Sjúkraflutningar

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:28:36 (3231)

1999-02-03 14:28:36# 123. lþ. 58.7 fundur 337. mál: #A sjúkraflutningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Með samningi ráðuneytis og Rauða kross Íslands, sem undirritaður var 31. desember 1997, tók Rauði krossinn að sér að sjá um endurnýjun sjúkrabifreiða, búnaðar- og rekstrarkostnað.

Jafnframt fólst í samningnum að Rauði krossinn hættir að bera ábyrgð á launakostnaði og ber heilbrigðisþjónustan nú ábyrgð á launagreiðslum. Í flestum tilvikum sjá starfsmenn viðkomandi heilsugæslustöðva um sjúkraflutninga og hefur verið unnið að því að semja við þá einstaklinga sem hingað til hafa sinnt þessari þjónustu, um að verða starfsmenn viðkomandi stofnunar að þessu leyti. Áhersla hefur verið lögð á að leita eftir því að sömu aðilar sinni þessum störfum áfram. Þannig fáum við notið reynslu þeirra og þekkingar. Hins vegar er heimild til þess að ráða verktaka til þessara starfa og á ákveðnum landsvæðum eru í gildi aðrir samningar. Sem dæmi um það má nefna samning við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ um þjónustu slökkviliðs og við lögregluna í Árnessýslu. Þessi heimild er að sjálfsögðu opin fyrir hverja stofnun eftir almennum reglum.

Hv. þm. spyr einnig hvort þetta verkefni hafi verið tekið frá aðilum á viðkomandi heilsugæslusvæði án samkomulags við þá eða heimamenn. ,,Ef svo er, um hvaða svæði er að ræða og hver er ástæða þess að það var gert?``

Eins og kom fram í fyrra svari mínu er það á valdi stjórnenda stofnananna hvernig þessu er háttað. Heimamenn þekkja best til til að tryggja öryggi sjúkraflutninga.

Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri á og rekur eina sjúkrabifreið. Í samningi ráðuneytis og Rauða krossins er heimildarákvæði um undirverktaka. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á það við Rauða krossinn að samið verði við björgunarsveitina um að sinna áfram óbreyttu hlutverki í sjúkraflutningum, enda hafi þeir mikla reynslu og heimamenn séu ánægðir með þjónustuna. Þannig er reyndar víða á landinu. Björgunarsveitir hafa hlaupið undir bagga þegar mikið liggur við og í þeim tilvikum sem þær hafa séð um þessa þjónustu leggur ráðuneytið áherslu á að ekki verði breyting á. Ef um neyðartilvik er að ræða, t.d. vegna veðurs eða ófærðar verður heilbrigðisþjónustan eins og aðrir landsmenn að treysta björgunarsveitum og öðrum sérþjálfuðum aðilum til að koma til hjálpar.