafa ekki þótt að öllu leyti réttlátar og tryggingaráð hefur farið vandlega yfir þessi mál og það er í bígerð að breyta töluvert í þá átt að ívilna meira en gert er í dag.