Sjúkraflutningar

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:31:45 (3232)

1999-02-03 14:31:45# 123. lþ. 58.7 fundur 337. mál: #A sjúkraflutningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Mér finnst hins vegar dálítið merkilegt að heyra að nú rúmu ári eftir að samningurinn er undirritaður eigi enn eftir að ganga frá samningum um sjúkraflutninga á einhverjum stöðum. Eins og hæstv. ráðherra nefndi barst bréf frá heilsugæslusvæðinu á Kirkjubæjarklaustri fyrir nokkuð löngu þar sem athygli okkar var vakin á því að þar hefði ekki verið gengið frá samningum, þeir væru enn í lausu lofti. Mér lék forvitni á að vita hvort það væru fleiri tilvik þar sem enn hefur ekki verið samið, um hversu mörg heilsugæslusvæði er að ræða í þeim tilvikum og við hverja er verið að semja og eins hvort einhverjir hafi farið fram á bætur vegna þess að þeir hafa ekki haldið þeirri þjónustu sem þeir hafa veitt í mörg ár.

Einnig væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig stendur á því að mismunandi kostnaður sjúkraflutninga, sem í mörgum tilvikum eru vegna þess að verið er að flytja eldri borgara af dvalarheimilum aldraðra, er ekki tekinn inn í rekstrargrunn stofnana. Ég nefni t.d. dvalarheimili aldraðra á Klaustri. Okkur hefur iðulega verið bent á að þar sé mjög hár kostnaður vegna sjúkraflutninga sem hafi ekki fengist tekinn inn í rekstrargrunn heimilisins.