Rannsóknir Margrétar Guðnadóttur

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:18:37 (3226)

1999-02-03 14:18:37# 123. lþ. 58.5 fundur 312. mál: #A rannsóknir Margrétar Guðnadóttur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa borist fréttir af því að ungir íslenskir vísindamenn væru að vinna afrek á sínu sviði. Það sem kannski hefur vakið einna mesta athygli í seinni tíð eru vísindaafrek Margrétar Guðnadóttur prófessors. Þau hafa meira að segja orðið til þess að Morgunblaðið hefur gefið út um hana sérstakt aukablað en því hefði hún ekki spáð fyrir 10 árum að yrði nokkurn tíma á ævi sinni.

Margrét Guðnadóttir var eins og kunnugt er borgarfulltrúi fyrir Alþb. í Reykjavík. Milli Morgunblaðsins og hennar var ekki nein sérstök vinátta á þeirri tíð.

Margrét Guðnadóttir hefur búið til bóluefni gegn visnu eða mæðiveiki í sauðfé. Margrét Guðnadóttir hefur skýrt frá þessu í blaðaviðtölum. Við höfum reyndar fjallað um það aðeins á Alþingi vegna þess að hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir flutti litla brtt. við fjárlagafrv. núna í desember. Það var eina tillagan sem var samþykkt frá stjórnarandstöðunni um lítils háttar upphæðir til þess að kom til móts við þau tíðindi sem birst hafa í þessum blaðafregnum um afrek Margrétar Guðnadóttur.

Margrét Guðnadóttir hefur verið spurð að því í fjölmiðlum hvað hún þurfi til að halda áfram þessum mikilvægu rannsóknum á risnu og mæðiveiki í sauðfé. Þær gætu haft verulega þýðingu í baráttunni við eyðni og hún hefur sagt að hún þurfi fjárhús. Ég geri ráð fyrir því að sjaldan hafi menn verið hógværari í kröfum sínum en Margrét Guðnadóttir miðað við þau afrek sem hún hefur unnið. Hún biður um fjárhús. Kannski hefði ég átt að bera þessa spurningu fyrir hæstv. landbrh. eða hæstv. menntmrh. sem er ráðherra Keldna. Ég taldi engu að síður rétt að bera þetta fram við hæstv. heilbr.- og trmrh. og fyrirspurnin er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Hvað hyggst ráðuneytið gera til að tryggja að Margrét Guðnadóttir prófessor geti áfram unnið að visnurannsóknum, en hún virðist hafa náð tímamótaáfanga í baráttunni við hægfara veirusýkingar?``

Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hún hyggist gera ráðstafanir til þess að Margrét Guðnadóttir prófessor geti eignast fjárhús.